Halloween

Graskerin hennar HugrúnarMiðvikudagur 31. október er Halloween dagur hér í Kanada. Við vorum við öllu búin hér í kvöld og vorum búin að koma okkur upp feikimiklum sælgætisskammti til að fóðra börnin hér í hverfinu á. Fjörið byrjaði um klukkan sex og stóð til klukkan níu eða þar um bil. Krakkarnir ganga í hús og fara fram á sælgæti eða þau muni gera grikk. Við Hugrún byrjuðum á að fara bæði til dyra þegar hringt var og dáðumst að búningum stubbanna sem stóðu fyrir utan. Fórum auðveldu leiðina og gáfum öllum nammi og tókum ekki séns á að láta gera okkur grikk. Fyrir rest vorum við svo farin að skiptast á að fara til dyra.

Graskerin hennar Hugrúnar

 Þetta er greinilega mikill dagur því hér í kring eru sum hús skreytt í bak og fyrir og búið að koma upp heilu draugahúsunum framan við húsin. Hugrún tók sig til og fór og varð sér úti um grasker sem hún skar í andlit. Þessu var stillt á tröppurnar hjá okkur og lýst að innan með kertaljósi. Ég var álíka spenntur fyrir þessu og að hengja upp jólaskraut heima hjá mér en sú gamla var ekki á því að sleppa þessu og tók til sinna ráða og gerði þetta á meðan ég var í skólanum í dag.

Annars er allt búið að vera í nokkuð föstum skorðum hjá okkur síðustu daga. Síðasta helgi var löng helgi hjá strákunum í skólanum því það var vinnudagur kennara á föstudaginn. Við ætluðum okkur að skreppa í útilegu norður að Georgian Bay. Höfðum hugsað okkur að leigja okkur sumarbústað og ferðast eitthvað út frá honum. Veðurspáin var ekkert sérstök og strákarnir voru komnir með heilmikla dagskrá fyrir helgina svo við hættum við að fara að þessu sinni en fórum í staðinn til Burlington. Óskar spilaði þar golf með Trevor og fleirum á meðan við Hugrún eyddum tímanum með Claudiu.

Ég hef farið út að hjóla næstum daglega eftir að ég kem heim úr skólanum. Það hefur verið frábært veður til að þvælast um sveitavegina hér í nágrenninu. Venjulega hjóla ég í ca. klukkutíma en þá er ég venjulega orðin rammvilltur og veit ekki hvar ég er staddur. Þá er GPS tækið ræst og það notað til að leiðbeina manni heim á leið aftur. Dásamlega græja sem veit alltaf hvar maður er staddur og hver stysta leiðin er heim ef maður þarf á því að halda. Náði mér í tæki sem ég get verið bæði með á hjólinu og í bílnum og þetta er búið að vera snilld að ferðast síðan. Við höfum ekki þurft að taka upp götukort og aldrei villst, að sjálfsögðu aldrei verið spurning um hvort ætti að fara til hægri eða vinstri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, svona tæki eru hreinasta snilld....ekki spurning. Þekki það af eigin raun.
En farðu nú að drattast til að æfa þig í að hengja upp jólaskrautið.... menn hér uppi á klakanum eru að minnsta kosti við það að byrja á því, ef ekki byrjaðir....

Bið að heilsa Hugrúnu og segðu henni að graskerin séu flott!!!! 

Eygló (IP-tala skráð) 2.11.2007 kl. 17:59

2 identicon

Eruð þið ekki að djóka? Þorði varla að setja inn í ruslpóstvörnina, gruna ykkur um að vera að fíflast með mig! Var að njóta bloggsins hennar dóttur ykkar og lesa aftur í tímann, því í gær fékk ég nettengingu hér heima og fer að verða viðræðuhæf. Gaman að lesa um hrekkjavökuna hjá ykkur, upplifði hana einu sinni hjá syni mínum og fannst tengdadóttir mín amerísk hafa jafnvel enn meira gaman af en börnin. Nú eru þau flutt heim og þegar ég hélt út í okt. var hún í þungum þönkum yfir hvernig hún gæti haldið hefðinni lifandi á Íslandi. Vona að þið hafið það gott, á eftir að lesa yfir bloggið ykkar nema það síðasta, sá bara slóðina hjá Lilý og smellti mér inn á hana. Kær kveðja, Jóna Lísa á Kanarí

Jóna Lísa (IP-tala skráð) 3.11.2007 kl. 11:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Adam Ásgeir Óskarsson

Höfundur

Adam Ásgeir Óskarsson
Adam Ásgeir Óskarsson
Kerfistjóri í orlofi.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Draugaskip ?
  • Flottur di
  • Sæll og glaður
  • Útsýni frá gististaðnum í Jeddore
  • Charlo - Jeddore

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband