5.9.2007 | 18:22
Lítill heimur
Á laugardagsmorguninn síðasta fórum við Hugrún í bíltúr hér um bæinn til að kíkja á nokkrar auglýstar bílskúrssölur. Þegar við vorum búin að keyra um í góða stund var okkur farið að langa í kaffi og meððí. Við fundum okkur Tim Hortons (kaffihúsakeðja hér í landi) og ákváðum að skella okkur þar inn til að fá okkur hressingu. Þá rek ég augun í verslun sem mér hafði verið bent á að seldi veiðivörur o.fl. Ég var búinn að hugsa mér að fara og finna þennan stað en þarna er búðin við hliðina á kaffihúsinu. Ég hafði orð á því við Hugrúnu að þetta væri mikil tilviljun. Einhverjir gætu haldið að ég hefði viljandi farið á þessar slóðir en svo var ekki.
Þegar við höfðum stundað okkar kaffi og djúsdrykkju um stund fannst mér ég verða að kíkja inn í sjoppuna fyrst hún var þarna við hliðina. Ég fer inn og er dágóða stund að spá í veiðistangir og ýmislegt til fluguveiða og hnýtinga. Ég hafði lítið af þesslags dóti með mér hingað út heldur hafði ég ætlað að verða mér úti um það hér - á gjafverði. Ég sá um leið og ég gekk inn í búðina að þarna var boðið upp á námskeið í fluguhnýtingum og þegar afgreiðslumaður veitti okkur athygli og vildi fara að hjálpa okkur spyr ég hann út í námskeiðið. Ég vil gjarna komast að á námskeiði í þurrfluguhnýtingum svo ég spyr um hvort það verði ekki í boði í vetur. Sá sem afgreiddi okkur var einnig námskeiðshaldarinn. Hann tjáði mér að slík námskeið yrðu haldin um leið og fjórir hefðu skráð sig svo ég kom mér á lista og nú bíð ég eftir hinum þremur.
Nema hvað. Það kemur upp í samræðum okkar að við Hugrún kæmum frá Íslandi. Sölumaðurinn hafði heyrt af Íslandi sem miklum draumastað til að veiða. Hann sagði mér að hann hefði í fyrravetur farið á fyrirlestur hjá Kanadamanni sem hefði verið að veiða á Íslandi. Sá hefði sýnt myndir frá íslenskum ám og gert mikið úr því hve gaman hefði verið að fara þangað. Í einhverju bríaríi spyr ég hvort fyrirlesarinn hefði ekki örugglega heitið Carl O´connor og væri formaður í Canadian Cane, félagskap hér sem smíðar veiðistangir. Afgreiðslumaðurinn varð mjög hissa á svipinn og spyr hvernig ég vissi þetta því hann myndi ekki eftir að ég hefði verið á þessum fyrirlestri. Ég sagði honum að ég hefði verið að veiða með Carli þessum heima á Íslandi í nokkra daga. Hann mundi þá eftir að hafa séð mér bregða fyrir á einhverjum myndum sem sýndar voru á fyrirlestrinum. Ég dró upp nafnspjald sem Carl hafði látið mig hafa og sýndi honum. Eftir þetta varð hann besti vinur minn og gaf mér fullt af leiðbeiningum um hvert ég ætti að fara að veiða hér. Hann seldi mér þurrflugur á sérstökum afslætti og brosti út fyrir bæði eyru.
Hverjar eru eiginlega líkurnar á að hitta á svona.
Um bloggið
Adam Ásgeir Óskarsson
Tenglar
Tengdar síður
Nokkrar síður sem vert er að skoða
- Myndasíða Myndasíða
- Ásgeir Andri Adamsson Hér bloggar Ásgeir
- Óskar Helgi Adamsson Hér bloggar Óskar
- Lilý Erla Adamsdóttir Hér blogagr Lilý
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.