4.5.2008 | 04:41
Springfield - Rolla (Dagur 4)
Í dag lá leiðin í gegnum sléttlendið í Illinois og inn í Missouri. Til að byrja með rigndi á okkur en það lagaðist þegar leið á daginn. Í Illinois er greinilega stundaður landbúnaður af miklum móð og mikið ræktað af alls konar gróðri. Endalausir akrar eins langt og augað eygði og einstaka bæir með heljarinnar geymslum undir korn, sojabaunir, hveiti og hvað annað sem menn eru að fást við að rækta. Franska parið sem er með okkur í ferðinni eru bændur þau eru nýlega búin að gifta sig og eru í brúðkaupsferðalagi. Þau sögðu okkur í hádeginu að þau hefðu hlakkað til að sjá þetta svæði. Vinurinn var algerlega heillaður af því sem hann sá og fræddi okkur á því að hann hefði aldrei séð aðra eins traktora og þá sem við mættum á leið okkar þarna í gegn. Þeir voru heldur engin smásmíði og við Pétur vorum sammála um að það þyrfti ekki marga slíka til að plægja öll tún í Skagafirðinum og jafnvel í Eyjafirðinum líka eftir hádegið.
Rétt eftir hádegið fórum við yfir Mississippi ánna rétt utan við St. Louis og stoppuðum þar til að skoða gamla brú sem nú er aflögð en stendur eftir sem eitt af minnismerkjunum um Route 66. Mississippi áin er ekkert smáfljót og hefur greinilega verið mikill farartálmi á leiðinni vestur á bóginn á sínum tíma.
Áfram var haldið í suðvesturátt og stoppað á nokkrum stöðum á leiðinni. Einn þeirra staða var safn með alls konar minjum um Route 66 og það eru nokkrar myndir frá því safni á myndasíðu dagsins. Safnið stendur við fallega á og ég stóð þar á brúnni og var að mynda og spekúlera í því hvort ekki væri fiskur í ánni þegar kemur flottur kappi á þessu líka fína Harley hjóli með tvær veiðistangir fyrir aftan sig. Hann var greinilega að koma úr veiðitúr. Ég náði því miður ekki að mynda kappann en vona bara að hann hafi fengið eitthvað.
Síðasta stoppið í dag var svo á safni um Jessy James en það er byggt í kringum hella sem hann á að hafa falið sig í þegar hann var á flótta undan lögum og rétti. Þetta var flottur staður og gaman að koma þar. Allt skógi vaxið og hlutirnir í miklum blóma.
Gistum í nótt á Best Western hóteli í suðurhluta Rolla og erum búnir að fara og fá okkur hressilega í svanginn á góðu steikhúsi hér rétt við hliðina. Eftir matinn missti ég Pétur í verslunarferð og hann er rétt kominn í hús með fulla poka af dóti úr WalMart. Ég sé fram á að þurfa að taka af honum kreditkortið ef svona heldur áfram :-)
Myndirnar að sjálfsögðu á sínum stað.
Um bloggið
Adam Ásgeir Óskarsson
Tenglar
Tengdar síður
Nokkrar síður sem vert er að skoða
- Myndasíða Myndasíða
- Ásgeir Andri Adamsson Hér bloggar Ásgeir
- Óskar Helgi Adamsson Hér bloggar Óskar
- Lilý Erla Adamsdóttir Hér blogagr Lilý
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.