22.12.2007 | 00:28
Jólafrí
Þá eru allir komnir í jólafrí. Strákarnir voru í skólanum fram að hádegi í dag og eru fegnir að fá nokkra daga frá skólanum. Ég er búinn að vera í fríi í gær og í dag og ætla mér að taka því rólega fram yfir áramót.
Á þriðjudag tókum við okkur auka frídag og skruppum í menningarleiðangur til Toronto. Þar notuðum við daginn til að njóta lista og menningar. Við fórum í gamlan bæjarhluta borgarinnar sem búið er að friða að hluta. Þar hefur gömlum byggingum sem áður hýstu bruggverksmiðju verið breytt í listahverfi. Húsin eru friðuð og því hefur galleríum, vinnustofum listamanna, verslunum, kaffihúsum, leikhúsum og öðru verið komið fyrir á svæðinu þannig að sem minnstu hafi verið raskað. Hverfið allt og umhverfið var mjög skemmtilegt og gaman að eyða deginum á svona stað. Við vorum mætt þarna fyrir hádegi og nutum þess að skoða málverkasýningar, ljósmyndasýningar og ýmislegt annað sem fyrir augu bar. Fundum okkur kaffihús og sátum þar yfir kaffibollum og hlustuðum á góða tónlist á meðan. Í hádeginu var síðan farið á næsta veitingastað og þar borðuðum við innan um bjórgerðartæki og bruggkatla af ýmsum gerðum. Myndir úr ferðinni er að finna hér.
Við erum að undirbúa jólin á okkar hátt og erum laus við allt stress hvað það varðar. Við höfum skroppið í bæinn í jólagjafaleiðangra, öll saman eða sitt í hvoru lagi eins og gengur. Jólahangikjötið er komið í hús og verður soðið á Þorláksmessu eins og vera ber. Tvíreykta lærið sem mamma sendi er langt komið og það hefur verið hreinn unaður að fá sér bita og bita af því síðustu dagana. Ég hafði upp á slátrara hér í bæ sem útvegaði okkur jólasteikina og það vantar ekkert nema grænu baunirnar frá Ora en því verður reddað með einhverju öðru. Laufabrauð verður gert hér á heimilinu í fyrramálið og þá mega jólin bara koma.
Lilý er búin að vera hjá okkur í rúma viku og það hefur verið frábært að hafa hana hjá okkur. Verst að hún þarf að fara heim strax eftir jólin og getur ekki verið með okkur um áramótin. Vera hennar hér hefur leitt af sér ferðir á listasöfn og menningarstaði sem við höfðum ekkert verið að spá mikið í fram að þessu. Þau systkin hafa líka virkilega notið sín saman.
Hugrún er búin að hafa upp á húsi á Flórída sem hún er búin að taka á leigu fyrir okkur og stefnan er tekin beint í suður á þriðja dag jóla. Við ætlum okkur að aka þetta á tveimur dögum og vera síðan viku í sólinni og notalegheitum yfir áramótin. Það stendur til að spila golf og jafnvel að reyna að renna fyrir fisk ef gefur á sjóinn. Það ætti ekki að fara illa um okkur þarna því við verðum með einkasundlaug og hvaðeina sem þarf til. Nánar um það seinna.
Um bloggið
Adam Ásgeir Óskarsson
Tenglar
Tengdar síður
Nokkrar síður sem vert er að skoða
- Myndasíða Myndasíða
- Ásgeir Andri Adamsson Hér bloggar Ásgeir
- Óskar Helgi Adamsson Hér bloggar Óskar
- Lilý Erla Adamsdóttir Hér blogagr Lilý
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 593
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Baunirnar frá "Green Giant" eru alveg boðlegar þó að þær slái auðvitað ekki sjálfan ORA út. Síðan ef þið sjáið malt sem heitir "Malta", er það líka ágætt, þó ekki eins sætt og það Íslenska, minnir svolítið á gamla SANA maltið. Orangina er fínt appelsín sem kemur alla leið frá Ítalíu.
Það verður vonandi gaman fyrir ykkur í Florida ferðinni, við erum þar akkúrat núna og lifum eins og blóm í eggi (ég sjálfur er þó svolítið rautt blóm).
Bestu sólar og jólakveðjur
G. Tómas Gunnarsson, 22.12.2007 kl. 12:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.