11.9.2007 | 19:02
Bókasafnið
Ég er búinn að vera að skoða bókasafnið í Guelph háskóla nú í dag. Fékk leiðsögn hjá Jeff nokkrum Walker, sennilega bróðir hans Johnny. Hann er deildarstjóri í tölvudeild safnsins. Þessi ferð var mjög áhugaverð og gaman að fá tækifæri til að skoða þetta. Safnið telur rétt rúmlega 5 milljón titla. Á safninu eru rúmlega 1000 tölvur sem tengdar eru neti háskólans. Bókasafnið lánar 160 fartölvur til nemenda, þær eru alltaf allar í láni. Þarna er rekið prentarakerfi og þráðlaust net aðstoð við fatlaða og ráðgjöf ásamt ýmsu öðru. Ég á eftir að velta mér aðeins meira upp úr þessum upplýsingum áður en ég fatta umfangið en það er í svolítið öðrum skala en maður er vanur. Ég ætla mér á næstu dögum að skoða kerfin sem þeir eru að vinna með. Tölvudeild bókasafnsins rekur sína eigin net- og vefþjóna og svo er um flestar deildir skólans.
Ég náði loksins í Carl í gærkvöldi, Carl var að veiða með okkur Árna og Möggu á Íslandi fyrir tveimur árum ásamt John Berger og sendi mér veiðistöng sem hann smíðaði eftir að hann kom heim. Hann er búinn að ferðast um og halda 18 fyrirlestra um ferð sína til Íslands. Það var verulega gaman að heyra í honum og nú fer sennilega að koma að því að maður komist að veiða hér í landi. Ég verð í sambandi við hann aftur fljótlega út af því. Carl lét mig hafa númerið hjá Wilhelm sem var með honum heima að veiða og sá býr hér rétt norðan við Guelph og er með veiðiá í bakgarðinum hjá sér. Ætla að hringja í hann á eftir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.9.2007 | 00:10
Heimsókn í golfbúð o.fl.
Sunnudagur var vel skipulagður hjá okkur hér i Paulstown Crescent. Eins og reglan er á sunnudögum var byrjað á pönnukökubaxtri og beikonsteikingu. Þetta var étið hér með bestu lyst áður en haldið var af stað til Burlington. Þar vorum við búin að mæla okkur mót við Trevor nokkurn sem ætlaði að mæla Óskar í bak og fyrir og horfa á hann sveifla golfkylfum með það fyrir augum að láta síðan sérsmíða fyrir hann golfsett. Þetta er búið að vera á döfinni síðan við komum hingað en nú var komið að því. Við mættum á Burlington Golf and Country Club og Trevor tók vel á móti okkur. Þeir Óskar voru síðan í einn og hálfan tíma að spegúlega í golfkylfum, sveiflum, ferlum, slæsi og feidi og ég veit ekki hvað og hvað. Útkoma er síðan sú að pantaðar verða golfkylfur en planið er að skoða aðeins betur hvernig dræverarnir eiga að vera. Því er planaður annar leiðangur til Burlington 22. september.
Þegar við hættum á golfvellinum komum við aðeins við hjá Claudiu og Davið en þær hugrún voru búnar að plana smá verslunartúr. Á meðan Hugrún og Claudia gengu um sali verslunarinnar komum við strákarnir okkur fyrir í græjuhorninu. Hugrún kom klyfjuð að pönnukökumixi, þvottaefnum, muffins og hinu og þessu sem kemur til með að næra kroppinn en við strákarnir náðum okkur í iPoda hátalara og svoleiðis dót. Þetta er sennilega stærsta verslun sem ég hef komið í. Þarna var bara hægt að kaupa stórar einingar. Minnst 30 súkkulaðistykki og 40 popppoka í einu sem dæmi um skammtastærðir. Mér fallast algerlega hendur við að koma á svona staði og hefði sjálfsagt bilast ef við hefðum ekki fundið græjuhornið til að skoða. Til merkis um kaupmennskuna þá var farið að stilla út jóladóti í þessari verslun.
Eftir verslunartúrinn var stefnan tekin á flugvöllinn til á ná í Sigrúnu sem var að koma frá Íslandi í gegnum Boston. Hún kom aðeins eftir tilsettan tíma en við þurftum ekki að bíða nema smá stund. Það var svo sem ágætt því mér tókst að ramba á bílastæðahús sem var langt í burtu frá terminalnum þar sem Sigrún kom, svo langt að það þurfti að taka lest til að komast þarna milli staða. Næst veit ég hvert ég á að fara. Við ókum síðan til Guelph og áttum góða kvöldstund saman.
Þær systur eru búnar að eyða deginum saman og hafa flakkað hér um á milli staða hér í bæ á KIA fjölskyldubílnum sem við erum með á leigu.
Ég verð að fara að komast að veiða!!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.9.2007 | 19:22
Vikan að klárast
Hér er allt við það sama eða svipað. Hittinn yfir 30 stig á daginn og eiginlega betra að vera inni en úti. Þetta er bærilegt á leiðinni í skólann á morgnanna því þá er ekki byrjað að hitna svo mikið. Þegar líður á daginn er venjulega orðið svo heitt að maður vill bara vera kældur með loftkælingu. Ég tek strætó í skólann á morgnanna og þarf að ganga smá spöl til að komast á stoppistöðina. Það er bara hressandi að byrja daginn þannig.
Fyrsta vikan er að klárast hjá strákunum í skólanum. Þar fóru hlutirnir strax á fulla ferð. Þetta er öðruvísi en þeir eru vanir. Stundaskráin er nánast eins alla daga og bara fjögur fög í töflunni og þá fjórar kennslustundir á dag. Eini munurinn á milli daga er að eftir hádegi víxlast tímarnir á milli daga með jafna tölu og daga með oddatölu. Þannig eru ekki jafn mörg fög á viku eins og þeir eru vanir heldur einbeita þeir sér að fjórum fögum á viku á hverri önn. Óskar er í næstu viku að fara að taka þátt í golfmóti sem haldið verður í skólanum.
Við fórum í leiðangur í síðustu viku með Óskari að kaupa golfsett. Þegar við erum að ganga inn í mollið þá mætum við ungum manni sem verður starsýnt á treyjuna sem Óskar var klæddur í. Þetta var landsliðstreyja handboltalandsliðsins, merkt Kaupþingi og fleirum í bak og fyrir. Þessi drengur snýr sér við og horfir á eftir okkur mjög hissa á svip. Mér dettur strax í hug að þetta sé Íslendingur svo ég spyr hann að því. Svo reyndist þá vera og hann hafði verið að spá í það sama þegar hann sá treyjuna góðu. Drengurinn heitir Bogi og er nýkominn hingað til Guelph til að vinna við doktorsritgerð sina í félagsfræðum. Hann hafði ekki hugmynd um að hér væru aðrir Íslendingar. Eitt að því fyrsta hann sagði okkur var að hann spilaði golf eins oft og hann gæti. Þetta þótti Óskari nú aldeilis gott og nú spila þeir golf saman daglega. Bogi er búinn að bjóða Óskari að bera fyrir hann pokann á golfmótinu. Skemmtilegt hvernig hlutirnir gerast.
Nú er helgin framundan og við erum svo sem ekkert búin að ákveða hvað við gerum af okkur. Við þurfum þó að fara til Toronto á sunnudaginn Því Sigrún frænka er að koma í heimsókn og ætlar að vera hjá okkur í viku.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.9.2007 | 18:22
Lítill heimur
Á laugardagsmorguninn síðasta fórum við Hugrún í bíltúr hér um bæinn til að kíkja á nokkrar auglýstar bílskúrssölur. Þegar við vorum búin að keyra um í góða stund var okkur farið að langa í kaffi og meððí. Við fundum okkur Tim Hortons (kaffihúsakeðja hér í landi) og ákváðum að skella okkur þar inn til að fá okkur hressingu. Þá rek ég augun í verslun sem mér hafði verið bent á að seldi veiðivörur o.fl. Ég var búinn að hugsa mér að fara og finna þennan stað en þarna er búðin við hliðina á kaffihúsinu. Ég hafði orð á því við Hugrúnu að þetta væri mikil tilviljun. Einhverjir gætu haldið að ég hefði viljandi farið á þessar slóðir en svo var ekki.
Þegar við höfðum stundað okkar kaffi og djúsdrykkju um stund fannst mér ég verða að kíkja inn í sjoppuna fyrst hún var þarna við hliðina. Ég fer inn og er dágóða stund að spá í veiðistangir og ýmislegt til fluguveiða og hnýtinga. Ég hafði lítið af þesslags dóti með mér hingað út heldur hafði ég ætlað að verða mér úti um það hér - á gjafverði. Ég sá um leið og ég gekk inn í búðina að þarna var boðið upp á námskeið í fluguhnýtingum og þegar afgreiðslumaður veitti okkur athygli og vildi fara að hjálpa okkur spyr ég hann út í námskeiðið. Ég vil gjarna komast að á námskeiði í þurrfluguhnýtingum svo ég spyr um hvort það verði ekki í boði í vetur. Sá sem afgreiddi okkur var einnig námskeiðshaldarinn. Hann tjáði mér að slík námskeið yrðu haldin um leið og fjórir hefðu skráð sig svo ég kom mér á lista og nú bíð ég eftir hinum þremur.
Nema hvað. Það kemur upp í samræðum okkar að við Hugrún kæmum frá Íslandi. Sölumaðurinn hafði heyrt af Íslandi sem miklum draumastað til að veiða. Hann sagði mér að hann hefði í fyrravetur farið á fyrirlestur hjá Kanadamanni sem hefði verið að veiða á Íslandi. Sá hefði sýnt myndir frá íslenskum ám og gert mikið úr því hve gaman hefði verið að fara þangað. Í einhverju bríaríi spyr ég hvort fyrirlesarinn hefði ekki örugglega heitið Carl O´connor og væri formaður í Canadian Cane, félagskap hér sem smíðar veiðistangir. Afgreiðslumaðurinn varð mjög hissa á svipinn og spyr hvernig ég vissi þetta því hann myndi ekki eftir að ég hefði verið á þessum fyrirlestri. Ég sagði honum að ég hefði verið að veiða með Carli þessum heima á Íslandi í nokkra daga. Hann mundi þá eftir að hafa séð mér bregða fyrir á einhverjum myndum sem sýndar voru á fyrirlestrinum. Ég dró upp nafnspjald sem Carl hafði látið mig hafa og sýndi honum. Eftir þetta varð hann besti vinur minn og gaf mér fullt af leiðbeiningum um hvert ég ætti að fara að veiða hér. Hann seldi mér þurrflugur á sérstökum afslætti og brosti út fyrir bæði eyru.
Hverjar eru eiginlega líkurnar á að hitta á svona.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.9.2007 | 01:37
Labor Day
Í dag er búinn að vera frídagur í Kanada, svokallaður Labor Day. Allir eiga frí og á nokkrum stöðum er farið í kröfugöngur og tilheyrandi. Í hugum flestra er þetta samt síðasti dagur áur en skóli hefst. Á morgun fer semsagt vetrarprógrammið á fulla ferð eftir sumarfrí. Strákarnir byrja þá í skólanum og fá eitthvað að fást við annað en að liggja yfir tölvunni og golfrásum í sjónvarpinu allan daginn.
Adamsfjölskyldan hélt upp á daginn með því að fara á Kanadískan fótboltaleik. Háskólinn í Guelph er með lið í háskóladeildinni hér og þeir voru að spila sinn fyrsta leik. The Guelph Gryphons voru semsagt að spila heimaleik við Gee-Gees lið Ottawa háskóla. Okkar menn töpuðu því miður leiknum 23-31 en það var svona frekar reiknað með þannig úrslitum því Ottawa menn ku vera með eitt sterkasta liðið í deildinni um þessar mundir. Það var skemmtileg upplifun að fylgjast með þessum leik þrátt fyrir að skilningurinn á reglum þessarar íþróttar sé frekar takmarkaður enn sem komið er. Verst að hitinn úti var yfir 30 stig á meðan leiknum stóð og það er helst til mikið fyrir mörlandann. Mikill atgangur var allan tímann og ég er viss um að skarfar eins og ég myndu brotna í tvennt við suma af árekstrunum sem kapparnir í liðunum urðu fyrir. Þetta er allavega ekkert líkt skallaboltanum sem ég hef stundað um áraraðir. Myndir af leiknum eir svo að finna á slóðinni http://langa.unak.is/gallery/view_album.php?set_albumName=LaborDay
Enduðum góðan dag á að fá okkur sverar T-bone steikur í kvöldmatinn og ferska ávexti í heimagerðum maple-sýrópslegi á eftir. Sennilega verður gengið snemma til náða hér á heimilinu því það er stangur dagur framundan
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.9.2007 | 20:37
Helgi og rólegheit
Það er löng helgi hjá Kanadamönnum núna. Labor day er á mánudag og það er allsherjar frídagur hér í Ameríkuhreppi. Mjög margir líta á þessa helgi sem síðustu helgi sumarsins og nota tímann til að fara í útilegur og ferðast um allar tær og trissur. Veðrið leikur við okkur hér og það er sól og blíða - hiti r´tt um 25 gráður á daginn og frábært að vera úti og njóta veðursins.
Í gær fórum við Hugrún í bílskúrarsöluleiðangur um bæinn. Strákarnir nenntu ekki með okkur svo þeir voru heima og sváfu eins og unglingar eiga að gera um helgar. Við höfðum tvo lampa upp úr krafsinu og náðum í sett af kristalsskálum og kökudiskum. Allt þetta var nánast á gjafvirði en eftir að vera búið að fara í gegnum hendur hugrúnar er þetta eins og nýtt út úr búð. Það verður fínt að fá sér kökur af diskunum í lampaljósi þegar þannig stendur á í vetur.
Ég skrapp í þá eðalbúð Canadian Tire sem er mikil verslunarkeðja hér í Kanada. Þeir selja allt nema dekk sýnist mér. þar náðum við okkur í hitt og þetta smálegt sem vantaði. Það merkilegasta sem ég fann er fíflabani sem ég dauðhlakka til að nota þegar ég kem aftur heim. Þetta er teinn sem stungið er í borvél og síðan er þessu borað í gegnum fífilrótina sem hakkast í spað samkvæmt manualnum sem fylgir með. Það verður flott hjá manni lóðin þegar búið verður að fara nokkrar ferðir yfir hana með apparatinu. Það fækkar þá ljóslega fíflunum í kringum mann.
Við vöknuðum tímanlega í morgun og byrjuðum daginn á því að baka okkur pönnukökur, hræra og steikja egg og beikon. Það hefur verið tekin ákvörðun um það hér á heimilinu að ég taki að mér að elda slíkan morgunverð á sunnudögum í vetur. Drengirnir telja sig tilbúna að vakna á sunnudagsmorgnum upp á þessi býtti.
Í dag erum víð búinn að vera á miklum antikmarkaði á stað hér rétt sunnan við Guelph. Þar kennir nú aldeilis ýmissa grasa. Við mæltum okkur mót þar við Claudiu og Davið og eyddum með þeim nokkrum tímum í að skoða allskonar dót. Þetta er staður sem við ákváðum strax að við myndum fara aftur að heimsækja. Markaðurinn er haldin alla sunnudaga frá því í apríl fram í október. Við erum að leita okkur að borðstofuborði og stólum til að hafa með okkur heim og þessi staður virðist vera sá rétti til að finna það sem hentar okkur. Ég tók nokkrar myndir af markaðnum og þær er að finna á slóðinni http://langa.unak.is/gallery/view_album.php?set_albumName=Aberfoyle
Við fórum heim með dótið sem við fjarfestum í, expressókönnum, sófaborði og flottri heimsmynd á stofuvegginn. Claudia og David komu með okkur og kíktu á húsið og síðan skruppum við með þeim út og fengum okkur síðbúið hádegissnarl. Á eftir erum við svo að fara í grillveislu til Bo sem er yfir tölvudeildinni hér í Guelph.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.8.2007 | 01:24
Fyrsti dagurinn í UG
Í dag var fyrsti alvöru dagurinn hjá mér í Háskólanum í Guelph. Bo Wandschneider, sá sem hefur verið minn aðaltengiliður hér, vildi að ég kæmi á fund með sér í upplýsingadeild skólans svo ég gæti kynnt mig fyrir deildinni eins og hann orðaði það. Þarna þurfti ég að halda smá tölu um hver ég væri, hvað ég gerði heima á Íslandi, til hvers ég væri í Guelph og fleira í þeim dúr. Þarna var annars verið að fara yfir mál sem eru efst á baugi í skólanum í dag. Þarna er verið að fjalla um svipaða hluti og við erum að gera heima. Mælikvarðarnir eru aðeins öðruvísi. Nýnemar í skólann verð um 5000 á þessari önn og það er verið að undirbúa komu þeirra þessa dagana. Það verður gaman að fylgjast með hvernig tekið er á móti nýnemum við svona stóran skóla.
Mér líst mjög vel á það sem framundan er en ég fæ að fylgjast með mjög víða í deildinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.8.2007 | 22:26
Grill hjá Claudiu og David
Í gær fórum við í heimsókn til Claudiu frænku og Davids þar sem okkur var boðið í grill að hætti þeirra. Þau eru búin að vera í ferðalagi og komu heim á laugardag. Þau tóku vel á móti okkur eins og við var að búast. David fór með okkur strákunum á golfvöllinn til Trevors sem er mágur Claudiu. Hugmyndin var að hitta hann og að Óskar gæti keypt golfsett í búðinni hjá honum. Trevor þessi rekur búðina á golfvellinum. Þarna getur Óskar látið setja saman fyrir sig golfsett sem passar honum og verður í raun sérsmíðað fyrir hann. Trevor var ekki við en það var engu að síður tekið mjög vel á móti okkur og strákunum var hleypt út á æfingabraut vallarins þar sem þeir fengu að slá nokkrar kúlur út í loftið. Það er hugsanlegt að þeir fái að spila hring á vellinum seinna þótt hann sé eingöngu fyrir fasta meðlimi. Við vorum síðan hjá þeim fram á kvöld og héldum södd og sæl heim í myrkri seinna um kvöldið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2007 | 16:43
Strákarnir skráðir í skólann
Vorum að koma af fundi hjá námsráðgjafa í Centennial skólanum þar sem strákarnir koma til með að vera í vetur. Þeir gátu skráð sig í nánast allt sem þeir vildu. Ásgeir verður í miklum íþróttum ásamt söng og leiklist. Óskar aftur á móti valdi sér fög eins og stærðfræði, eðlisfræði og trúarbragðasögu. Báðir þurfa þeir að taka enskuáfanga svo það lítur út fyrir að þeir komi til með að vera uppteknir af skólanum.
Til gamans ætla ég að setja hér inn mynda af húsinu sem við komum til með að búa í næsta árið.
Svo kemur hér ein froskamynd. Hún var tekin eftir að Ásgeir hvarf út í þrumuveðrið of fór á froskaveiðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.8.2007 | 02:06
Bravó - Netið komið
Mér hefur alltaf þótt gott að hvíla mig á tölvum og interneti þegar ég hef haft tækifæri til þess. Síðustu daga hefur Adamsfjölskyldan verið margoft í vandræðum og bölvað því að hafa skertan aðgang að netinu. Þegar ég gerði samninginn við Bell frænda hér í Canada nú um daginn þá var mér sagt að tengingin okkar yrði virk á mánudag. Ekkert gekk fyrir mig að tengjast svo ég gerði mér ferð til að tala við Jennifer nokkra sem vinnur hjá Bell í Stone Road Mall hér í bæ. Hún var mjög sorrý á svip þegar hún sagði mér að því miður kæmist engin tenging á hér á heimilinu fyrr en á fimmtudag. Ég gæti þú hringt inn með módemi og notað netið þá leiðina. Ekki alveg draumurinn að eiga að fá 7Mb tengingu inn og þurfa síðan að sætta sig við 56k. Ég sá barasta fyrir mér gamla daga og mikinn hægagang. Nema hvað ég fór að brasa við að hringja inn á módemi bara til að komast aðeins í samband. Eftir mikið brölt komst ég að því að Jennifer vinkona mín hefði þurft að fara á námskeið í að skrifa niður lykilorð. Blessunin gerði engan greinamun á núlli og O svo dæmi séu tekin og því var ég alltaf að brasa með kolvitlaus lykilorð. Mér tókst svo loksins að ná sambandi eftir að vera búinn að reyta hár mitt góða stund. Þakka fyrir að vera ekki skeggjaður eins og sumir bræður mínir eru. Þegar ég var loks kominn í samband fór ég að vasast eitthvað um á síðunum hjá Bell frænda og viti menn eftir að vera búinn að fara í gegnum eitthvert innskráningarferli datt ekki háhraðinn í samband og þá fór nú að kætast hér í höllinni. Eftir að það var komið hakkaðist ég í módeminu sem Bell lét mig fá og kom þráðlausu tengingunni hér til að virka líka. Nú brosa allir hringinn hér í Canada og skrifa pósta og blogg í miklum erg og gríð.
Í gær var sunnudagur og familían fór í sunnudagsbíltúr út í sveit. Komum við við á bændamarkaði í St. Jacobs sem er þorp hér í nágrenninu. Þar var fjárfest í nýskornum maís og fleira góðgæti sem kom beint af akrinum og bændur voru að selja af pöllunum á pickupbílunum sínum. Þetta var síðan snætt hér í kvöld af bestu lyst. Við komum við í nokkrum smábæjum í viðbót og erum búin að finna fínan rúnt til að fara með gesti.
Í morgun á mínútunni 10 komu tveir vaskir drengir á flutningabíl með húsgögnin sem við keyptum á laugardaginn. Það fer vel um mannskapinn í kvöld og menn liggja hér hver með sína fartölvuna og nota netið sem á ekki að koma fyrr en á fimmtudag.
Í morgun kom einnig maður frá Rodgers sem er kapalfyrirtæki þeirra hér í bæ. Þeir voru með stóru skærin og klipptu á kapalinn sem ég var að að vonast til að hafa hér í nokkra mánuði endurgjaldslaust. Hann var nú reyndar svo almennilegur að skilja eftir nafn og símanúmer svo ég gæti látið tengja þetta aftur gegn vægu gjaldi. Ég sló á þráðinn og nú ætlar vinurinn að koma aftur á morgun og tengja okkur aftur á enn betri hátt en var áður en þetta samþykkti hann eftir að ég var búinn að láta af hendi vísanúmer og fleira sem honum þótti nauðsynlegt að vita. Við gerðum samkomulag um að ég myndi fá 70 sjónvarpsstöðvar og eitthvað fleira í leiðinni. Það verður frábært að fá svona margar stöðvar, stappaðar af auglýsingum til að horfa á hér á köldum vetrarkvöldum.
Ég keyrði drengina í bowling seinnipartinn í dag og notaði tímann á meðan til að bíða í biðröð á ökuleyfaskrifstofu. Þar var mér sagt að ég og öll mín familía þyrftum að að taka skriflegt og verklegt ökupróf til að fá leyfi til að keyra hér í landi lengur en 60 daga frá komu inn í landið. Ég hélt að ég væri í svo góðum málum með þetta því ég tók hér slíkt próf fyrir 25 árum eða svo þegar ég var námsmaður í Toronto. Ung stúlka brosti til mín og sagði mér að það ökuleyfi væri "expired" fyrir 20 árum eða svo. Ég brosti bara á móti og bölvaði í hljóði, en lofaði að mæta í próf innan 60 daga.
Komst aðeins í veiðibúð í dag og fékk upplýsingar um að með því að kaupa mér veiðileyfi fyrir 28 dali, kanadíska, mætti ég veiða hvar sem mér sýndist í Ontarío frá 1. janúar til 31. desember. Ekki er hægt að kaupa veiðileyfi fyrir minna en ár í einu . Ég þarf næst að kynna mér hvert er best að fara hér í kring. Ég verð samt sennilega að bíða eftir að kólni aðeins í veðri. Ég efast um að ég geti staðið á árbakka og veitt í 30 stiga hita eins og búinn er að vera hér síðustu daga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Adam Ásgeir Óskarsson
Tenglar
Tengdar síður
Nokkrar síður sem vert er að skoða
- Myndasíða Myndasíða
- Ásgeir Andri Adamsson Hér bloggar Ásgeir
- Óskar Helgi Adamsson Hér bloggar Óskar
- Lilý Erla Adamsdóttir Hér blogagr Lilý
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar