5.10.2007 | 15:27
Fundur í HA
Ég vaknaði fyrir allar aldir í morgun og tók þátt í fundi á netinu með félögum mínu í HA ásamt Camillu nokkurri sem ég ég held að hafi verið í Noregi. Hún var að kynna fyrir okkur athyglivert forrit til að halda netfundi með mynd og hljóði hvað þá meira. Við höfum með reglulegu millibili verið að leita að forritum sem þessum til að nota við fjarkennsluna. Það var fróðlegt að geta verið á svona fundi þar sem þátttakendur eru hver í sínum heimshlutanum en geta samt verið virkir á sama tíma í gegnum netið. Það sem er ekki gott í þessu máli er tímamismunurinn. Ég þurfti að rífa mig upp úr rúminu uppúr klukkan fimm í morgun til að vera með. Næst finnst mér að halda ætti svona fund á kristilegri tíma.
Annars hef ég verið að hugsa um að fara að slá lóðina en það styttist sjálfsagt í að það fari að kólna hér þótt það bóli ekki á því þessa dagana. Vona bara að það verði ekki jafn kalt og hjá þessum. Það væri allavega verra fyrir Hugrúnu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.10.2007 | 00:37
Hafðist
Jæja þá er það búið. Við hjónin skelltum okkur í bílprófið eftir hádegi í dag. Á leiðinni á prófstaðinn hlýddum við hvort öðru yfir mögulegar spurningar, umferðamerki, sektir, punkta og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta var sko ekki svona þegar ég tók bílprófið hjá Kjartani í gamla daga eða nána tiltekið í maí 1975. Það var ekki vesenið á þessu þá. Ekki heldur þegar ég fékk lánað mótorhjólið hjá Óla Kjartans og skellti mér í mótorhjólapróf. Þá var nú ekki verið að þvælast mikið um í gulum eða rauðum vestum heldur gengið beint í að taka próf.
Þarna sátum við hjónin sveitt yfir prófinu ásamt einhverjum slatta af unglingum sem vita ekki hvað 4x4 er hvað þá framdrif. Þannig er að ef maður fellur á prófinu þá getur maður bara farið í það aftur eftir að borga 10 dali í viðbót. Ein (stelpa) tók prófið að minnsta kosti í fjórða skiptið meðan við vorum þarna á staðnum. Við þurftum sem betur fer ekki nema eina atrennu og erum nú komin með pappíra upp á að við megum keyra bíl hér í landi. Ég skellti mér líka í mótorhjólaprófið fyrst ég var byrjaður og rúllaði því náttúrulega upp líka. Við eigum eftir að fara í verklega prófið með prófdómara og það er á dagskrá 20 október. Síðan þarf ég að fara í verklegt mótorhjólapróf líka en það er ekki komið á dagskrá enn sem komið er. Nú þarf bara að fara að líta í kringum sig eftir hjóli af alvöru.
Skruppum aðeins á bílasölu eftir að fá pappírana og nú verður unnið að því á næstu dögum að finna bíl handa Hugrúnu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.10.2007 | 15:05
Bílpróf
Ég hélt að ég væri búinn að taka öll þau próf á ökutæki sem ég myndi nota á lífsleiðinni.
Þeir eru ekki sammála þessu hér í Ontaríó sýslu í Kanada og vilja endilega fá að sjá hvað við Hugrún kunnum fyrir okkur í umferðarreglum og ökutækni. Okkur var gefið leyfi til að aka hér um í tvo mánuði án þess að gera nokkuð í málinu en ef við viljum halda því áfram eftir þann tíma skulum við sko í bílpróf ef við ætlum okkur að aka hér um. Ekki nóg með að við þurfum að fara í próf og standast það að sjálfsögðu þurftum við að fara með íslensku (alþjóðlegu) skírteinin okkar til löggilts skjalaþýðanda og fá þau þýdd yfir á enska tungu. Þýðandinn hafði aldrei heyrt á það minnst að íslenska væri tungumál sem væri talað einhversstaðar í veröldinni svo við þurftum að aðstoða hann við þýðinguna. Hann stimplaði síðan allt í bak og fyrir og fór fram á sína 80 dali fyrir viðvikið. Þar að auki þurftum við að senda afrit af skírteinunum okkar til sendiráðsins í Ottawa og fá þau þýdd og staðfest með fleiri stimplum frá fulltrúa íslenskara yfirvalda hér í landi.
Síðustu kvöld og daga höfum við svo verið að stauta okkur í gegnum bók með umferðarmerkjum, heilum og brotnum línum, hægri og vinstri beygjum, umferðarljósum og öllu sem þessu fylgir. Við ætlum okkur síðan að skella okkur í skriflegt próf eftir hádegið í dag og athuga hvort okkur tekst að ráða við þetta. Þegar og ef okkur tekst að ná þessu prófi þurfum við að panta tíma fyrir verklegt próf.
Þegar við höfum lokið þessum skylduverkum getum við loksins farið í það f fullri alvöru að kaupa okkur bíl og skrá hann á okkar nafn hér í landi. Ætli við kíkjum ekki við hjá Ray vini okkar bílasala þegar við verðum búin með skriflega prófið seinna í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.9.2007 | 02:08
Forks Of The Credit
Dagurinn í dag var notaður í haustlitaferð. Farið var af stað um hádegi eftir að hafa úðað í sig vel af hafragraut, lýsi og auðvitað rosalega góðum expressó. Staðurinn sem stefna var tekin á er þjóðgarður norðan við Toronto og heitir Forks Of The Credit. Credit er á sem rennur í Lake Ontario og þarna rennur hún um skógi vaxinn dal, Credit Walley. Við gengum þarna um í haustblíðunni og nutum þess að vera úti í góða veðrinu. Völdum að ganga frá bílastæðinu þar sem við lögðum bílnum í átt að ánni. Þetta var göngutúr upp á tvo tíma eða svo og hverrar mínútu virði. Við myndum sjálfsagt fara oftar á þennan stað ef hann væri aðeins nær. Það voru náttúrulega teknar nokkrar myndir og í þetta skiptið kemur líka video með í pottinn.
Silungurinn frá því í gær var síðan étinn með bestu lyst beint af grillinu þegar heim var komið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.9.2007 | 02:51
Hanover
Þessi föstudagur er búinn að vera frábær. Strákarnir áttu frí í skólanum svo við ákváðum að vera öll í frí í dag. Vöknuðum á venjulegum tíma, rúmlega sjö og ég byrjaði á að sjóða hafragraut eins og alla aðra daga. Síðan ver stefnan tekin norður úr Guelph í átt til Hanover. Þar var búið að bjóða okkur í heimsókn hjá Wilhelm og Ann. Þetta er tæplega tveggja tíma akstur svo ekki veitti af tímanum. Þau hjón fluttu á þennan stað þegar þau hættu að vinna fyrir þremur árum. Þau höfðu áður notað staðinn sem sumarbústað. Þetta er sannkallaður sælureitur sem þau eiga þarna og virkilega gaman að koma til þeirra.
Við byrjuðum á að skoða ánna sm er á landareigninni, þar er Wilhelm búinn að fylgjast með nokkrum fiskum í allt sumar en það bólaði ekkert á þeim í dag. Við komum strákunum á golfvöll stutt frá og síðan skelltum við Wilhelm okkur að veiða í á sem heitir Rocky Saugeen. Áin var gríðarlega falleg og umhverfið allt eins og best verður á kosið. Kristaltært vatn, frekar vatnslítið og róleg og það sem verst var ekki branda í ánni. Við reyndum fyrir okkur á nokkrum stöðum en það var allsstaðar sama sagan, enginn fiskur. Wilhelm segir mér að eitthvað óútskýranlegt sé að gerast í ánum á svæðinu. Það er að hverfa úr þeim fiskurinn. Hverju sem um er að kenna. Hann vill meina að þetta sé út af áburðarnotkun bænda á svæðinu og breytingum á búskaparháttum. Hlýnun umhverfisins á sennilega sinn þátt í þessu líka að hans áliti. Hvað um það, ég hef svo sem farið í veiðitúr áður og ekki fengið neitt. Þetta var samt alveg einstaklega skemmtilegur túr. Veiði við aðstæður sem ég hef aldrei prófað áður, öðruvísi á og tré út um allt.
Þegar veiðitilraunum okkar var lokið var haldið aftur heim á leið og þar var Ann búin að elda þessa líka dádýrssteik, dýr sem Wilhelm sjálfur hafði veitt. Allt meðlætið með matnum var upprunnið í garðinum hjá þeim hjónum sem þau sinna að einstakri alúð. Við vorum nestuð grænmeti þegar við fórum heim.
Þau eru með tjörn í garðinum þar sem alinn er regnbogasilungur. Til að Íslendingurinn færi ekki með öngulinn í rassinum heim var haldið að tjörninni með sérstaka flugu sem hann hnýtti áður en við komum. Það var líf í tjörninni og ekki lengi verið að ná í tvo silunga sem verða í kvöldmatinn á morgun. Það verður fínt að fá fisk sem maður veit að er ekki búinn að vera dauður lengi. Ég hlakka til að borða hann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.9.2007 | 20:45
Settið hálfkomið....
Við Óskar fórum í gær að sækja SETTIÐ. Þeir sem vita ekki hvað það er hafa greinilega ekki verið að fylgjast með á síðunni hans Óskars. Ferðin hjá okkur gekk fínt fyrir utan að við vorum sendir út á sveitavegina vegna þess að það hafði oltið tankbíll á leiðinni niður í Burlington. Vegurinn var lokaður í fleiri klukkutíma út af þessu slysi. Við höfðum þetta samt af á endanum og mikil hamingja greip um sig þegar við komumst á leiðarenda og ljóst var að SETTIÐ var komið. Reyndar tjáði Trevor okkur að það hefði ekki mátt muna miklu að þetta gengi ekki. Það þurfti að ræsa út forstjóra Ping í Canada og USA til að allt gæti gengið eins og vera ber. Verksmiðjurnar voru endurræstar og SETTIÐ smíðað í réttum lengdum og tilheyrandi. Það vantaði reyndar eina kylfu og drivera uppá að allt kæmi en það á að vera tilbúið þegar við förum næst til Burlington.
Ég átti viðtal í gær við Kent Hoig en hann er í forsvari fyrir Univerity Systems deildinni í háskólanum. Þessi deild sér fyrst og fremst um tölvukerfin sem notuð eru til að halda utanum launa og starfsmannamál stofnunarinnar. Það fór mjög vel á með okkur enda maðurinn danskur að uppruna og þótti merkilegt að ég talaði dönsku. Þegar hann frétti af hugrúnu hér bauðst hann til að leiða hana í sannleikann um þessi mál. Á meðan ég sat og spjallaði við Kent var Hugrún á fundum á hæðinni fyrir ofan. Þar var tekið vel á móti henni og hún er að komast í samband við fólk í skólanum sem sér um sambærileg mál og hún gerir í HA. Það er sama sagan hvar sem við komum alltaf er tekið jafnvel á móti okkur og allir vilja allt fyrir okkur gera.
Á morgun er frí í skólanum hjá strákunum og við Hugrún ætlum að taka okkur frí líka. Stefnan verður tekin til Hanover þar sem Wilhelm veiðimaður býr. Meiningin er að drengirnir fari í golf, Hugrún eyði deginum með Ann, konu hans, og við Wilhelm förum að veiða. Ég þarf ekki að taka það neitt sérstaklega fram að ég er farinn að dauðhlakka til að komast í veiðitúr. Veðrið á líka að vera viðunandi hér á morgun en það er spáð hálfskýjuðu og 22ja stiga hita.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.9.2007 | 02:32
Rólegt yfir bloggheimum
Ég er búinn að vera frekar slakur við bloggið síðustu daga. Þetta er ekkert annað en venjuleg leti sem er að hrjá mig. Maður er sennilega að komast á það stig að dagarnir eru að verða "ósköp venjulegir" hjá okkur hér fyrir westan. Ýmislegt hefur nú samt verið að gerast síðan síðast. Hefst nú upptalningin.
Á föstudag átti ég stefnumót við þá sem sjá um netþjónamál í Guelph háskóla. Ég fékk mjög góða leiðsögn hjá Kent Percival sem hefur reynst mér mjög fræðandi um tölvumál skólans. Hann er vel inni í þróun mála og hefur fylgst með tölvumálum frá örófi alda ef svo má segja. Maðurinn er þvílíkur hafsjór af fróðleik um þessi mál og talar um allt af mikilli innlifun. Hann hefur enda verið með í að byggja upp háskóla og fræðslunet hér í Kanada og verið ráðgjafi fleiri landa og margra stofnana við uppbyggingu net og tölvukerfa. Hann minnir mig stundum á Hauk vin minn Ágústsson þegar hann talar um sín hjartans mál.
Kent var búinn að bóka fyrir okkur skoðunarferð og leiðsögn um undirheima UoG þar sem netþjónar þeirra eru hýstir. Þarna eru líka hýstir netþjónar fyrir rannsóknar- og vísindastofnanir víða í Kanada. Háskólinn hýsir svokallaðan POP punkt fyrir ORION sem er rannsóknarnet háskólanna í Kanada. Ég hef ekki fyrr komið inn í önnur eins herbergi og voru þarna í kjallaranum. Þarna var allt fullt af netþjónum af öllum stærðum og gerðum. Allt frá venjulegum þjónum eins og maður sjálfur er að fást við heima upp í 256 fjögurra örgjörva samtengda netþjóna með 186Tb diskaplássi. Ég tók nokkrar myndir í þessari heimsókn og þeir sem hafa áhuga geta kíkt á þær.
Klukkan 6 á föstudag kom Larry vinur okkar og sölumaður í heimsókn. Við vorum búin að boða hann hingað til að fá hann til að smíða handa okkur nýtt hjónarúm. Það er búið að vera á dagskrá hjá okkur í nokkur ár að komast yfir gott rafmagnsrúm með nuddi og hrotuvara. Nú er semsagt komið að því. Þetta verður sérsmíðuð mubla af sverustu gerð, ekki seld í búðum heldur með beinu sambandi við kúnnann. Til að allt verði eins gott og mögulegt er þarf að vigta mann og mæla á alla kanta og rúmið síðan sérsmíðað miðað við lengd og rúmmál. Larry mætti semsagt með vigt og tommustokk og setti allt í gang við að smíða handa okkur rúm. Vonandi fáum við það sem fyrst því rúmræfillinn sem við sofum í eins og er þolir mig ekki mikið lengur. Það brakar og brestur í mér og rúminu þegar ég fer á fætur á morgnanna og maður er smá stund að koma sér í gang með lýsi og tilheyrandi.
Á laugardaginn stóð til að fara með Óskar til Burlington til að sækja golfsett sem verið er að sérsmíða fyrir hann. Ég ætlaði mér að skreppa í heimsókn til Harley vinar míns í Hamilton á meðan Óskar golfaði. Þessi heimsókn okkar gekk ekki eftir því Trevor (sá sem er að panta settið) afboðaði því settið kom ekki. Ég fór því ekki að hitta Harley á laugardaginn.
Við fórum í boð til Claudiu og Davids á laugardagskvöldið og hittum þar Bonnie og Stanley. Hann er fjarskyldur ættingi eins og Claudia og hefur mikinn áhuga á að finna sínar rætur heima á Íslandi. Þau búa í Seattle á vesturströnd USA og eigum við heimboð inni hjá þeim ef við verðum þar á ferðinni. Við áttum með þeim mjög góða og skemmtilega kvöldstund. Claudia var með frábæran mat að vanda og það er alltaf gaman að heimsækja hana og David.
Sunnudagurinn var rólegur, drengirnir sváfu fram yfir hádegi en við gamla skelltum okkur á antikmarkaðinn. Þar er alltaf gaman að koma og margt skemmtilegt að sjá. Ég er viss um að við eigum eftir að fara margar ferðir þangað í viðbót áður en dvöl okkar hér er úti. Hugrún er að safna í kristal og náði sér í nokkra hluti í safnið á tombóluverði eins og lög gera ráð fyrir.
Í dag skruppum við hjónin síðan til Kitchener. Ég var búinn að finna þar útibú frá félaga Harley og ákveðinn í að kíkja við. Ég var á höttunum eftir notuðum Halla til að leika mér á meðan við verðum hér úti. Við fórum þarna að spjalla við fólk og okkur var mjög vel tekið á staðnum. Hugrúnu var boðið að koma aftur að kvöldi 10. október og taka þátt í kvennakvöldi sem þá verður. Nú er bara að telja hana á að mæta þar með hinum Harleykellunum. Hver veit nema takist að smita hana. Ég fékk boð um að koma þann 14. október en þá verður þarna sýning á öllum 2008 módelunum og hægt verður að fá að prófa hvaða hjól sem maður vill. Ég er strax farinn að hlakka til. Annars kom það í ljós í dag að það borgar sig að hafa Hugrúnu með i þessar ferðir því hún hvatti mig til þess að fá mér nýtt hjól í stað þess að vera að spá í notað. Nú þarf ég að sofa á þessu í nokkrar nætur (í gamla rúminu) áður en ég ákveð mig með þetta mál. Það eru því erfiðar nætur framundan.
Gott í bili
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.9.2007 | 14:53
Grill og næs
Það var aldeilis tekið á því í grillmálunum í gær. Í hádeginu var blásið til grillveislu á bak við bókasafnið. Staffinu á safninu og í tölvudeildinni var boðið að koma og næra sig. Þarna mættu nærri hundrað manns og áttu góða stund saman í sólskyninu sem er hér þessa dagana. Bara rétt il að nefna það, þá fór hitinn í 33 gráður þegar heitast var í gær. Gott septemberveður það.
Við vorum búin að ákveða fyrir helgi að hóa í Íslendingana hér á staðnum í grill hjá Adamsfjölskyldunni í Paulstown. Það var hin besta veisla hjá okkur og gaman að hitta fólkið. Gátum farið í gegnum bílamál og fleira með fólki sem búið er að ganga í gegnum þann pakka sem við erum að gera núna þessa dagana. Það verður ekki umflúið að við verðum að taka bílpróf til að vera lögleg hér í landi. Ég þarf sennilega að taka mótorhjólapróf líka. Mér finnst með þessu verið að fara illa með fólk sem kemur hér til að vera í stuttan tíma. Fréttum það að við gætum ekki keypt bíl né önnur farartæki nema við værum með hérlend ökuleyfi í lagi.
Við vorum að flakka um á bílasölum hér í gær og það er úr miklu að moða það er greinilegt. Erum núna hrifnust af Pontiac Torrent en það er bíll með góðu plássi í aftursætum fyrir menn sem ganga í skóm númer 47.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.9.2007 | 13:29
Wilhelm og Ann í heimsókn
Fyrir nokkrum dögum hafði ég samband við tvo félaga sem höfðu komið til Íslands að veiða fyrir tveimur árum síðan. Annar þeirra Wilhelm Gruber býr í bæ sem heitir Hannover og er ekki langt héðan frá Guelph. Hann þarf að koma hingað á nokkurra vikna fresti í meðferð sem hann er í við liðagigt. Þegar hann komst á aldur til að hætta að vinna þá fluttu þau hjón frá Toronto til Hanover á stað sem þau höfðu átt í tuttugu ár og notað sem sumarbústað. Þarna taka þau lífinu með ró á stað sem hann lýsir eins og paradís þegar hann ræðir við mig.
Nema hvað Wilhelm og Ann komu til Guelph í gær og eftir að vera búinn að hitta lækna þá vorum við búin að mæla okkur mót á kaffihúsi hér nærri Háskólanum. Við hittumst þar en fórum síðan bara beint heim í Paulstown og sátum þar í nokkra tíma og ræddum málin yfir kaffibolla. Hann sagði okkur að það rynni á í gegnum garðinn hjá þeim og það væri golfvöllur við hliðina. Þau buðu okkur að koma þegar við vildum og vera hjá þeim. Það var ákveðið að fara eftir rúma viku á laugardegi. Við Wilhelm ætlum að fara að veiða, strákarnir ætla að spila golf og Hugrún verður með Ann á meðan. Hún ætlar að fara með henni á einhverja staði á svæðinu svo allir ættu að fá eitthvað við sitt hæfi. Wilhelm vísaði mér síðan á staði til að fara á hér í kring og nú fer eitthvað að gerast í málunum. Ég er búinn að vera að því síðustu daga að koma mér upp því sem þarf í fluguhnýtingar og Wilhelm er búinn að bjóðast til að sýna mér réttu handtökin við að hnýta þurrflugur. Það eru fáir betri en hann í að hnýta og ég hlakka mikið til að fá leiðbeiningar frá honum. Hann benti mér einnig á stað í Fergus, hér rétt fyrir norðan, þar sem upplagt væri að fara og renna fyrir urriða. Ég er að hugsa um að prófa það seinna í vikunni.
Hugrún fór í það í gær að útvega okkur bókina sem við þurfum að læra fyrir ökuprófið sem við þurfum sennilega að taka innan mánaðar ef við ætlum að vera lögleg á bíl hér í landi. Við höfum leyfi til að keyra í tvo mánuði eftir að við komum til Kanada og nú í dag er nákvæmlega mánuður síðan við lögðum í hann. Það merkir að við höfum mánuð í viðbót til að koma okkur í þetta blessaða próf. Við erum farin að leita okkur að bíl og búinn að setja mann í það með okkur. Hann býr reyndar í New Brunsvik en er að leita að bílum á okkar svæði engu að síður. Við erum að vonast til að vera komin á okkar eigin bíl innan mánaðar eða svo. Harleyinn er svo annað mál sem verður að fara að komast botn í.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.9.2007 | 17:32
Helgin og flugvallarferð
Við vorum að koma frá því að koma Sigrúnu á flugvöllinn. Hún fer héðan til Boston og svo heim seinna í dag. Við þurftum að vakna fyrir allar aldir í morgun og koma okkur af stað. Það er greinilega farið að kólna hér á nóttinni því hitinn var ekki nema 4 stig þegar við lögðum af stað. Sólin var rétt komin upp og ekki farin að ylja að neinu ráði. Við römbuðum´á réttan stað á flugvellinum í þetta skipti en þurftum nú samt að fara ansi víða. Þegar við komum að því að innrita Sigrúnu var búið að fella niður flugið sem hún átti að fara með. Hún fékk samt far með öðru flugfélagi en það þýddi lestarferð fram og aftur um flugvöllinn þar til við komumst til að innrita hana.
Það er búið að vera frábært að hafa Sigrúnu hér hjá okkur og vonandi kemur hún aftur til okkar í vor.
Í gær fórum við fullorðna fólkið í ferðalag á markaðinn góða í St. Jacobs. Ég hélt reyndar að ég yrði ellidauður þar þegar þær systur komust í bútasaumsverslun þar. Ég var búinn að skoða allt þar inni þrisvar og fjórum sinnum þegar þær voru búnar að skoða þar það sem þær vildu. Ég verð þó að viðurkenna að það var býsna gaman að koma þarna inn því þar var verið að sýna handbragð og þarna var alls konar handavinna, tréverk og fleira á ferðinni. Verslun þessi er rekin að Menonitum sem eru eins konar Amish söfnuður sem býr hér á svæði norðan við Guelph. Við fórum á markaðinn eftir bútasaumsverslunina og versluðum þar af bændum allt sem við þurftum í kvöldmatinn. Claudia og David komu síðan til okkar um kvöldið og voru hjá okkur og við áttum góða stund saman. Claudia kom með saumavél sem hún lánaði Hugrúnu og nú fer allt að verða klárt í saumaskapinn. Myndir úr búðinni er að finna á http://langa.unak.is/gallery/view_album.php?set_albumName=StJacobs
Á föstudag fengu drengirnir frí úr skólanum til að fara með okkur að skoða Niagara fossa. Við vorum mjög heppin með veður þennan dag. Hitinn var rétt undir 30 stigum og fossarnir einstaklega flottir að sjá. Við slepptum því að sigla með Maid of the Mist bátunum að þessu sinni en ætlum að geyma það þar til við förum aftur. Við reiknum fastlega með því að fara fleiri ferðir til að skoða þessa fossa því þeir eru stórfenglegir. Þarna í kring er mikill ferðamannaiðnaður en sem betur fer er aðal ferðamannatíminn liðinn núna þannig að við vorum ekki í mikilli mannþröng á meðan við dvöldum á svæðinu. Við fórum upp í turn sem er þarna og útsýnið þaðan yfir fossana er engu líkt. Turninn er þó ekki nema 160 metra hár og slagar varla upp í CN turninn í Toronto sem er yfir 500 metra. Hann geymum við til betri tíma. Myndir frá Niarara er að finna á http://langa.unak.is/gallery/view_album.php?set_albumName=niagara14sept
Nú er ég að fara að koma Óskari á golfvöllinn en hann ætlar að taka einn hring með Boga. Ég er að hugsa um að skreppa í veiðibúð í leiðinni og ná mér í smá fluguhnýtingaefni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Adam Ásgeir Óskarsson
Tenglar
Tengdar síður
Nokkrar síður sem vert er að skoða
- Myndasíða Myndasíða
- Ásgeir Andri Adamsson Hér bloggar Ásgeir
- Óskar Helgi Adamsson Hér bloggar Óskar
- Lilý Erla Adamsdóttir Hér blogagr Lilý
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar