Williams - Laughlin (Dagur 13)

Williams - LaughlinVegna hátíðahaldanna í gærkvöldi var haldið af stað klukkutíma seinna en venjulega. Leiðin lá nokkrar mílur eftir hraðbrautinni frá Williams. Þar tók Routet 66 við og héldum við okkur síðan á henni meiri hluta dagleiðarinnar. Við fórum í gegnum nokkra bæi sem byggðust upp fyrst og fremst sem þjónustubæir fyrir þá sem voru að ferðast milli landshluta eftir Route 66. Við fórum fyrst í gegnum smábæinn Ash Fork og þaðan lá leiðin til Seligman. Þar var búið að ákveða að stoppa og borða morgunmatinn þar en ekki á hótelinu. Við fórum á þennan líka fína stað í þessum smábæ sem er ekki mikið annað en nokkur veitingahús, mótel og minjagripaverslanir. Þarna var hægt að versla alla mögulega minjagripi og ef það er hægt að setja 66 merkið á hlut þá var hann til í þessum búðum. Þrátt fyrir að flestir séu búnir að versla meira en nóg af minjagripum bættu flestir á sig einhverju. Það var allt frá fingurbjörgum, veggmyndum, límmiðum og leðurjökkum og ég veit ekki hvað og hvað. Leiðsögumaðurinn fór í sína árlegu vorklippingu hjá rakara sem er búinn að vera með rakarastofu þarna í bænum í meira en fimmtíu ár.

Eftir gott stopp var haldið af stað aftur og leiðin lá í gegnum bæinn Hackberry og þaðan áfram til bæjarins Kingman. Þar var stoppað hjá Harley vini okkar og enn var bætt við sig bolum og fleiru sem ekki er hægt að vera án.

Hvor er asnalegriÁfram lá leiðin og nú var haldið upp í móti og farið í gegnum fjallaskarð og stefnan sett á bæinn Oatman sem er gamall gullgrafarabær uppi í fjöllunum. þarna var farið í gegnum skarðið eftir frekar þröngum vegi með mörgum hlykkjum og bratt niður af veginum. Þegar við komum til bæarins Oatman var eins og við værum komin í annan heim. Umhverfið var eins og maður hefur séð í gömlum vestrum og greinilega gert í því að halda því sem slíku. Þeir sem voru svangir fóru og fengu sér buffalóhamborgara á stað sem kallaður er milljóndollarahótelið. Þetta er staður sem maður hafði á tilfinningunni að væri að syngja sitt síðasta. Upp um alla veggi var búið að hefta dollaraseðla sem gestir staðarins höfðu skrifað nafnið sitt á og hefta á veggi og loft og hvar sem hægt var að hefta. Mjög skrítinn staður. Þetta var gamalt hótel á sínum tíma og það vantaði ekkert nema Clint Eastwood og Jón Væna til að gera staðinn algerlega raunverulegan. Um bæinn röltu asnar sem upphaflega voru notaðir í sambandi við gullgröftinn á svæðinu en eru nú villtir þarna og asnast í fólki sem kemur við í bænum.

Við erum búin að vera að koma okkur niður af hásléttum Arizona og erum búin að fara gegnum allskonar landslag. Þar sem við byrjuðum í Williams í morgun var umhverfið skógi vaxið og tiltölulega grænt en þeggar á daginn leið fór að verða heitara í veðri og gróður að verða  strjálli og eyðimerkurlegri. Við erum enda að nálgast mjög Mohaveeyðimörkina sem við förum í gegnum á morgun. Það verður líklega heitasti dagurinn í ferðinni. Við erum búinn að fara úr 700 feta hæð niður í um 200 fet í dag. Hitinn í dag var í kring um 30 gráður og það finnst mér nú alveg nóg. Síðasta spölinn hjóluðum við í gegnum bæinn Bullhead City sem er á mörkum eyðimerkurinnar. Bærinn er fyrst og fremst byggður upp sem heimili fólks sem hætt er að vinna. Það sem gerir mögulegt að vera með borg á þessum stað er Colorado áin sem rennur þarna um. Það er engin smá á. Við sáum hana líka í gær þegar við borum í Miklagljúfri, áin er um 2330 kílómetra löng. Margar stíflur eru í ánni og mikil rafmagnframleiðsla fer þar fram.

Hótelið sem við erum á í nótt er í raun heljarinnar spilavíti en það er staðsett í Nevada. Þar eru spilavíti lögleg. Þegar við komum inn á hótelið í leðurgöllum og tilheyrandi þurft um við að ganga í gegnum spilavítið og mér fannst það frekar sorgleg sjón sem blasti við okkur. Meðalaldur þeirra sem sátu þarna og dældu peningum í spilakassana var eitthvað yfir 70 ár. Við komum okkur upp á herbergi 6006 og þrifum okkur og gerðum klára í hlaðborðið sem beið okkar. Ég hef sennilega verið orðinn sljór af áti því ég missti Pétur frá mér eitt andartak og fann hann síðan við rúllettuborðið þar sem hann var kominn á kaf í rúllettuspil. Sem betur fer var vera hans þar ekki veruleg því hann tapaði fimm dollurunum sem lagði úr eftir smá stund. Eitt andartak var hann í talsverðum gróða og ég vr farinn að vonast eftir að hann borgaði morgunmatinn í fyrramálið en það gekk ekki eftir því hann spilaði þar til allt var búið og þá náði ég honum upp á herbergi og gaf honum leyfi til að leika sér að fjarstýringunni í smá stund. Það virkar venjulega þannig að hann sofnar værum svefni og það klikkaði ekki í kvöld.

Síðasti alvöru hjóladagur þessarar ferðar er á morgun. Þaðan sem við gistum næstu nótt er frekar stutt leið á leiðarenda. Þótt þetta sé búin að vera einstök ferð og frábær skemmtun get ég ekki neitað því að ég er farinn að hlakka til að koma heim og hitta fólkið mitt aftur eftir þessa törn. Við eigum þó eftir skemmtilegan tíma í LA og nágrenni í vikulokin.

Myndirnar er þar sem þær eru alltaf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Herdís Alberta Jónsdóttir

Til hamingju með afmælið í gær, Addi minn við í grundargötunni höfum gaman af því að fylgjast með þessu stórkostlega ferðalagi, bestu kveðjur frá okkur öllum

Herdís Alberta Jónsdóttir, 13.5.2008 kl. 13:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Adam Ásgeir Óskarsson

Höfundur

Adam Ásgeir Óskarsson
Adam Ásgeir Óskarsson
Kerfistjóri í orlofi.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Draugaskip ?
  • Flottur di
  • Sæll og glaður
  • Útsýni frá gististaðnum í Jeddore
  • Charlo - Jeddore

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband