20.10.2007 | 16:22
Laugardagur og ein vikan enn að klárast
Við höfum verið að tala um hvað tíminn sé ótrúlega fljótur að líða. Í dag eru nákvæmlega tveir mánuðir síðan við fluttum inn í húsið hér í 10 Pausltown Crescent. Fyrstu vikurnar voru svolítið lengi að líða í hálftómu húsinu. Við vorum að verða okkur úti um húsgögn og koma okkur fyrir eins og við vildum hafa hlutina. Við vorum að leita að þessum stað eða hinum og fara eftir þessu eða hinu í hina og þessa áttina. Þannig var það bara. Nú finnst okkur eins og við séum búin að fara í gegnum þann pakkann og þá fara hlutirnir að ganga sinn vanagang. Sem ég sit og skrifa þetta þá er Hugrún að taka verklega bílprófið og þá er sá kafli frá. Hún fær þá loksins að keyra nýja bílinn sinn og við getum farið að reyna að selja bílinn fyrir leigusalann okkar. Hofum verið með hann á leigu gegn vægu gjaldi hingað til.
Vikan sem er að líða hefur verið ósköp venjuleg. Ég hef farið í háskólann á hverjum degi og verið þar frá morgni til kvölds ef svo má segja. Hef fengið fínan tíma til að lesa mig í gegnum forritunarbókina sem ég er að fara í gegnum. Vonandi færi ég mig aðeins um set í næstu eða þarnæstu viku og fer að kynna mér fjarkennslumálin í skólanum. Það verður gaman að sjá hvernig þeir hlutirnir eru gerðir hér.
Annars er aðalmálið þessa vikuna að ég er búinn að finna mér hjól til að nota meðan við verðum hér úti. Þetta hafa glöggir lesendur bloggsíðunnar líklega verið búnir að reikna út. Hjólið kom hingað heim í gær og stendur nú úti í bílskúr, svona líka glansandi fínt og flott. Það er af gerðinni Harley Davidson (nema hvað) og undirtegundin er Softail Deuce. Ég veit að sumir vilja sjá myndir svo ég setti nokkrar inn á myndasíðuna mína. Ég læt líka fylgja hér með tengil á video svo hægt sé að sjá hvernig menn taka sig út á ferðinni.
Á eftir stendur til að fara að hitta Halla vin minn í Mississauga og á morgun á að fara til Toronto til að athuga með hanboltaæfingu fyrir Óskar. Meira um það síðar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.10.2007 | 02:07
FXSTD
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.10.2007 | 17:20
Heví Sunnudagur
Á laugardag komu Bo og fjölskylda í mat hjá okkur. Fleskesteikin hjá Hugrúnu klikkaði ekki frekar en venjulega og við áttum frábært kvöld saman.
Á sunnudag var farið á fætur á svipuðum tíma og venjulega. Bogi var búinn að boða komu sína í morgunmat og maður þurfti að standa undir merkjum hvað það varðar. Framreiddur var morgunverður sem samanstóð af beikoni, eggjum, pönnukökum, ávöxtum og fleira gúrmei dóti og þessu var skolað niður með hlynsýrópi eins og lög gera ráð fyrir hér í Kanada. Þetta er orðinn standard hjá okkur á sunnudagsmorgnum en ég veit svo sem ekki hvort maður hefði gott af þessu á hverjum morgni. Held að það endaði bara á einn veg.
Eftir að gera morgunverðinum góð skil hélt ég til Kitchener til að hitta félagana Harley og Davidson. Þeir voru mættir með stóran trukk og u.þ.b. 20 ný hjól til að leyfa fólki að prófa. Verst að ég gleymdi myndavélinni heima svo ég birti ekki myndir að þessu sinni úr ferðinni. Ákvað að sýna bara íslenska skírteinið mitt þegar ég skráði mig í reynsluaksturinn og því var bara vel tekið þó svo að enginn skyldi hvað á því stóð og hvað þá síður hvað það þýddi. Ég skráði mig í þrjár ferðir og náði því að prófa þrjú hjól. Nightster, V-Rod og Night-Rod voru hjólin sem ég prófaði. Það var ágætt að ég prófaði þessar gerðir því ég komst að því að ég passa greinilega ekki á öll hjólin og þar með ætti það að einfalda mér að finna hjól við hæfi. Það var frábært að fara í þennan prufuakstur og hitta fullt af fólki sem var að gera það sama.
Þegar ég kom heim eftir hjóltúrana var Óskar uppveðraður yfir því að vera búinn að finna tónleika í Toronto sem hann blóðlangaði að fara og sjá. Ég skellti með að sjálfsögðu með hann þangað en Hugrún og Ásgeir vildu ekki koma með. Þarna fór ég á einna skrítnustu tónleika sem ég hef farið á en ég hafði aldrei heyrt á tónlistarmanninn Serj Tankian minnst áður. Þetta er armenskur tónlistarmaður sem flytur eins konar Experimental Multi Cultural Heavy Metal. Það var ekki laust við að ég væri með hellur fyrir eyrum þegar við komum út aftur. Óskar var í sjöunda himni yfir þessum tónleikum og skemmti sér konunglega inni í miðri þvögunni en ég kom mér fyrir úti í horni þar sem ég gat séð og hlustað á það sem fram fór. Hann á örugglega eftir að setja færslu um þetta á bloggið sitt þegar hann kemst í það.
Við fórum síðan heim og tókum einn léttan hring í gegnum miðbæ Tóronto í leiðinni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.10.2007 | 04:37
Gönguferð í hádeginu
Á föstudaginn skrapp ég aðeins út í góða veðrið til að fá mér göngutúr um háskólavæðið að hluta. Þetta var gert til að standa aðeins upp frá tölvugrúskinu, fá sér ferskt loft og ná sér í kaffisopa í bolla. Í leiðinni tók ég nokkrar myndir af háskólahúsunum í nágrenni við bygginguna þar sem ég eir staðsettur. Ég tek fram að þetta er aðeins lítill hluti af byggingum á skólalóðinni en umhverfið allt er í þessum dúr, svæðið er mjög grænt og fallegt og gott að ganga þarna um meðal krakkanna sem eru alltaf mjög lifandi og skemmtilegir. Vildi stundum að ég væri í þessum hópi á ný. Í kvöld voru Bo og fjölskylda hjá okkur í heimsókn og vegna þess að hann er Dani var tekin ákvörðun um að elda fleskesteig al a Hugrún. Þegar sú ákvörðun hafði verið tekin þurfti að hafa upp á búð sem seldi svínakjöt með húð og beini og öllu tilheyrandi. É þeirri leit fundum við þessa líka fínu kjötbúð rétt við þar sem við búum. Kjötbúð sem því miður var ekki með á boðstólum það sem við vorum að leita að en margt annað sem ekki var síður girnilegt. Nema við þurftum að fara alla leið til Cambridge til að finna slátrara sem var til í að láta okkur hafa almennilegt hráefni í steikina. Með henni vorum við með rauðbeður úr ræktun Wilhelms vinar okkar í Hanover og eitt og annað sem nauðsynlegt er. Það þarf ekki að taka það fram að þetta tókst vel. Þeir sem hafa smakkað fleskesteig hjá Hugrúnu vita hvað ég meina.
Á morgun ætla ég að fara til Kitchener en það er opinn dagur hjá þeim vinum mínum í Harley Davidson þar á staðnum og þeir ætla að leyfa manni að prófa öll 2008 módelin sem eru að koma á markaðinn á næstu dögum. Þarf að fara að tékka á leðrinu fyrir þessa ferð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2007 | 17:58
Ökuréttindi
Ég ráðlegg öllum sem fara til að búa í útlöndum að fá sér alþjóðlegt ökuskírteini áður en þeir fara af stað. Ég veit líka að hjá sýslumanni hafa þeir fengið þá flugu í höfuðið að íslenska ökuskírteinið gildi allsstaðar. Það er sko ekki aldeilis svoleiðis. Við erum búin að standa í því að verða okkur úti um ökuréttindi hér í landi og gera að við héldum allt sem við þurftum að gera og meira en það. Þegar ég síðan ætlaði að fara að tryggja bílinn hennar Hugrúnar kemur í ljós að ég get ekki gert það vegna þess að ég var bara með hérlend réttindi til þess að keyra á moldarslóðum og þá með leiðbeinanda með mér. Mátti alls ekki aka á hraðbrautum og ekki eftir klukkan 12 á kvöldin til klukkan 5 á morgnanna. Ef ég hefði verið með alþjóðlegt ökuskírteini hefði þetta ekki verið neitt vandamál. Ég hefði ekki verið í nokkrum vandræðum með að tryggja bílinn hennar Hugrúnar í það minnsta.
Það var svo komið í gær að ég var gersamlega við það að fara á yfirsnúning út af þessum reglum og endalausu uppákomum að ég var að búa mig undir að rífa verulegan kjaft á ökuleyfaskrifstofunni hér í bæ. Fórum þangað seinnipartinn í gær og sennilega var betra að Hugrún var með mér :-)
Þar var mér gefið leyfi til að koma í morgun og sitja og bíða ef einhver kæmi ekki í verklega ökuprófið. Ég þurfti að komast í það til að fá full réttindi og geta tryggt bílinn. Var mættur fyrir átta í morgun og komst að um klukkan tíu og gat þá loksins klárað þetta ferli að ég held. Nú bíð ég eftir að heyra frá Önnu Joseph sem vonandi fer að hringja í mig. Hún ætlar (vonandi) að tryggja fyrir okkur. Þegar það er gengið í gegn ættum við að geta farið og sótt Fordinn og komið honum heim.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.10.2007 | 03:18
Rockton - Fair
Í dag er Þakkargerðardagur hér í Kanada. Þennan dag nota innfæddir venjulega til að snæða kalkún, vera með fjölskyldunni og hitta vini og vandamenn. Við tókum forskot á fuglinn í gær og borðuðum með Kanadísku "fjölskyldunni okkar". Í dag var svo stefna tekin á landbúnaðarsýningu (Fair) í smábænum Rockton sem er í 40 mínútna fjarlægð hér fyrir sunnan okkur. Á þessum mannfögnuðum koma menn saman og skemmta sér og öðrum. Þarna var fullt af sirkus tækjum fyrir blessuð börnin til að snúast í, detta og hossast á alla kanta. Sem betur fer eru okkar menn að vaxa uppúr þessu dóti þannig að við gátum gengið hraðferð í gegnum þá deildina.
Bændur úr sveitinni eru búnir að vera að brasa allt sumarið við að rækta allt sem vex hér um slóðir. Þarna koma þeir saman með uppskeru sína og búfénað. Haldnar eru keppnir í öllu sem hægt er að keppa í og rúmlega það. Þarna er keppt í því hver er með stærsta kálhausinn, hver gróf upp stærstu eða skrítnustu kartöfluna, hver bakar best pönnukökuna, bjó til bestu sultuna eða eplasafann. Haldnar eru griðasýningar og þarna var allt fullt af kanínum, hænsnum, kindum, hestum, kúm og ég veit ekki hvað og hvað. Ég var hrifnastur af hænsnahúsinu en þar vöru örugglega yfir 200 mismunandi hænur, mikið hnýtingarefni þar. Fiðurféð var allavega á lit og í útliti. og ég hefði ekki trúað að svona margar mismunandi hænsnategundir væru til.
Þarna voru nokkrir að sýna handverk af ýmsum toga. Járnsmiður lamdi járnið í stórum stíl og smíðaði ýmsa hluti upp á gamla mátann. Menn stóðu í útskurði og þarna var alls konar handavinna og saumaskaur til sýnis.
Það var virkilega gaman að vera þáttakandi í þessu og ekki skemmdi veðrið, hitinn um 30 gráður, sól og blíða. Þeir sem vilja kíkja á myndir gera það hér.
Guðmundur og Jóhanna hringdu í okkur á meðan við vorum að spóka okkur á svæðinu og höfðu þá verið að reyna að ná í okkur en ekki tekist. Þau buðu okkur í þakkargerðarkalkún hjá þeim sem við að sjálfsögðu þáðum með þökkum. Þar hittum við í kvöld fleiri Íslendinga sem eru hér á staðnum, Sigurbjörg og dóttir hennar Margrét frá Hólum voru þar líka og hafði Sigurbjörg tekið sig til og bakað pumpkinpæ upp á Kanadíska vísu og smakkaðist það stórkostlega eins og allur annar matur sem var á boðstólum hjá þessu heiðursfólki.
Á morgun tekur síðan venjuleg vika við og þá er að hafa sig á fætur á eðlilegum tíma. Smyrja í drengina og gefa þeim hafragraut og lýsi og koma sér síðan í vinnuna. Í vikunni þurfum við líka að sækja bílinn, fá hann tryggðan og gera það sem þarf að gera í þeim málum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.10.2007 | 04:05
Thanksgiving
Ég er búinn að fara tvær ferðir til Burlington í dag. Fyrri ferðin var farin í morgun með Óskari´sem þurfti að fara þangað í golftíma hjá Trevor. Það var svartaþoka alla leiðina en birti til þegar við komum niður að vatninu. Óskar fékk viðbót við settið góða sem hefur verið að koma til hans í áföngum. Trevor hefur tekið hálfgerðu ástfóstri við Óskar og er ákveðinn í að kenna honum golf almennilega. Í dag var tekið vídeó af honum í sveiflunni, það síðan sett í tölvu og borið saman við sveiflu hjá hinum og þessum golfurum sem ég kann ekki að nefna. Síðan var farið á völlinn og nokkur högg tekin undir styrkri leiðsögn Trevors.
Seinni ferðin var farin seinnipartinn í dag til að taka þátt í Thanksgiving veislu heima hjá Trevor og Mary konu hans sem er systir Claudiu frænku. Það var eldaður kalkúnn og allt sem því tilheyrði. Við nutum þess virkilaga að vera með þessum vinum okkar hér í Kanada og það er eins og við höfum alltaf þekkt þetta fólk, þannig er okkur tekið. Strákarnir komust heldur betur í feitt í kjallaranum hjá Trevor og Mary en þar er hann með sitt leikherbergi með billjardborði stórum flatskjáum, bar og ég veit ekki hvað og hvað. Þeir spiluðu nokkra leiki og höfðu það gott. Myndir eru hér.
Það var sama þokan á leiðinni heim en það stendur til bóta og spáð er 30 stiga hita hér á morgun.
Á morgun er frídagur hér í Kanada og það stendur til að fara á bæjarhátíð í smábæ hér sunnan við Guelph. Þar verður mikið um að vera höfum við heyrt og ég vonast til að setja eitthvað hér á síðuna þegar við komum heim á morgun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.10.2007 | 17:47
Ljósagangur
Í gærkvöldi gerði hér heilmikið þrumuveður með miklum eldingum. Lætin voru slík að allt skalf og nötraði á meðan mestu hryðjurnar gengu yfir. Bogi og Anna voru hér í heimsókn og ég ákvað að keyra þau heim í stað þess að þau hjóluðu. Á leiðinni heim var þetta líka ljósashow í gangi allan tímann. Það rigndi svo mikið á stuttum tíma að það myndaðist tjörn hér á bakvið hús hjá okkur. Þar synda nú um endur og hafa það gott. Við vorum einmitt búin að vera að velta fyrir okkur svæðinu hér á bakvið hjá okkur en nú er það allt komið á hreint. Það er mótað eins og árfarvegur til að geta tekið á móti öllu vatninu sem getur komið niður í góðri gróðrarskúr eins og í gærkvöldi. Það var svo sem búið að spá þessu veðri enda gerir oft svona rigningar þegar dagshitinn hefur verið yfir 30 gráður og mikill raki getur þurft að þéttast og þá dettur hann auðvitað beint niður.
Við Óskar skruppum aðeins út á tröppur með myndavélar og hann tók þessa mynd af myrkrinu. Það þarf sérstaklega að taka eftir manninum sem birtist í enda myndbandsins hjá honum. Ég tók líka smá bút sem má kíkja á með því að smella hér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2007 | 22:20
Listowel
Við hjónin notuðum daginn í dag til að skreppa til Listowel. Það er bær sem er hér norðvestur af Guelph í um 50 mínútna fjarlægð eins og sagt er hérna. Meiningin var að fara að líta á bíl sem við fundum á netinu og vorum búin að hafa í sigti handa Hugrúnu í nokkra daga. Ég verða að segja það að ég var alveg að verða búinn að fá nóg af þessu bílastússi. Ég saknaði þess að hafa ekki Hjölla bílasala og veiðimann mér til aðstoðar í þessu máli. Hann hefur í gegnum tíðina verið minn aðalmaður í sambandi við bílakaup og sölu. Það hefur bara þurft að nefna það við Hjölla að nú væri maður að leita að svona bíl eða hinsegin og málið hefur alltaf reddast fljótlega þegar hann hefur átt hlut að máli. Hér þarf maður að þvælast á milli bílasala ef maður er ekki ákveðinn í hvað maður vill kaupa. Allir til í að selja bíla og maður hefur það á tilfinningunni að ekki séu alltaf allir þar sem þeir eru séðir í þeim málum.
Við semsagt fórum til Listowel til að prófa Ford Edge bíl sem við fundum á netinu. Prófuðum bílinn, leist vel á hann og keyptum hann bara í hvelli. Málið dautt. Þetta er fínasti bíll , 265 hestöfl, allur í leðri rafmagn út um allt, árgerð 2007, nánast nýr. Fáum hann afhentan í næstu viku því við ákváðum að láta bæta í hann ryðvörn, lakkvörn og fleira sem var í boði. Við þurfum að lá tryggja tækið og það getum við ekki gert fyrr en á þriðjudag því hér er Thanksgiving á mánudag og allt lokað. Við erum boðin í þakkargerð hjá Claudiu og fjölskyldu á morgun og það verður gaman að sjá hvernig slíkt fer fram.
Til gamans ætla ég að skella hér inn tveimur myndum af nýja bílnum hennar Hugrúnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Adam Ásgeir Óskarsson
Tenglar
Tengdar síður
Nokkrar síður sem vert er að skoða
- Myndasíða Myndasíða
- Ásgeir Andri Adamsson Hér bloggar Ásgeir
- Óskar Helgi Adamsson Hér bloggar Óskar
- Lilý Erla Adamsdóttir Hér blogagr Lilý
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar