Weatherford - Amarillo (Dagur 7)

Weatherford - AmarilloDagleiðin var um 200 mílur og var að  mestu leiti á gömlu Route 66. Þetta var mikill safnadagur og við komum við á tveimur söfnum. Annars vega var safn í bænum Clinton sem ku vera eitt af betri söfnum á allri þessari leið. Það var virkilega gaman að skoða gamla muni sem tengdust þessari sögu. Ótal munir smáir og stórir voru þarna til sýnis. Myndir og kort í tugatali og auðvelt hefði verið að eyða þarna mörgum klukkutímum. Það þarf að halda áætlun og því var haldið áfram og næsta stopp var í Elk City þar sem við stoppuðum í öðru safni þar sem búið var að safna saman gömlum húsum af öllum mögulegum gerðum. Það var engu líkara en að maður væri kominn í annan heim þarna á safninu.

Enn var haldið áfram og þá var komið að skrítnustu uppákomunni enn sem komið er í þessari ferð. Við vorum að fara í gegnum smábæinn Erick þegar tvær manneskjur klæddar í samfestinga úr ameríska fánanum komu hlaupandi í veg fyrir hópinn veifandi breska og írska fánanum. Þarna var komið parið Harley og Annabelle sem hafa komið sér fyrir í gömlu húsi þarna í bænum og eru búin að sanka að sér allskonar drasli og dóti sem maður sér venjulega á antikmörkuðum eða hjá skransölum. Annað eins hef ég aldrei séð. Þarna var borinn fyrir okkur matur og drykkur og allir hvattir til að éta og drekka sem mest þeir mátti. Þarna mátti líka reykja hvað sem er eins og Harley komst að orði. Það voru mikil læti í þeim hjúum og mikið fjör. Ég hef trú á að þau hafi ekki bara verið búin að fá sér einn laufléttan heldur líka komist í einhver önnur efni. Þegar þau vöru búin að atast í kring um okkur í góða stund hófst mikið gítarspil og söngur, allir voru látnir hafa tamborínur eða önnur hristuáhöld og tóku þátt í hasarnum. Við vorum þarna í hátt í tvo tíma í miklu fjöri.

Næsta stopp var á kafla leiðarinnar þar sem þrír samsíða vegir af Route 66 koma saman. Þessir vegarkaflar eru lokaðir og engin umferð. Þar er vaninn að menn prófi hvað hjólin komast áfram og leiki sér svolítið. Menn prófa gjarna að finna hvernig það er að hjálm án þess að nota hjálm og galla. Sumir fóru úr að ofan og tóku rúntinn þannig á meðan aðrir gáfu allt í botn og þöndu hjólin eins og þeir mögulega gátu. Þana var stoppað í smá stund áður en haldið var til Shamrock í Texas og síðan áfram til Mclean þar sem er að finna fyrstu bensínstöðina í fylkinu. Þegar búið var að skoða og mynda var síðasta stoppið á útsýnishæð þar sem er hægt að sjá yfir slétturnar í Texas. Ég verð eiginlega að draga til baka það sem ég var búinn að segja um flatlendi því annað eins og þetta hef ég ekki séð áður. Landið alveg marflatt í nánast allar áttir og greinilega stórar jarðir þeirra Texasbænda. Þá var bara efir einn leggur og það var leggurinn til Amarillo. Þann hluta var farið eftir hraðbrautinni og tekið þokkalega á því.

Hótelið sem við erum á í nótt er mjög skrautlegt, málað í skærum litum og herbergin eru innréttuð á mjög grófan hátt. Steinn og fura gera þetta svolítið eins og sumarbústað eða veiðikofa. Við hliðina á hótelinu er hinn merkilegi Big Texan veitingastaður og hann er ekkert smotterí eins og þeir sjá sem nenna að skoða myndirnar. Steikurnar eru af öllum stærum og gerðum en áskorunin á þessum stað err að fást við steik sem er 72 oz. eða rétt um 2 kíló. Einn úr hópnum var hvattur til að skella sér í þá stóru og málið er það að ef hann klárar matinn á klukkutíma þá fær hann hann frían en annars kostar skammturinn 75 dali. Sá sem leggur til atlögu við steikina miklu þarf að undirrita sérstakan samning um að hann hafi ekki verið neyddur til að takast þetta verk á hendur og sennilega líka á hvaða sjúkrahús hann vill fara ef illa fer. Þeir sem ráðast í þetta er settir upp á svið og þurfa að sitja og borða fyrir framan alla hina á staðnum Þrír reyndu við steikina í kvöld en engum tókst að klára hana. Ég sárvorkenndi þessum kallagreinum og veit ekki hvernig þeim líður í maganum núna en ég get vel ímyndað mér það. Ég hefði sjálfsagt lagt í þessa steik fyrir einhverjum árum en sennilega er ég eitthvað að vitkast og læt ekki hafa mig í þetta lengur. Ég er líka bara sæll og glaður með mína 20 oz. steik í maganum og er alveg til í aðra slíka áður en ég yfirgef Texas.

Ég tók þrjú video í dag og hér er hægt að spila þau : Video 1, Video 2 og Video 3 og svo eru myndirnar nátturulega komnar á netið.

 


Tulsa - Weatherford (Dagur 6)

Tulsa - WeatherfordÍ dag erum við meira og minna búin að vera að elta gömlu Route 66 leiðina eða það sem eftir er af henni. Lögðum að baki rétt um 200 mílur eða svo. Við erum enn í Oklahoma en á morgun verður stefnan tekin á Texas. Það hefur því verið lítið um hraðbrautaakstur heldur hefur leiðin legið úr eftir hægfarnari vegum. Tulsa, þar sem við byrjuðum í morgun er í hæðóttu, skógi vöxnu landslagi með talsverðum skógum og tún  inn á milli. Eftir því sem leið á daginn varð landið allt mun sléttara og nú er hópurinn kominn á miklar sléttur og gresjur. Hér eru tún eins langt og augað eygir og mikil grasrækt í gangi. Gróðurinn er talsvert á undan því sem við sáum í Illinois þar sem snjórinn er rétt farinn af ökrunum. Hér eru bændur byrjaðir að slá og ég get ekki betur séð en grasspretta sé með miklum ágætum. Kýrnar hérna eru líka feitar og pattaralegar og eiga örugglega eftir að fara vel í maga.

Leiðin lá frá Tulsa í gegnum smábæi og þorp sem var gaman að sjá allt er að verða frekar Western í útliti og byggingarstíll eins maður hefur bara séð í bíómyndum. Staðirnir á leiðinni voru Bristow, Stroud, Chandler, Arcadia, Edmond, Yukon, El Reno og nú erum við í Weatherford í Oklahoma.

Ég læt þetta duga að þessu sinni enda þarf ég að fara að gefa Pétri eitthvað að borða og koma honum svo í rúmið svo hann verði hress fyrir morgundaginn.

Myndirnar segja líka meira en mörg orð.


Rolla - Tulsa (Dagur 5)

Rolla - TulsaLeiðin í dag lá um þrjá Ameríska hreppi. Við byrjuðum í Missouri í morgun, rétt eftir hádegið fórum við aðeins inn í suðaustur hornið á Kansas þar sem við komum við í Baxter Springs og þaðan lá leiðin til Oklahoma þar sem við gistum í nótt.

Þessi dagur var frekar langur eins og gærdagurinn en við hjóluðum 316 mílur eða rétt rúma 500 kílómetra. Í Missouri lá leiðin um hæðótt landslag sem var verulega skemmtilegt að ferðast í gegnum. Sama er að segja um þann litla hluta sem við sáum af Kansas mikið af skóglendi og og gróður. Allt er í blóma og að springa út. Þegar við komum inn í Oklahoma fór landslag að verða minna hæðótt og meira um tún og venjulegt gras. Þar fórum við að sjá heilmiklar kúahjarðir út um alla haga og greinilegt að eitthvað af steikunum sem við erum að láta ofaní okkur kemur af þessum túnum. Greinilegt að bændur hérna þurfa ekki mikið að vera að hafa fyrir byggingum fyrir búfénaðinn því það var frekar lítið sem við sáum af fjósum og slíku.

Tekinn fastur eða hvað ?Í Baxter spring var stoppað í hádegismat um þrjúleitið. Þar á leiðsögumaðurinn vini eins og víðar á leiðinni. Þarna beið okkar þvílíkt hlaðborð af mat. Þarna voru miklar kræsingar á borðum og enn eina ferðina tróð maður sig svo út að maður stóð á blístri. Þegar við vorum búin að borða var stefnan tekin á brú sem er hluti af Historic Route 66. Með okkur í þessu var náungi sem er Road Captain of Route 66 í Kansas. Sá kall var greinilega fróður um margt sem tengist sögu leiðarinnar. Hann er fyrirmynd kranabílsins í Disneymyndinni Cars sem ég þarf greinilega að sjá við tækifæri. Hann hefur viðurnefnið Crasy Legs og er það vegna þess að hann getur snúið fætinum á sér í hálfhring eða svo um ökklann. Pétur var settur í að sparka í fótinn á kallinum þangað til hann snéri afturábak eða því sem næst. Fyrir þetta rétti hann síðan fram húfuna og allir áttu að setja pening í hattinn hjá honum fyrir að sýna þetta rosalega trix.

Komum á hótelið  og sturtan var verulega vel þegin í þetta skiptið. Vorum enn hálfsaddir eftir hádegismatinn og létum því léttan kvöldverð duga í þetta skiptið. Pétur var alveg búinn á því og var rétt við að sofna ofan í diskinn sinn en honum var bjargað á síðustu stundu og komið fyrir í rúminu. Ég er búinn að breiða ofan á hann og hann er farinn að anda þungum svefni og geysist örugglega um draumalandið á Harley Davidson Softail Heritage Classic og reynir að komast í 100 mílur á klst.

Myndirnar er vitanlega á netinu eins og alltaf.

 


Springfield - Rolla (Dagur 4)

Springfield - RollaÍ dag lá leiðin í gegnum sléttlendið í Illinois og inn í Missouri. Til að byrja með rigndi á okkur en það lagaðist þegar leið á daginn. Í Illinois er greinilega stundaður landbúnaður af miklum móð og mikið ræktað af alls konar gróðri. Endalausir akrar eins langt og augað eygði og einstaka bæir með heljarinnar geymslum undir korn, sojabaunir, hveiti og hvað annað sem menn eru að fást við að rækta. Franska parið sem er með okkur í ferðinni eru bændur þau eru nýlega búin að gifta sig og eru í brúðkaupsferðalagi. Þau sögðu okkur í hádeginu að þau hefðu hlakkað til að sjá þetta svæði. Vinurinn var algerlega heillaður af því sem hann sá og fræddi okkur á því að hann hefði aldrei séð aðra eins traktora og þá sem við mættum á leið okkar þarna í gegn. Þeir voru heldur engin smásmíði og við Pétur vorum sammála um að það þyrfti ekki marga slíka til að plægja öll tún í Skagafirðinum og jafnvel í Eyjafirðinum líka eftir hádegið.

Rétt eftir hádegið fórum við yfir Mississippi ánna rétt utan við St. Louis og stoppuðum þar til að skoða gamla brú sem nú er aflögð en stendur eftir sem eitt af minnismerkjunum um Route 66. Mississippi áin er ekkert smáfljót og hefur greinilega verið mikill farartálmi á leiðinni vestur á bóginn á sínum tíma.

Áfram var haldið í suðvesturátt og stoppað á nokkrum stöðum á leiðinni. Einn þeirra staða var safn með alls konar minjum um Route 66 og það eru nokkrar myndir frá því safni á myndasíðu dagsins. Safnið stendur við fallega á og ég stóð þar á brúnni og var að mynda og spekúlera í því hvort ekki væri fiskur í ánni þegar kemur flottur kappi á þessu líka fína Harley hjóli með tvær veiðistangir fyrir aftan sig. Hann var greinilega að koma úr veiðitúr. Ég náði því miður ekki að mynda kappann en vona bara að hann hafi fengið eitthvað.

Jessy og félagarSíðasta stoppið í dag var svo á safni um Jessy James en það er byggt í kringum hella sem hann á að hafa falið sig í þegar hann var á flótta undan lögum og rétti. Þetta var flottur staður og gaman að koma þar. Allt skógi vaxið og hlutirnir í miklum blóma.

Gistum í nótt á Best Western hóteli í suðurhluta Rolla og erum búnir að fara og fá okkur hressilega í svanginn á góðu steikhúsi hér rétt við hliðina. Eftir matinn missti ég Pétur í verslunarferð og hann er rétt kominn í hús með fulla poka af dóti úr WalMart. Ég sé fram á að þurfa að taka af honum kreditkortið ef svona heldur áfram :-)

Myndirnar að sjálfsögðu á sínum stað.

 


Chicago - Springfield (Dagur 3)

Flottir á bensínstöðDagurinn var tekinn snemma og það var mætt í morgunmat á slaginu 7. Farangrinum var hlaðið í vaninn sem fylgir okkur og hópurinn var fluttur á bækistöðvar Eagleriders þar sem við fengum hjólin afhent. Sumir áttu eftir að versla eitthvað smálegt fyrir ferðina og það gafst tækifæri til þess á meðan verið var að afhenda okkur hjólin. Það hellirigndi í morgun og þegar við loksins komumst af stað gekk á með þrumum og eldingum svo allir urðu að dubba sig upp í regngalla og tilheyrandi búnað. Ekið var sem leið lá út úr Chicago og stefnan tekin á smábæ sem heitir Joliet og er í útjaðri stórborgarinnar. Síðan lá leiðin suður á bóginn og stoppað var á nokkrum stöðum á leiðinni. Það var stoppað og borðað um klukkan tvö og þá var hægt að fara úr regngallanum því veðrið var að verða þokkalegt. Hitinn var rúmlega 20 gráður og mjög flott ferðaveður. Það var reyndar hvasst í mestallan dag en við losnuðum við rigninguna.

Hópurinn sem við erum með er flottur. Þarna eru allr þjóða kvikindi, Íslendingar, Finnar, Bretar, Skotar, Írar, Frakkar og Ástralir. Fólk er búið að nota daginn í dag til að kynnast og ég get ekki séð annað en þessi hópur sé að hristast mjög vel saman. Allir eru í góðu skapi og allt hefur gengið eins vel og hægt er að hugsa sér. Hópurinn hefur haldist í einu lagi í allan dag og keðjan aldrei slitnað.

Vegalengdin sem var farin í dag er rétt um 200 mílur og við gistum á Holiday Inn hóteli í Springfield þannig að við erum búin að vera að hjóla í Illinois í dag. Enduðum daginn á að fá okkur hressilega steik á Áströlskum stað rétt hjá hótelinu.

Myndir frá í dag eru á sínum stað.


Chicago (Dagur 2)

Slagsmál við ostVið félagar vorum frekar snemma í því í morgun og vorum komnir á fætur fyrir klukkan 6. Pétur var enn á íslenskum tíma og þegar síminn hjá mér hringdi eldsnemma þá vorum við báðir glaðvaknaðir. Í símanum var einhver útlenskur náungi sem endilega vildi selja mér vírusvarnir. ´Mér fannst það ekki sérlega gleðilegt að vera vakinn með svona svo ég bað manninn vel að lifa og tala við mig aftur í haust.

Eftir góðan morgunverð var haldið af stað til að versla á Pétur það sem hann vantaði fyrir ferðina. Vinurinn gerði mikla verslun og verður flottur í nýja leðursettinu þegar lagt verður af stað í fyrramálið, allt merkt Harley í bak og fyrir. Við enduðum á að fara í verslun þeirra Harley Davidson manna í norðurhluta Chicago. Til að komast þangað tókum við leigubíla og ég hef aldrei verið með meira þreyttum náunga en þeim sem keyrði okkur aftur heim á hótelið. Mannræfillinn var algerlega að sofna á leiðinni. Við félagar vorum að reyna að halda uppi samræðum við hann á leiðinni. Hann skildi okkur ekki meira en svo og ver greinilega ekki með á því af hverju við vildum vita allt um snjóalög í Chicago í vetur og fleira í þeim dúr. Á endanum komumst við heilir heim á hótel og vorum fegnir að sleppa úr þeirri ferð.

Pizzur þeirra hér í Chicagóborg er víðfrægar og gríðargóðar. Okkur fannst ekki hægt að vera hér án þess að fá okkur eina slíka og það var engu logið, pizzan var ein sú besta sem ég hef fengið. Myndasíðan segir meira en mörg orð um það.

Eftir að vera búnir að fá okkur hressilega í svanginn var aftur haldið af stað og nú að finna skó og tösku undir allt dótið sem Pétur fjárfesti í. Við héldum niður í bæ og Pétur var farinn að minna meira á túrista í verslunarferð en mann á leið í hjóltúr á Route 66. Að lokum þegar búið var að finna það sem vantaði og við komum heim á hótelið fundum við þessa líka fínu verslun á annarri hæð í hótelinu okkar þar sem hefði verið hægt að finna allt það dót sem við vorum búnir að vera að þvælast eftir út um alla Chicago. Við höfðum gaman af þessu og þetta minnti á að oft er leitað langt yfir skammt.

Dagurinn endaði síðan á fundi með fararstjórum og tilvonandi ferðafélögum þar sem farið var yfir helstu hluti sem þarf að hafa í huga þegar farið er í ferð eins og þessa. Gædinn (Gary) sem fer með okkur er að fara sína 29. ferð eftir Route 66 og er greinilegt að hann hefur mikla reynslu af því að fara ferðir eins og þessa. Vinurinn búinn að koma víða við og hefur mikla reynslu af alls konar ferðamennsku auk þess að vera lærður ljósmyndari og eitthvað fleira.

Það verður lagt af stað snemma í fyrramálið og stefnt á að hjóla til Springfíeld.

Myndir frá í dag eru komnar á myndasíðuna.


Guelph - Chicago (Dagur 1)

Chicago út um hótelgluggannVið David áttum góða ferð til Buffao eins og við var að búast. Á landamærunum völdum við að sjálfsögðu styttustu biðröðina og eins og lög gera ráð fyrir gekk sú röð að sjálfsögðu hægast Ekki nóg með það, þegar einn bíll var eftir á undan okkur kemur þar að landamæravörður með stærðarinnar Shéffír hund sem fór að sýna bílnum á undan ótrúlegan áhuga. Gaurinn í bílnum var rifinn út og hundurinn fór um allan bílinn þefandi og slefandi. Það skipti engum togum að bílnum var komið fyrir á sérstöku stæði þar sem hann var sennilega rifinn í tætlur. Vinurinn var leiddur eitthvað afsíðis og er sennilega enn á landamærunum. Við þurftum að fara inn og ég mátti fylla út nauðsynlega pappíra og svara sömu spurningum og þegar við fórum yfir landamærin um jólin. Núna var ég ekki með nein vínber eða slíkt á mér enda að verða sjóaður í að fara þarna yfir.

Restin af deginum fór í að bíða á flugvellinum í Buffalo, fljúga til Chicago og koma sér á  hótelið. Ferðin af flugvellinum niður í bæ tók þrisvar sinnum lengri tíma en hún átti að taka enda háannatími í umferðinni þegar  kom. Nú er ég búinn að skola af mér ferðarykið, fá mér hressilega í svanginn og fara út i gönguferð hér um nágrennið.

Hótelið er staðsett "alveg í miðbænum" eins og maðurinn sagði. Þeir sem ekki skilja þetta verða bara að muna eftir að spyrja mig út í málið.

Háhýsin hér í kring eru engin smásmíði og maður verður skelfing lítill innan um þessar byggingar. Nú sit ég hér í mestu rólegheitum og bíð eftir að Pétur fari að birtast. Hann á að vera lentur og fer vonandi að skila sér.

Myndir eru komnar inn á myndasíðuna og þar mun ég reyna að setja inn myndir á kvöldin ef ég hef tök á tengingu við netið þar sem við gistum á leiðinni. 


Brestur á með ferðalagi

Nú er réttur hálftími í að ég leggi af stað í Route 66 ferðina. Það er með ólíkindum hvað tíminn líður hratt, eins og það hafi verið í gær sem við félagar vorum a leggja drög að því að fara þessa ferð og nú er bara komið að því. Dagskráin í dag er á þá leið að Hugrún skutlar mŕ til Burlington en þar hittum við David sem ætlar að koma mér yfir landamærin til Buffalo en þaðan flýg ég síðan seinnipartinn í dag til Chicago. Pétur er að leggja af stað frá Keflavík rétt bráðum og hann verður ekki kominn til Chicago fyrr en seint í kvöld. Kallinn lenti í ófærð í gær á leiðinni til Reykjavíkur og rétt marði það að komast suður.

Við ætlum  okkur að nota morgundaginn til að stillasaman strengina og stefnan verður tekin á góða Harley búð í fyrramálið og þar verður gengið frá síðustu lausu endunum og útvegað það sem á vantar af fatnaði og öðru sem þarf í svona ferð. Seinnipartinn á morgun hittum við síðan restina af ferðafélögunum og hjóltúrinn sjálfur hefst síðan í býtið á föstudag.

Ég mun reyna að setja inn myndir á myndasíðuna og einhverja ferðalýsingu hér á síðuna eins og ég hef tök á á leiðinni.


Vika í ferðalag

Núna er nákvæmlega vika þar til ég legg af stað til Chicago og Route 66 ferðalagið byrjar. Því þarf maður náttúrulega að stunda æfingar af kappi og hjóla eins og kostur er. Eftir vinnu í gær fór ég þessa fínu ferð um sveitirnar hér norður af Guelph. Ferðin lá um Fergus, Elora, Elmira Waterloo og Kitchener. Á morgun er síðan stefnan að heimsækja Wilhelm, að sjálfsögðu hjólandi og næ ég þá að hala unn talsvert á þriðja hundrað kílómetra. Veðrið heldur áfram að vera gott en þó lækkar hitinn sennilega í 17 stig á laugardaginn.

Enn ein helgin að baki

Þeim fer verulega fækkandi helgunum sem við eigum eftir að vera hérna. Þess vegna reynum við að nýta þær eins vel og okkur er unnt. Við Óskar fórum til Oakville og Missisauga seinnipartinn á föstudag. Ferðinni var heitið í aðalstöðvar PING í Kanada en þar eru þeir með aðstöðu til að mæla, skoða og greina golfsveiflur manna. Til þess að gera þetta er notaður tölvu og myndgreiningarbúnaður af nýjustu og bestu gerð. Það er gaman að fylgjast með því hvernig farið er að þessu og þeir sem fást við þessa hluti vita greinilega hvað þeir eru að gera. Tilgangurinn með þessu öllu saman er síðan að útbúa golfkylfur sem passa þeim einstaklingi sem verið er að mæla í það skiptið. Í framhaldi af þessum mælingum öllum er síðan verið að smíða síðustu kylfurnar í golfsettið sem Óskar er búinn að vera að koma sér upp í vetur. Hann segir að þetta verði "svaðalegt" sett. Þegar mælingum lauk héldum við feðgar síðan í hljóðfæraverslun í Mississauga þar sem drengurinn festi kaup á hljóðfæri sem hann er búinn að hafa augastað á í vetur og ekki að verða seinna vænna að nálgast það enda mánuður í að hann fer heim. Við héldum áfram ferð okkar um Mississauga og ég með hann á fornar slóðir. Við kíktum á staðina þar sem ég bjó á meðan ég var hér í skóla og enduðum á því að fara á mjög merkilega hamborgarabúllu sem hefur ekkert breyst síðan ég var hér á árum áður. Þarna er enn nákvæmlega sami matseðillinn og var fyrir löngu síðan og verð eru ekki langt frá því sem þau voru í dentíð. Að sjálfsögðu fengum við okkur svera borgara og franskar til að toppa daginn.

Við Guelph LakeÁ laugardag skrapp ég í góðan hjóltúr í um nágrennið og endaði í smábæ austan við Guelph sem heitir Erin. Óskar fór í golf og Ásgeir að hitta félagana. Við Hugrún fórum síðan til Burlington og hittum vini okkar og fórum út að borða með þeim. Flottur veitingastaður varð fyrir valinu að þessu sinni. Hann er í gamalli myllu sem búið er að gera upp á mjög smekklegan hátt. Lækur rennur þar nánast í gegnum veitingastaðinn og umhverfið allt er frábært. Verst að ég gleymdi myndavélinni og get því ekki sett mynd af steikinni inn á vefinn að þessu sinni.

Í High ParkSunnudagurinn var byrjaður snemma að vanda út af handboltanum. Í þetta skipti var Adamsfjölskyldan öll á ferðinni því við vorum búin að mæla okkur mót við gamla vinkonu, Kristínu Gísladóttir sem býr og starfar í Torontó. Henni kynntist ég þegar ég var hér fyrir löngu síðan. Það var frábært að hitta Kristínu aftur eftir öll þessi ár og við eyddum mestum hluta dagsins hjá henni. Gáfum okkur þó tíma til að ganga aðeins um High Park í Toronto en Kristín býr í næsta nágrenni við þennan flotta garð. Þar er allt um það bil að byrja að springa út þessa dagana og það verður gaman að ganga þar um eftir nokkra daga og sjá breytingar sem verða. Við enduðum síðna ferð okkar í stórborgina á því að kíkja inn hjá Haraldi Bessasyni og Margréti Björgvinsdóttur.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Adam Ásgeir Óskarsson

Höfundur

Adam Ásgeir Óskarsson
Adam Ásgeir Óskarsson
Kerfistjóri í orlofi.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Draugaskip ?
  • Flottur di
  • Sæll og glaður
  • Útsýni frá gististaðnum í Jeddore
  • Charlo - Jeddore

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband