Hann Ásgeir á afmæli í dag

Litli drengurinn minn er 17 ára í dag. Ég veit hann yrði ekki ánægður með byrjun þessarar bloggfærslu en hann er samt litli drengurinn minn ennþá. Ég veit ekkert um hvenær hann verður stór. Nú væri hann að hamast við að læra á bíl og taka bílpróf ef við værum heima. Það verður allt að bíða þar til við komum heim og sennilega líður fram á haust áður en minn maður fær réttindi til að keyra bíl. Þetta hefði mér þótt súrt í broti á sínum tíma en ég dáist að mínum manni fyrir hvað hann er rólegur yfir þessu öllu saman. Hann er farinn að telja dagana þar til hann fer heim og tilkynnti áðan að það væru 103 dagar þar til hann yrði kominn á meðal vinanna heima á Akureyri. Þeir bræður eiga mikinn heiður skilið fyrir að nenna að vera með foreldrunum á þessu flakki í vetur og við lítum á okkur sem heimsins heppnustu foreldra að eiga þessa drengi. Ég er hræddur um að okkur hefði leiðst að vera tvö að gera það sem við erum búin að vera að fást við í vetur.

Dagurinn byrjaði klukkan sex í morgun hjá mér en þá fór ég á fætur til að fara á sjóinn að veiða en ég var búinn að panta mér far með bát þar sem farið var að veiða með sjóstöng. Ég lagði það að sjálfsögðu á mig að rífa mig upp löngu áður en það fór að birta og keyrði í klukkutíma til Norður-Karólínu til að fara að veiða. Það var frekar svalt í morgun þegar ég lagði af stað svo ég sleppti því að borða grautinn úti á svölum en það hefur verið gert á hverjum morgni fram að þessu. Lagt var af stað og siglt til hafs í tæpan klukkutíma áður en farið var að veiða. Það var heilmikill afli og eingöngu Bigmouth Bass fiskur sem minnti mig á einhverskonar karfa nema hann var ekki rauður á litinn. Þetta voru frekar litlir fiskar og ekki mikið fyrir því haft að draga þá innbyrðis þegar þeir tóku. Ég átti lengi vel stærsta fiskinn en þegar farið var að mæla kom í ljós að hann var tveimur únsum minni en sá sem mældist stærstur. Ég gaf það sem ég hirti og kallarnir sem fengu fiskinn voru ferlega glaðir með þetta og sögðu mér að þetta væri  mesta hnossgæti.

Um kvöldið var farið út að borða og nú átti Ásgeir að velja stað í tilefni dagsins. Ég átti von á að hann veldi MacDonalds eða eitthvað í þá áttina en drengurinn sýndi að hann er að mynda sér dannaðri smekk en það og valdi að fara á Longhorn, stað þar sem eru á boðstólum mjög sverar steikur og allt í stíl. Við fengum okkur rækjur og kjúklingarúllur í forrétt, í millirétt var síðan ferskt salat. Þar á eftir komu steikur, rif, humar og lax eftir smekk hvers og eins og á eftir voru desertar sem var orðið verulegt vandamál að koma niður. Ég verð ennþá hissa þegar ég sé reikningana eftir svona máltíðir. 128 dalir var það sem við máttum borga fyrir þessar veitingar. Ég ætla mér ekki að reyna að gera mér í hugarlund hvað þetta myndi kosta heima.

Nú erum við komin heim í bústaðinn og ætlum að vera hér í kvöld. Það er spáð þrumum og eldingum hér síðar í kvöld og í nótt og mér finnst ég vera farinn að heyra í veðrinu í fjarska. Vona bara að húsið leki ekki mikið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Ósk Adamsdóttir

Til hamingju með drenginn

Katrín Ósk Adamsdóttir, 15.3.2008 kl. 00:59

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Til lukku

Hólmdís Hjartardóttir, 15.3.2008 kl. 01:46

3 identicon

Til hamingju með daginn litli drengur.

Bestu kveðjur

Vestursíðugengið

Hörður Óskarsson (IP-tala skráð) 15.3.2008 kl. 16:38

4 identicon

Við sendum okkar bestu afmæliskveðjur til Hugrúnar, vonandi eigið þið góða daga í sólinni. Ásgeir fær síðbúnar afmæliskveðjur frá okkur líka héðan úr sól og snjó þar sem Hlíðarfjallið er mikið aðdráttarafl fyrir flesta:)

Kveðjur Erna Rós, Hörður og börnin.

Erna og Hordur (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 09:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Adam Ásgeir Óskarsson

Höfundur

Adam Ásgeir Óskarsson
Adam Ásgeir Óskarsson
Kerfistjóri í orlofi.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Draugaskip ?
  • Flottur di
  • Sæll og glaður
  • Útsýni frá gististaðnum í Jeddore
  • Charlo - Jeddore

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband