Húsgagnadagur

Í dag var farið á fætur fyrir allar aldir til að kíkja á bílsskúrssölur þeirra hér í Guelph. Það var nú meiri túrinn. Fólk er að reyna að selja allskonar drasl sem það vill losna við. Ég held svei mér þá að fólk sé líka að þessu að gamni sínu. Þarna hittast menn og spjalla og prútta um gös og gamlar kaffivélar, ónýtar hillur og hokkískauta. Okkur tókst að finna eldgamla kommóðu og tvo stóla. Fyrir þetta borguðum við geislandi glaðri konu sjö heila dollara.

Gáfumst að endingu upp á þessu flakki okkar og fórum að Íslendingasið í húsgagnaverslanir til að versla okkur ný húsgögn. Enduðum með Lazy Boy sófasett, skrifborð og tvo góða stóla. Þetta er allt saman eitthvað sem við komum til með að hafa með okkur heim þegar þar að kemur.  Nú sjáum við síðan til hvað rekur á fjörur okkar næstu daga.

Í gærkvöldi brast á með þrumuveðri og hellirigningu. Ásgeir fór út til að upplifa veðrið eins og mögulegt var. Hann kom síðan inn, hundblautur og búinn að veiða bæði frosk og körtu sem hann vildi helst eiga til framtíðar.  Þessar skepnur fara af stað þegar blotnar. Það er hálfgerð órækt á bak við húsið okkar og þaðan berast hljóð í einhverjum skepnum sem við erum ekki alveg búin að finna út hverjar eru.

Það- er frekar hlýtt í veðri hér þessa dagana. Hitinn á milli 20 og 30 gráður og fer jafnvel hærra þegar mest er. Það er eins gott að hafa loftkælingu í húsinu. Það er jafnvel þannig að mér þykir stundum ágætt að fara inn í verslanir til að fá aðeins kælingu.

Nú sitjum við á skrifstofunni minni í Háskólanum og nýtum okkur internetið hér. Við fáum tenginguna  heim á mánudaginn og ég er viss um að við verðum eins og beljur að vori við að komast í varanlegt samband. Það er ótrúlegt hve háður maður verður netinu. Það sér maður ekki fyrr en maður hefur ekki aðgang að því í einhvern tíma.


Helgi framundan

Nú fer að nálgast viku síðan við komum til Kanada. Við hofum haft í nógu að snúast síðan við fengum húsið á mánudag. Höfum verið að horfa í kringum okkur í húsgagnaleið og það stefnir í að helgin verði notuð í að ferðast á milli bílskúrssala hér í nágrenninu. Nú á eftir stendur til að fara í slíkan leiðangur og einnig á morgun. Við vonumst til að finna eitthvað sem við getum notað í ár eða svo.

Ég fór með bílinn í mengunarpróf í morgun og þarf síðan að fara og skrá það á bifreiðaeftirliti þeirra hér í Ontaríó. Þetta er aðeins annað sýstem á þessu heldur en heima og maður er svolítið ráfandi um í kerfinu enn sem komið er. Gott að vera búinn að fara í gegnum þetta þegar kemur að því að kaupa bílinn.

Ágeir komst loksins í ræktina í morgun og var sæll og glaður með það.


Drengirnir skráðir í skóla - Símasamband komið á

Í gær fórum við og hittum Donnu nokkra Frey sem vinnur á fræðsluskrifstofunni hérna í Guelph. Hún gaf drengjunum leyfi til að sækja skóla hér í bænum. Þeir koma til með að vera í Sentennial framhaldsskólanum hér ekki langt frá Háskólanum. Við vorum að koma þaðan frá því að skrá þá inn. Þurfum að fara þangað aftur á mánudag en þá í viðtal hjá námsráðgjafa sem kemur til með að finna út í hvaða áföngum þeir koma til með að vera.

Nú erum við öll stödd í Háskólanum, ég á minni skrifstofu en þau á bókasafninu þar sem er þessi fíni aðgangur að internetinu. Drengirnir voru fljótir að finna MSN til að gá hvort einhverjir vina sinna væru tengdir. Reikna með að þeir nái aðeins að spjalla við einhverja.

Á eftir er meiningin að fara að gera eitthvað í húsgagnamálum fjölskyldunnar.

Síminn kom inn hjá okkur í morgun og og númerið er 519-763-2307. Þegar hringt er að heiman þarf að slá inn 00 og 1 til að komast inn í Kanada.

 Við erum komin í samband við Íslendinga hér í bænum og meiningin er að hittast fljótlega. Þetta er náttúrulega dæmigert að maður skuli vera búinn að grafa upp landa á nokkurrar fyrirhafnar á örfáum dögum, án þess að hafa nokkuð fyrir því.

Nú þarf ég að fara að hitta fólkið mitt.

Kveðjur heim.


Flutt inn í Paulstown Crescent

Mér hefur ekki verið fært að blogga síðan á sunnudag, úr því verður að bæta.

Þegar við yfirgáfum hótelið á mánudagsmorgun og ætluðum að fara að taka við húsinu var eitthver stress í gangi og mér tókst að læsa lyklana inni í bílaleigubílnum. það þurfti að kalla til lásasmið til þess að komast inn í bílinn. Hann bar sig mjög fagmannlega við að opna bílinn en var ekki jafn fljótur að brjótast inn í hann eins og maður sér í bíómyndunum. Á meðan sauðurinn ég sat og beið eftir að komast inn í bílinn fóru Hugrún og Óskar til að taka á móti húsinu.  Ég kom þangað um klukkutíma á eftir þeim. Það var svolítið skrítið að koma þarna inn - húsið var mun tómlegra heldur en ég hafði reiknað með. Fólkið sem leigir okkur húsið er að flytja til Kýpur og tekur að sjálfsögðu búslóðina sína með sér. Þau skildu samt eftir rúm fyrir fimm og eldhús fullbúið tækjum og þeim útbúnaði sem þarf til að elda og borða. Þvottavél og þurrkari eru á staðnum en okkur vantar eitthvað af stólum, sófum og svo framvegis. Við höfum ákveðið að hafa ekki áhyggjur af svona smámunum í bili heldur bíða og sjá hvað dúkkar upp á næstu dögum.

Ég er búinn að koma mér í samband við háskólann og er kominn með aðgang þar bæði að tölvum og húsum. Það var tekið mjög vel á móti mér hérna en greinilegt að menn eru frekar uppteknir við að koma skólanaum í gang. Þetta kannast maður vel við og gott að geta horft á þetta í fjarlægð og séð að þetta er ekki bara hjá okkur sem hlutirnir ganga svona fyrir sig.

Dagurinn í gær fór í að koma símamálum fjölskyldunnar á hreint. Við gerðum samning við Bell Canada um þessi mál og nú eru allir komnir með sinn eigin Kanadíska síma. Heimasíma fáum við tengdann á morgun og Internet á mánudag. Við gengum einnig frá bankamálum og fleira í þeim dúr.

Á eftir eigum við síðan að mæta á fræðsluskrifstofu Guelph bæjar og þar stendur til að skrá drengina í skóla. Sennilega þurfum við síðan að fara í skólann þar sem þeir verða til að finna út í hvaða bekk þeir lenda.

Okkur sýnist vonlaust að vera hér án þess að vera með bíl og ég er feginn að við leigðum bílinn með húsinu. Ég á síðan að reyna að selja bílinn eftir einn eða tvo mánuði eða þegar við fáum okkar eigin bíl.

Ég hef enn ekki komist til að skoða áhugamálin og hvernig verður hægt að sinna þeim hér en sá tími mun koma - fljótlega.


Komin á leiðarenda

Þá erum við komin alla leið til Guelph.

Ferðin gekk eins og við vorum búin að reikna með. Við fórum frá Halifax klukkan 9 í morgun og vorum komin til Toronto og búin að fá bílaleigubílana um klukkan tólf. Við þurftum að taka tvo bíla á leigu vegna þess hve fyrirferðarmikill farangurinn okkar var. Keyrðum síðan í halarófu til Guelph þar sem við komum okkur fyrir á Holliday Inn hóteli bæjarins. Þar ætlum við að vera í nótt en við fáum síðan húsið afhent í fyrramálið.

Hér er núna sól og blíða og brakandi þurrkur. Hitinn eitthvað nærri 25 stigum.

Stefnum á að fara í bíltúr um bæinn nú á eftir til að finna út hvar við komum til með að búa.  Við viljum líka átta okkur aðeins betur á staðnum heldur en við höfðum tækifæri til að gera þegar við komum hér í vor.

Það er svolítil ferðaþreyta í mannskapnum enda ekki furða eftir þetta ferðalag. Sennilega verður farið snemma að sofa í kvöld svo allir verði ferskir í fyrramálið.

 


Lagt af stað

Þá er ferðalagið hafið. Við sitjum nú í Leifsstöð og bíðum eftir að fara að hliði númer 27. Þar bíður okkar  vélin til Halifax. Ferðalagið suður gekk að óskum. Þurftum aðeins að ströngla út af yfirvigt á Akureyrarflugvelli í byrjun ferðar. Reiknivélin sem notuð var þar til að leggja saman farangursþyngdina okkar gafst upp þegar komið var yfir 200 kíló. Með sameiginlegu röfli okkar hjóna um reglur flugfélaga um farangur, millilandaflug og tengingar þess við innanlandsflug tókst okkur að sleppa við að reiða fram stórfé í fragtkostnað. Svava mágkona var búin að redda þessu í Keflavík og þar rann allt í gegn.  Nú er bara að bíða og sjá hvað þeir gera í næsta flugi sem verður innanlandsflug í Kanada á milli Halifax og Toronto. Ekki víst að sömu rök gangi þar og á Akureyrarflugvelli.

Nú styttist í að vélin fari, við Óskar sitjum hér og tölvum en Hugrún og Ásgeir eru að styrkja verslun hér í Leifsstöð. Vona bara að þau komi til að ná vélinni.


Fluttur heim til mömmu

Það kom að því að ég flytti aftur heim á Byggðaveginn til mömmu.

Við kláruðum að ganga frá húsinu fyrir nýja íbúa rétt fyrir kvöldmat í dag. Dagurinn hefur verið nýttur í þrif og að snurfusa allt hátt og lágt. Það eru allir búnir að leggjast á eitt með að láta hlutina ganga upp. Óskar var meira að segja ræstur uppúr klukkan átta í morgun og settur á tuskuna, kústinn, ryksuguna og hvað annað sem þurfti að gera. Þegar þessu var lokið fórum við til mömmu sem var búin að elda fyrir okkur hátíðar málsverð og það var enginn svikinn af því sem þar var á borðum.

Nú er bara að dingla sér fram á laugardag. Það þarf að fara með Volvóinn á verkstæði í fyrramálið í hjólastillingu svo hann fari ekki ít af sporinu með Lilýarnar í vetur. Það á eftir að ganga frá ýmsum smáatriðum eins og fundi í VMA með þeim tölvugaurum sem leysa mig af í vetur. Ýmislegt annað fellur án efa til fram á laugardag.


Tilraun með bloggsíðu

Þessu átti ég nú ekki von á - að ég færi að blogga.

Það verður bara að bíða og sjá hvað úr þessu verður. 

Þessa dagana er allt á fullri ferð við að koma dótinu úr húsinu fyrir í kössum úti í bílskúr og pakka fötum í ferðatöskur sem taka á með til Kanada. Allt er klárt fyrir ferðina - miðar í flug, hótelpantanir frágengnar. Ekki laust við að örlítils spennings sé farið að gæta hjá Adamsfjölskyldunni.


« Fyrri síða

Um bloggið

Adam Ásgeir Óskarsson

Höfundur

Adam Ásgeir Óskarsson
Adam Ásgeir Óskarsson
Kerfistjóri í orlofi.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Draugaskip ?
  • Flottur di
  • Sæll og glaður
  • Útsýni frá gististaðnum í Jeddore
  • Charlo - Jeddore

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband