Færsluflokkur: Bloggar
11.3.2008 | 04:11
Viðgerðir
Það er ýmislegt búið að vera í gangi í dag. Við fundum út að síminn í húsinu virkaði ekki þegar við ætluðum að fara að nota hann. Það gengur ekki þegar þarf að vera að hringja og panta teigtíma á golfvöllum og hitt og þetta sem þarf að nota símann í. Einnig kom í ljós að eldhúsvaskurinn var síflaður og vatn rann mjög seint og illa niður úr honum. Þar sem ég lofaði Ella bróður því fyrir nokkrum árum að fást ekki við pípulagnir, því það átti það til að enda illa, þá var ég gerður út af örkinni í morgun. Fór í strandgöngu á skrifstofu leigumiðlunarinnar til að láta vita að þessir hlutir væru í ólagi.
Mér var lofað því að menn yrðu gerðir út af örkinni til að laga þetta síðar í dag. Eftir hádegi fórum við með drengina og skildum þá eftir á golfvelli þar sem þeir áttu tíma. Þegar við gömlu vorum búin að koma við á kaffihúsi og sóla okkur í smá stund á svölunum mættu menn frá símanum á svæðið þeir mældu eitthvað út og fundu það út að símalínan frá húsinu hafði verið grafin í sundur við næsta hús. Þeir sóttu gröfu og grófu niður á bilunina og splæstu saman kapalinn þannig að nú er hægt að nota símann til að hringja út um allar trissu. Það er búið að finna það út að það getur verið fljótlega heldur en fara af stað og leita.
Á meðan þessu stóð mætti á svæðið pípari bæjarins. Hann stakk sér í eldhúsvaskinn og mundaði drullusokkinn mjög fagmannlega. Stíflan var ekkert á því að gefa sig svo hann fór út aftur á verkstæðið og sótti annan mun öflugri drullusokk og hamaðist með honum í vaskinum góða stund. Þetta gekk frekar treglega hjá honum svo ég var kominn á kaf í þetta með honum og við báðir með drullusokka að vopni en ekkert gekk. Þá fór vinurinn aftur og nú var sóttur gormur sem átti að þræða gegnum rörið og þrælast í gegnum stífluna og ná henni úr. Rörin undir vaskinum voru rifin í tætlur og gorminum troðið í en ekki gekk að komast í gegnum stífluna. Enn fór vinurinn á verkstæðið og nú voru sóttar öflugri græjur, stiga, sagir, kúbein og fleiri þungavigtarverkfæri. Nú var ráðist á rörið undir húsinu og það sagað í sundur og reynt að troða gorminum hina leiðina því nú var búið að finna út hvar stíflan var. Á meðan vinurinn var að þessu var búið að sækja strákana í golfið og við vorum við búin að fara út og fá okkur að borða. Það var ekki fyrr en ég var aftur kominn í lið með honum að garðslöngunni var troðið upp í rörið og ég var á krananum og skrúfaði frá að fyrirsögn píparans að stíflan losnaði og nú á bara eftir að laga rörið sem sagað var í sundur. Kallgreyið var búinn að vera að brasa í þessu í fimm tíma eða svo og var dauðfeginn þegar ég stakk upp á að hann kæmi aftur í fyrramálið og reddaði rörinu. Hann sagðist myndu mæta hér í fyrramálið og þangað til verður að geyma það að vaska upp.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.3.2008 | 03:25
Sumartími
Í nótt var skipt yfir á sumartíma. Það merkir að við flýttum klukkunum okkar um einn tíma þegar við mundum eftir því í morgun. Þar með töpuðum við aftur klukkutímanum sem við græddum í haust þegar skipt var yfir á vetrartímann. Nú er því fjögurra tíma munur á okkur og Íslandi sem er betra þegar verið er að hafa samband símleiðis heim. Það tók smá tíma að átta sig á að menn eru farir að sofa þegar enn er miður dagur hér hjá okkur.
Annars er þessi dagur búinn að líða í mestu ró og spekt hjá okkur. Sváfum úr okkur ferðaþreytuna í nótt og í morgun. Í morgun var skellt í hafragraut að vanda og hann bragðbættur með nýtíndum jarðarberjum og góðum skammti af ferskmölunum kanil sem gerir grautinn að hinum mesta hátíðamat. Á morgun verur bætt í hann hlynsírópi sem gerir hann enn betri. Eftir hátíðahafragraut og tilheyrandi í morgun var stefnan tekin á ströndina sem er sú lengsta sem við höfum komið á. Við erum hér um bil um miðja strönd og hún nær um 50 km í báðar áttir frá staðsetningu okkar. Allir fengu sinn skammt af sól og hita í hvíta kroppana og seinnipartinn var farið í að fjárfesta í sólaráburðum, vörnum, olíum og öllu sem þarf á að halda næstu dagana. Við skruppum í leiðangur til að kanna golfmöguleika á svæðinu og það virðist vera af nógu að taka hvað það varðar enda hefur Myrtle Beach víst upp á að bjóða mestan fjölda golfvalla pr. ferkílómeter í víðri veröld. Strákarnir eru búnir að panta sér tíma í golf á morgun og ég er viss um að Óskar setur eitthvað um það inn á sína síðu mjög fljótlega.
Húsið sem við erum í er ágætt og greinilega á góðum stað í rólegu hverfi. Húsið er byggt á staurum og bílgengt er undir það. Ég set mynd af því hér inn fljótlega og fer fljótlega í að setja myndir inn á myndasíðuna mína. Það versta er að tengingin sem ég er að ná hér er frekar slöpp en ég mun notast við hana næstu daga engu að síður. Til að ná sambandi þarf maður að sitja með tölvuna á hnjánum út við austurglugga í húsinu og getur þá gert það nauðsynlegasta eins og að setja fréttir hér inn. Hugrún smellti af mér einni mynd í gær þar sem ég er kominn í samband og er að tala heim, nýbúinn að þvo af mér ferðarykið. Eins og sjá má er aðstaðan frekar skrautleg ef svo má segja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2008 | 04:03
Myrtle Beach, SC
Þá erum við loks á áfangastað, eins og segir í kvæðinu. Tókum því frekar rólega í morgun og lögðum af stað frá Richmond um klukkan hálf tíu. Við byrjuðum á því að keyra eftir hraðbrautum en síðan tók GPS tækið sig til og skellti okkur út af þeim og á rólegri vegi og eftir þeim ókum við í gegnum Suður Karólínu til Myrtle Beach. Komum þar á góðum tíma um klukkan fimm. Fundum húsið og komum okkur fyrir. Húsið er á fínum stað í fimm mínútna göngufæri frá ströndinni. Strákarnir skelltu sér út í skoðunarferð og kynntu sér nánasta umhverfi á meðan ég hakkaði mig inn á net nágrannanna og komst í samband heim. Netsamband er frekar tregt en með því að sitja út við austurglugga í húsinu næst tenging og hægt er að komast í það samband sem maður þarf á að halda á meðan maður er í fríi. Ég læt heyra af okkur betur á morgun en fyrir trygga lesendur þessarar bloggsíðu læt ég fylgja með mynd af leið okkar suður á bóginn í dag.
Þess má geta að við kíktum á veðurfréttir í sjónvarpinu í kvöld og sáum þar að við höfum verið rétt austan við mikið hríðarveður sem gekk yfir BNA og Kanada í allan dag. Ef við hefðum farið leiðina sem við ætluðum upphaflega að fara værum við föst einhverstaðar á miðri leið núna í staðinn fyrir að vera komin í sól og sumar hér á ströndinni.
Meira á morgun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2008 | 03:27
Á suðurleiðinni
Við erum búin að halda ágætlega á spöðunum í dag. Höfum lagt að baki 940 km og erum komin til Richmond í Virginíu. Við lögðum af stað klukkan sjö í morgun og hættum að keyra að fundum okkur hótel stundvíslega klukkan níu eins og áætlun sagði fyrir um. Ég var að vonast til að komast rúma þúsund kílómetra en við vorum mjög lengi að komast í gegnum Washingtonsvæðið. Ég skil eftir mjög vel af hverju Bush notar þyrlu til að komast að heiman og heim í Hvíta húsið.
Okkur tókst að komast hjá því að lenda í hríðinni og frostinu sem nú geisar nyrst í Bandaríkjunum og í Kanada með því að fara til Rochester og þaðan í suður. Við vorum því á undan veðrinu í morgun og sluppum við hríð og frost nema í Buffalo til Rochester. Eftir það vorum víð í fínu veðri þar til í Williamsport í Pennsylvaníu en þá fór að rigna. Við áttum von á þessu en það er betra að vera í rigningu en í stórhríð og því erum við fegin að við völdum þessa leið. Við eigum síðan sex til sjö tíma akstur eftir á morgun og ættum að ná á áfangastað á góðum tíma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.3.2008 | 02:36
Lagt af stað í fyrramálið
Þá er komið að því eina ferðina enn. Við erum að leggja af stað í ferðalag í fyrramálið. Hugmyndin er að fara snemma af stað til að geta keyrt sem lengst í dagsbirtunni. Það er líka ástæða til að vera frekar með fyrra fallinu því seinni partinn á morgun kemur enn einn snjóstormurinn æðandi hér yfir. Í þetta skiptið kemur hluti hans neðan úr Mexíkóflóa og blandast síðan köldum vindi sem kemur af sléttunum hér vestan við okkur. Veðri eins og þessu fylgir venjulega mikil snjókoma og hefur verið spáð allt að 50 cm viðbót við snjóinn sem er þó nóg af eins og er. Menn eru farnir að tala um meðtár hvað varðar snjókomu í Kanada og veðurfræðingurinn í sjónvarpinu er með kátari mönnum yfir þessu. Flestir aðrir sem maður talar við eru búnir að fá nóg og vilja nú fara að sjá í vorið. Ástandið er orðið þannig að þegar ég fór í búð hér í gær og ætlaði að fjárfesta í snjóskóflu þá voru þær ekki til lengur en komnar garðyrkjuvörur í svæðið sem áður var fullt af snjómokstursgræjum. Strákarnir brutu nefnilega skófluna við síðasta snjómokstur sem var á þriðjudag. Þá var í áttunda skipti gefið frí í skóla hjá þeim vegna þess að ekki var þorandi að fara út í snjóinn með skólabussana.
Við ætlum okkur að keyra á undan veðrinu en lendum sennilega í hríð í gegnum Pennsylvaníu. Eftir það ættum við að vera í rigningu en síðan þegar við komum sunnar tekur vonandi við sól og blíða. Síðustu daga hefur verið um og yfir 20 stiga hiti á Myrle Beach þangað sem ferðinni er heitið. Við reiknum með að ná um 800-900 km á morgun og erum þá á góðum tíma á áfangastað á laugardag.
Ég sendi blogg hér inn ef við verðum í netsambandi á leiðinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2008 | 21:53
Þorrablót Adamsættar
Í gær var haldið árlegt þorrablót Adamsættar. Það er ekki oft sem við höfum þurft að sleppa því að mæta á þá samkomu. Við töldum þó ekki gerlegt í að vera með þetta skipti, allavega ekki í eigin persónu. Þorrablótið var haldið í Þrúðvangi, sal matvælabrautar í VMA. Þetta er í annað skipti sem fjölskyldan heldur þorrablót á þessum stað. Upphaflega var safnast saman í heimahúsum en síðan þessi hefð skapaðist hefur fjölgað verulega í fjölskyldunni svo heimahús bera ekki lengur þann fjölda sem koma og gleðjast saman. Til þess að missa ekki alveg af gleðinni fékk ég staðgengil minn í VMA til að koma fyrir myndavél í salnum og tengja hana netinu þannig að við hér í Guelph gátum horft á netútsendingu af því sem fram fór á staðnum. Það var verulega gaman að fylgjast með og sjá og heyra aðeins í fólki. Á myndinni með þessari færslu má sjónarhornið sem við höfðum til að fylgjast með. Ef ég hefði komist í þorramat hér í Kanada hefði þetta verið algerlega fullkomið. Það var ekki svo gott en til að bæta úr því þá gerðum við okkur glaðan dag með því að fara út að borða með vinum okkar hér á svæðinu. Í staðinn fyrir súra punga og hákarl urðum við að gera okkur að góðu að narta í Sirloin steik, Genua Fowl og fleira í þeim dúr. Það var svo sem í lagi en ég hefði hiklaust skipt því út fyrir hangikjöt og sviðakjamma. Það verður reyndar haldið þorrablót hér í Toronto þann 29. mars og við höfum hugsað okkur að mæta þangað og taka þátt í því sem þar fer fram. Fyrst ætlum við að fara í ferðalag í sólina og lengja páskafríið okkar í tvær vikur.
Ég er núna að vinna með tölvufólkinu í háskólanum við að skipta út póstkerfi stofnunarinnar og það fer talsverður tími í það þessa dagana. Þetta er mjög viðamikið verkefni og greinilega staðið mjög vel að svona málum hér í skólanum. Þarna er heldur ekki um neitt smákerfi að ræða, það eru um 40.000 netföng sem eru skráð í kerfinu og mikið af gögnum sem þarf að flytja inn í nýtt kerfi. Við erum nokkur sem erum að prufukeyra kerfið núna til að byrja með til þess að reyna að finna út hvaða aðstæður munu skapast þegar skiptin verða. Reiknað er með að prófanir standi fram í maí og þá ætti að vera komin næg þekking á nýju kerfi til að láta það taka við af því sem nú er notað. Væntanlega fer ég einnig að vinna með Open Learnig deildinni við skólann þegar við komum aftur heim eftir páka. Þar er að fara í gang verkefni sem felur í sér skráningu á hugbúnaði og öðru tæknigismói sem notað er við fjarkennsluna í skólanum. Ég hlakka verulega til að fara að vinna í því.
Núna er Ásgeir á leiðinni heim eftir fjögurra daga skíðaferð til Vermont. Það er á honum að heyra að það hefur ekki verið sérlega leiðinlegt í þeirri ferð. Hann heldur síðan áfram að keppa í söngkeppni skólans en þar er hann nú kominn í 8 manna úrslit. Óskar stundar golfæfingar af miklu kappi. Við förum reglulega að hitta Trevor og eftir hans leiðsögn er drengurinn að sýna framfarir og getur varla beðið eftir að snjórinn fari af golfvöllunum hér í bæ svo hægt sé að fara að spila úti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2008 | 16:52
Venjuleg vika
Í morgun fór ég á fætur fyrir allar aldir til að horfa á fund sem haldinn var í Kennaraháskóla Íslands og sendur út á netinu. Ég rauk því á fætur klukkan sex í morgun til að vera kominn fyrir framan tölvuna á réttum tíma. Þar sat ég í dágóða stund með stírurnar í augunum og starði á síðuna þar sem fundurinn átti að vera. Það tók mig dágóða stund að átta mig á því að ég hafði rifið mig upp úr hlýju rúminu tveimur tímum of snemma og fundurinn byrjaði ekki fyrr en klukkan átta að kanadískum tíma. Ég var þó feginn að hafa vaknað tveim tímum of snemma en ekki tveim tímum of seint. Þarna hafði ég þó allavega nægan tíma til að elda mér minn hafragraut og hita mér talsvert að sterku kaffi til að byrja daginn á réttan hátt. Fundurinn byrjaði síðan á fyrirfram ákveðnum tíma og eiga þeir í Kennó heiður skilið fyrir að setja þetta á netið fyrir okkur sem eigum erfitt með að mæta á svæðið.
Annars er allt á venjulegu róli hjá okkur nema Ásgeiri sem stoppar lítið þessa dagana. Hann er núna í vetrarútilegu með skólanum. Farið var í gærmorgun af stað útfyrir bæinn og þar stóð til að búa til snjóhús til að sofa í síðastliðna nótt. Það ætti að hafa gengið vel því nóg er af snjó á svæðinu og enn bætir í hann. Síðan var meiningin hjá hópnum að fara um svæðið á gönguskíðum og fleira tengt útiveru að vetri. Hann kemur heim seinnipartinn í dag og hefur þá tíma þar til í fyrramálið að gera sig kláran í skíðaferð til Vermount fylkis í USA en þangað fer hann einnig með skólanum. Hann er kominn í badminton lið skólans og tók að sér að þjálfa að vera aðstoðarþjálfari í skólanum. Hann þarf því að fara á fætur fyrir allar aldir á morgnanna og koma sér í skólann (sem þýðir aftur að einhver með bílpróf þarf að vakna með honum) til að mæta á æfingar. Nú svo til að hafa nú eitthvað fyrir stafni þá tík minn maður þátt i Centennial Idol sem er söngkeppni í skólanum og þar er hann kominn áfram ásamt níu öðrum og þarf að æfa sig að syngja öllum öðrum í fjölskyldunni til ómældrar ánægu.
Óskar stundar aftur á móti golfið og er kominn kominn í samband við náunga sem rekur inni golfaðstöðu hér í Guelph. Þangað getur hann farið þegar hann vill til að æfa sig betur á því sem Trevor vinur okkar er að sýna honum þegar við förum til Burlington um helgar. Þeir bræður tóku þátt í inntökuæfingu fyrir fótboltalið skólans og komust í liðið þar en ákváðu í sameiningu að hætta við þátttöku í því vegna þess að æfingar eru haldnar klukkan sex á morgnanna og það þykir frekar ókristilegur tími til að fara á fætur. Ég stóð algerlega að baki þeim í þessari ákvörðun. Það fer að styttast í að golfvellirnir opni hér og það verður ágætt að taka smá forskot á vorið og sumarið með ferðinni á Myrtle Beach en þangað leggjum við af stað eftir tæpar tvær vikur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.2.2008 | 19:23
15 cm. í viðbót
Það bættust um 15 cm. við snjóalögin í gærkveldi og ekki er séð fyrir endann á þessari ofankomu enn sem komið er. Ég fór út og mokaði bílastæðið fyrir svefninn og þurfti svo að fara aftur út að moka í morgun. Veðurfræðingurinn á Global stöðinni í Toronto er með kátari mönnum þessa dagana og hefur endalaust gaman af að tala um hve mörg met hafa verið slegin hér varðandi snjóalög nú í vetur. Í fréttum keppast menn við að sýna snjóinn og ófærðina og mikið er gert úr þessu öllu.
Í gær voru menn varaðir við að skilja snjóblásarana sína eftir úti því þeim er umsvifalaust stolið og seldir í undirheimum Toronto. Þetta eru eftirsóttustu tækin núna og löngu uppseld í öllum búðum. Við látum okkur duga skófluna enn sem komið er en fáum lánaðan blásara nágrannans stöku sinnum.
Hugrún er búin að taka á leigu hús á Myrtle Beach í Suður Karolínufylki í mars. Þá er frí hjá strákunum í skólanum og við ætlum að nota nokkra daga til að fara í sól og sumar þangað. Reiknum með að vorið verði komið hér í Kanada þegar við komum til baka.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.2.2008 | 18:21
Í dag er hann svalur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.2.2008 | 19:13
Föstudagur og helgin framundan
Enn ein vikan að klárast og við því er ekkert að gera. Það eina sem tíminn gerir er að ganga og það er alveg greinilegt að hann gerir það. Nú fer að nálgast hálft ár síðan við lögðumst í þessa útlegð og það þýðir að það fer að styttast í heimferð að nýju. Ég stóð mig að því í dag að vera að skoða heimasíður skipafélaga og gjaldskrá þeirra fyrir flutninga heim. Það er ekki ráð nema í tíma sé tekið. Borgar sig að skipuleggja þetta eins og hægt er svo við lendum ekki í tómu veseni með þetta þegar líður á vorið.
Í gær var keyptur flugmiði fyrir mömmu hingað til okkar í enda maí og það verður frábært að fá hana til okkar. Vona bara að hún verði sem lengst og sjái sér fært að ferðast með okkur í restina á veru okkar hér.
Í gær gekk Hugrún frá leigu á húsi í Suður Karólínufylki sem við ætlum okkur að vera í um páskana. Það stendur til að aka þangað og vera nokkra daga í sól og sumri, hleypa strákunum í golf og í sjóinn og koma síðan hingað aftur, beint í kanadískt vor eins og þau gerast best.
Reyndar bólar lítið á vorinu enn sem komið er enda febrúar rétt að byrja. Ég tók nokkrar myndir í götunni hjá okkur í gær og sýna þær að nokkru leiti snjóalög sem eru hér í bæ.
Um helgina stendur til að skutlast með Óskar á golfæfingu á laugardag og handboltaæfingu á sunnudag. Vona bara að færð og veður hamli því ekki. Veðurspáin er ágæt en reiknað er með snjókomu á sunnudag og næsta vika á að vera frekar köld.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Adam Ásgeir Óskarsson
Tenglar
Tengdar síður
Nokkrar síður sem vert er að skoða
- Myndasíða Myndasíða
- Ásgeir Andri Adamsson Hér bloggar Ásgeir
- Óskar Helgi Adamsson Hér bloggar Óskar
- Lilý Erla Adamsdóttir Hér blogagr Lilý
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar