9.7.2008 | 02:41
Ottawa - Québec - St. Simeon - Charlo
Eins og sjá má á fyrirsögn þessarar færslu og myndinni hér til hliðar er þetta ekki nein smá vegalengd. Við erum samt ekki búin að fara þetta í einum áfanga heldur gerðum við það í þremur törnum. Fyrsti leggurinn var frá Ottawa til Québec borgar, þaðan var farið til St. Simeon við norðanvert St Laurent fljót. Ferja tekin þaðan yfir ánna í morgun og haldið áfram í genum Québec fylki yfir til New Brunswic til smábæjarins Charlo þar sem við ætlum okkur að vera í nótt. Það var á dagskrá að fara hratt yfir á milli Ottawa og Québec, sleppa Montreal alveg ur myndinni í þetta skiptið. Við Hugrún vorum þar í fyrra og þóttumst vera búin að sjá það sem skipti máli þar. Með því að fara hröðustu leið þarna á milli gátum við verið komin á góðum tíma til Québec borgar og tekið þar þátt í þeirri miklu veislu sem fer þar fram þessa dagana. Borgin er 400 ára í ár og ákveðið var að halda ærlega afmælisveislu. Við komum þar seinnipartinn á sunnudag og það er langt síðan ég hef séð annað eins mannlíf og var þar á götunum. Hljómleikar og listamenn frömdu listir sínar á hverju götuhorni og allt var pakkað af fólki. Allir voru í verulega góðum gír og greinilegt að allir skemmtu sér konunglega. Við vorum á flakki langt fram í myrkur og enn einn daginn léku veðurguðirnir sér við okkur.
Í Qubéc vorum við verulega óheppin með gistingu. Ég hafði pantað gistingu á gistihúsi sem var á besta stað í bænum og heitir Á l'étoile de Rosie sem lauslega snarað yfir á ensku heitir At the star Rosie. Ég átti heldur betur von á góðu en þegar við mættum á svæðið hjá Rósu var virkilega ekkert sem gat minnt á þetta fallega nafn, hvað þá á blómið. Ég var þarna búinn að leigja kjallaraholu sem var hreinlega verri en margir verstu veiði- fjallakofar sem ég hef gist í í gegnum tíðina. Það eina sem var í lagi var að rúmfötin voru hrein. Annað var skítugt og rakt og kjallarinn hinn óvistlegasti á allan hátt. Vegna þess að við vorum með hrein rúmföt og ætluðum alls ekki að dvelja langdvölum í þessari íbúð þá ákváðum við að láta slag standa og gista þarna eina nótt. Það er mjög erfitt að finna húsnæði í borginni þessa dagana og því úr vöndu að ráða. Við breyttum hins vegar áætlun okkar en upphaflega stóð til að vera tvær nætur í Québec. Við skráðum okkur út hjá Rósu strax morguninn eftir, lögðum bílnum í bílastæði í bænum og skoðuðum það sem við ætluðum okkur að skoða í borginni.
Eftir skoðunarferðir um Québec var haldið af stað aftur og nú lá leiðin til ferjustaðarins St. Simeon við norðanvert St Laurent fljót. Þar gistum við á þessu líka fína móteli Auberge Sur Meer með flottu útsýni yfir fljótið í allar áttir. Mér finnst það svo sem vera spurning hvort á að tala þarna um fljót eða sjó því það tekur rúman klukkutíma að sigla þarna þvert yfir og maður sér ekki bakka á milli nema í mjög góðu skyggni.
Í morgun var síðan farið í ferjuna og siglt yfir til Riviere Du Loup og haldið áfram í suðausturátt. Þetta er fyrsti dagurinn sem við lendum í rigningu þannig að það var frekar lítið um stoppstaði á leiðinni og við ákváðum að keyra frekar út úr rigningunni. Við ókum eftir gríðarlega fallegum dal, Matapedia dalnum þar sem samnefnd á rennur. Þessi á er talin vera ein af betri laxveiðiám í Québec fylki og það mátti mjög víða sjá veiðimenn munda flugustangir við ánna eða á ánni úr kanóum sem greinilega eru notaðir mikið við veiðar þarna. Ég hefði gjarna viljað vera lengur á þessum slóðum en það má ekki drolla lengi á hverjum stað því það er talsvert eftir ennþá.
Núna erum við búin að hola okkur inn í fínan sumarbústað á ströndinni rétt við smábæinn Charlo í New Brunswick. Landslagið er búið að vera mjög fjölbreitt á leið okkar í gær og í dag. Stórann hluta leiðarinnar höfum við verið í skógi en við erum líka búin að fara um fjöll og dali, koma við á skíðasvæðum, fara í kringum vatn á malarvegi. Við höfum haldið okkur frá hraðbrautum og notið þess að aka um þetta stórkostlaga land og náttúru sem hér er.
Til að gera ekki alla hundleiða á að lesa þetta þá ætla ég að fara að segja þetta gott. Ástæða þess að ég hef ekki sett neitt hér inn síðustu tvo dagana er að internetsambandi hefur ekki verið upp á marga fiska þar sem við höfum verið síðustu tvær nætur og ég hef því ekki komist til að blogga.
Myndir þessara daga eru í einu og sama albúminu og þær eru nokkuð margar.
Um bloggið
Adam Ásgeir Óskarsson
Tenglar
Tengdar síður
Nokkrar síður sem vert er að skoða
- Myndasíða Myndasíða
- Ásgeir Andri Adamsson Hér bloggar Ásgeir
- Óskar Helgi Adamsson Hér bloggar Óskar
- Lilý Erla Adamsdóttir Hér blogagr Lilý
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.