Charlos - Black River Bridge - Sackville - Cape Breton - Jeddore

Charlo - JeddoreSíðan síðast höfum við lagt heilmikið að baki. Það hefur verið frekar stopult internetsamband hjá okkur þannig að bloggið hefur látið bíða eftir sér. Við tókum stefnuna suður á bóginn og vorum ákveðin í að taka einn rólegan dag. Römbuðum inn á mjög skemmtilegt minjasafn þar sem búið var að koma fyrir heilu þorpi sem sýndi hvernig líf og aðbúnaður Franskra landnema í Kanada var fyrstu árin eftir að miklir flutningar á fólki áttu sér stað hingað vestur. Þarna var virkilega gaman að koma og tíminn var mjög fljótur að líða. Áfram var haldið suður á bóginn og á endanum fundum við okkur annan sumarbústað til að vera í þá um nóttina. Þar var fínt að vera nema það var allt fullt af flugum og þær voru óvenjulega svangar þetta kvöldið. Við höfum ekki lengur tölu á hversu oft við höfum verið stungin í þessari ferð en það er greinilega gott í okkur blóðið.

Cap HopewellDaginn eftir var stefnan tekin á Bay of Fundy það er flói einn mikill sem gengur upp á milli New Brunswick og Nova Scotia. Þar eru mjög skemmtilegar jarðmyndanir sem hafa orðið til við rof sjávarfallanna en hvergi í heiminum er jafn mikill munur á flóði og fjöru og við þennan ágæta flóa. Fiskimenn þurfa að fara til veiða á flóði og koma aftur heim á flóði því þegar fjarar þarna út standa bátar þeirra á þurru og þeir komast hvorki lönd né strönd. Við fórum þarna niður í fjöru og gengum þar um góða stund eða þar til fór að falla að en þá gátum við fylgst með því hve hratt hækkaði í sjónum og allt fór á flot sem skömmu áður hafði verið þurrt land. Við yfirgáfum Fundy flóa og fundum okkur gistingu í bænum Sackville í eldgömlu Viktorírönsku húsi þar sem ég held að húsráðandi hafi verið jafn gamall húsinu eða þar um bil. Hann var einn heima kallanginn og hafði í mörg horn að lita þegar allt fylltist af gestum hjá honum. Húsið var flott og mikill stíll yfir því.

Myndir frá þessum dögum voru komnar inn.

Frá Sackville var stefnt til Nova Scotia. Við ókum með vesturströndinni og tókum því frekar rólega og stoppuðum á nokkrum stöðum á leiðinni því þarna er landslagið engu líkt og gaman að koma. Við vorum ákveðin í því að komast til Cape Breton fyrir kvöldið svo við tókum stefnuna þangað. Cape Breton er nyrsti partur Nova Scotia og er sérstök eyja sem tengd er við meginlandið með vegi og brú. Þar fundum við okkur gistingu í öðru Viktoríönsku húsi rétt við bæinn St Peters. Fólkið þar tók okkur eins og við værum ættingjar að koma heim eftir langa veru í burtu. Hjá þeim fengum við mjög góðar leiðbeiningar um hvað við ættum að sjá á meðan við værum á Cape Breton. Við höfðum hugsað okkur að fara og skoða Loisburg virkið á við norðausturströndina en ákváðum eftir samtal við húsráðanda og stíf fundahöld með fararstjórn að fara frekar og aka upp í þjóðgarðinn sem er nyrst á Nova Scotia. Leiðin sem liggur þar um er kölluð Cabot Trail og er ein fegursta leið sem við höfum farið í ferðinni. Húsbóndinn á heimilinu þar sem við gistum tjáði okkur að þessi leið væri þriðja fegursta leið um þjóðgarð í öllum heiminum. Það getur vel verið rétt hjá honum. Dagleiðin okkar var rúmlega fimm hundruð kílómetrar og tók okkur rétt um Humarellefu tíma að fara hana með þeim stoppum sem nauðsynlegt er að gera á þessari leið. Við sjáum ekki eftir tímanum sem fór í þessa ferð hún var hverrar mínútu virði. Á einum stað á leiðinni komum við þar sem skallaörn sat og virti fyrir sér árósa og beið eftir að sjá fisk í matinn. Við komumst út úr bílnum og gátum virt þennan glæsilega fugl vel fyrir okkur. Við reyndum síðan að komast nær honum en þá kom að honum styggð og hann flaug á brott. Við enduðum daginn á því að fara aftur á sama stað í mat og kvöldið áður. Þá fórum við í þessa líka fínu humarveislu en síðan við komum út að sjónum hefur nánast ekkert annað en fiskur komið til greina í matinn. Humarvertíðin stendur sem hæst hérna og ég held að ég hafi ekki í eina tíð étið jafn mikið af humri og þessa daga sem við erum búin að vera hér. Þetta er slíkur herramannsmatur að ég hef ekki einu sinni hugsað um nautin sem ganga hér um hagana.

Í dag erum við síðan búin að vera að færa okkur í áttina til Halifax. Ókum sem leið lá suður á bóginn og mestan hluta leiðarinnar erum við búin að vera að aka með austurströnd Nova Scotia. Hér eins og á flestum stöðum á leiðinni er allt vaxið skógi milli fjalls og fjöru. Mikinn hluta leiðarinnar erum við því búin að vera með skóginn meðfram veginum. Ströndin hérna er vogskorin og við erum búin að krækja fyrir ótal firði á leiðinni þar sem húsin eru alveg niðri í fjöru umlukin skógi og sjó með bryggju fyrir báta og flottheitum. Ég er búin að orða það annað slagið við Hugrúnu á leiðinni að hér væri Útsýni frá gististaðnum í Jeddoregaman að koma aftur og eyða eins og einu sumarfríi á þessum slóðum. Við erum enn eina nóttina í gömlu húsi en núna alveg við sjóinn hjá fólki sem hætt er að vinna og hefur smá aukatekjur af því að leigja út herbergi til ferðalanga. Það er alveg frábært að hafa þennan hátt á gistingu því manni er allstaðar svo vel tekið. Það er líka svo fróðlegt og gaman að tala við þetta fólk sem hefur búið á þessum stöðum langan tíma og getur svarað öllum þeim spurningum sem mann langar að fá svör við. Svo þarf ekki að taka það fram að maður fer ekki af burtu frá svona stöðum með tómann maga á morgnanna því maður vaknar venjulega við angan af steiktum eggjum og baconi. Ég hef ekki reynt að orða það við Hugrúnu að taka upp þennan matartilbúning fyrir mig á morgnanna eftir að við komum heim. Ég fengi sennilega einn á lúðurinn ef ég reyndi það. Dora sem við erum hjá í nótt veit ekkert um þessar pælingar mínar en er búin að lofa mér eggjum og tilheyrandi í fyrramálið.

Á morgun verður svo haldið áfram til Halifax og við höfum hugsað okkur að fara fyrst á flugvöllinn og koma farangrinum okkar þar í geymslu áður en við höldum niður í bæ og skoðum okkur þar um. Bílnum þarf síðan að koma í gám fyrir klukkan fjögur.  Ég vona að það takist allt því nú hef ég ekki sama tíma upp á að hlaupa í gámamálum og í Guelph um daginn. Ég hringdi í Eimskip á föstudaginn til að fá staðfestingu á að ég ætti pantaðan gám hjá þeim á mánudag. Þeir höfðu þá aldrei heyrt eitt orð á mig minnst þar, drengurinn sem ég hafði verið að tala við um gámana var hættur og hafði gert það mjög snögglega og ekki fannst tangur né tetur um að ég ætlaði að setja bílinn minn í gám á mánudag. Þessu var reddað og ég vona að það standist nú allt saman svo ég komist heim á morgun.

Það er hálf skrítið að þetta ár okkar hér í Kanada skuli nú vera að verða búið. Þetta hefur verið ótrúlega fljótt að líða og við erum búin að eiga hér mjög góða tíma. Minningarnar eiga eftir að fylgja okkur um alla framtíð og ég veit að við eigum eftir að koma hingað aftur þó sennilega verði það ekki til að vera í svona langan tíma. Við erum búin að vera í rúmar tvær vikur á ferðalagi að þessu sinni og okkur finnst við vera búin að sjá svo lítið af þessu stórkostlega landi sem Kanada er. Nú bíður Ísland eftir okkur og við erum öll farin að hlakka mikið til að koma aftur heim.

Myndir frá síðusta bloggi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

þetta er aldeilis búið að vera magnað hjá ykkur. Við erum öll farin að hlakka svakalega til að fá ykkur heim, það er búið að vera ferlega skrítið að geta ekki kíkt í kaffi í Löngu og hvað þá á Byggðaveginn í vöfflur :)

Gangi ykkur vel að komast á leiðarenda, ástarkveðja úr Munkanum, Dísa

Dísa (IP-tala skráð) 14.7.2008 kl. 11:21

2 identicon

Gaman verður að sjá ykkur eftir eftir langa fjarveru. Ekki sýnist mér, Adam, að þú yfirgefir Kanada svangur!

Kv.

BH 

Bernharð Haraldsson (IP-tala skráð) 14.7.2008 kl. 13:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Adam Ásgeir Óskarsson

Höfundur

Adam Ásgeir Óskarsson
Adam Ásgeir Óskarsson
Kerfistjóri í orlofi.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Draugaskip ?
  • Flottur di
  • Sæll og glaður
  • Útsýni frá gististaðnum í Jeddore
  • Charlo - Jeddore

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband