21.4.2008 | 16:10
Badminton
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2008 | 00:02
Grillvertíð og fluguráðstefna
Þegar vorar og snjórinn er farinn byrjar grillvertíðin. Við erum fram að þessu búin að notast við eldgamalt grill sem fylgdi með húsinu. Það var að detta í sundur af riði og elli og var algerlega að verða vonlaust að grilla nema í einu horninu á því og maður var heppinn ef kviknaði ekki reglulega í öllu saman. Þetta gekk ekki svo við erum búin að vera að horfa í kringum okkur eftir grilli til að hafa á svölunum hjá okkur og taka síðan með okkur heim og skella þar á pallinn þegar þar að kemur. Í gær var síðan fari í leiðangur og fjárfest í þessu líka tækinu. Það eru brennarar og hitarar í allar áttir og það verður ekki mikið mál að slá upp góðri grillveislu þegar gestir fara að birtast hjá okkur á næstunni.
Við feðgar erum búnir að vera mjög hamingjusamir síðan grillið kom á svalirnar og það hefur verið grillað í öll mál síðan í gær. Eins og sjá má á myndinni hér til hliðar þar sem Óskar gerir sig kláran í steikina þá er hann mjög ánægður með það sem fyrir hann er borið í þetta skiptið.
Það er brjálað að gera hjá Ásgeiri í félagslífinu þessa dagana. Sem ég sit og skrifa þetta er mamma hans að keyra hann í enn eina afmælisveisluna. Í gærkvöldi var æfing fyrir útskriftarballið í skólanum hjá þeim bræðrum. Ásgeir er ekki í útskriftarbekknum en var búinn að fá dömu til þess að bjóða sér að fara með. Minn dubbaði sig upp í jakkaföt með bindi og hvaðeina og ver virkilega flottur. Ég get ekki stillt mig um að setja mynd af honum hér líka þar sem hann er að gíra sig upp fyrir ballið. Það er heldur ekkert slegið af í badmintoninu þessa dagana og nú er í gangi keppni á milli skólanna hér í bænum og stendur til að velja þátttakendur til að fara í keppni sem haldin er í hans aldurflokki í Ontarío fylki. Ásgeir er farinn að gera sér talsverðar vonir um að vera valinn í það lið því hann er ósigraður ennþá í skólakeppninni.
Í morgun var Wilhelm mættur hér klukkan átta og sótti mig til að fara á fluguveiðisýningu og ráðstefnu um fluguveiðar. Sýningin var haldin á vegum Izaak Walton Flyfishing Club en Wilhelm var þar meðlimur til margra ára og tók þátt í sýningum klúbbsins sem hnýtari í mörg ár. Þetta var mjög skemmtileg og fræðandi sýning þar sem voru samankomnir miklir snillingar á sviði fluguveiða og hnýtinga. Þarna hitti ég Carl O`connor sem kom með Wilhelm til Íslands fyrir nokkrum árum ásamt John Berger. Við Árni Jóhanns, Magga Kristins og Gunnar fórum þá með þeim að veiða í Fjörðum og í Fnjóská í nokkra daga. Carl for umsvifalaust að skipuleggja veiðitúra hér í kring og við eigum vonandi eftir að fara og hitta þá félaga og fara að veiða með þeim á góðum stöðum hér í kring. Það var frábært að vera með þessum félögum á sýningunni því þeir þekktu greinilega allt og alla og það voru sagðar margar skemmtilegar sögur af veiðum. Þarna voru miklir snillingar að hnýta flugur og það var gríðarlega skemmtilegt að fylgjast með þeim. Að sjálfsögðu kom maður hlaðinn heim af allskonar dóti sem maður hafði ekki hugmynd um að mann vanahagaði um áður en haldi var af stað í morgun. Nokkrar myndir eru komnar á myndasíðuna.
Á morgun stendur síðan til að fara til Torontó eins og venjulega á sunnudagsmorgnum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.4.2008 | 18:22
Heimsókn til Wilhelms
Ég hélt upp á það í gær að það var 8. apríl. Í tilefni dagsins mælti ég mér mót við Wilhelm og meiningin var að hittast og hnýta nokkrar vel valdar flugur. Ég var búinn að reyna að ná á vininum í tvo daga en það var alltaf á tali hjá honum. Það kom svo í ljós að símtólið hafði ekki verið lagt á síðast þegar hann notaði símann og því gat enginn náð í hann símleiðis í nokkra daga. Ég lagði af stað hjólandi snemma í gærmorgun, vel dúðaður í leður og tilheyrandi galla. Það var ekki farið að hlýna eftir nóttina og ég gerði mér ekki grein fyrir því að það var frekar svalt í veðri. Þurfti því að taka mér þýðingarpásur á leiðinni og hella í mig kaffi með reglulegu millibili. Komst á leiðarenda og þar var mér tekið fagnandi eins og alltaf þegar ég fer í heimsókn í sveitina til Wilhelms og Önnu.
Við settumst niður og hnýttum nokkrar nýjar gerðir af flugum sem verður gaman að prófa í Íslenskum ám þegar heim kemur. Gaman að vita hvort bleikjunni líst ekki vel á að fá þær á matseðilinn. Í hádeginu eldaði Wilhelm síðan fyrir okkur þessa líka dádýrssteik að ég fæ vatn í muninn við að hugsa til hennar. Hann veiðir sjálfur dádýr og í öll skiptin sem ég hef komið til þeirra er villibráð á boðstólum. Við gengum um skóginn í kringum húsið þeirra og hann hafði unun af að sýna mér hvar dýraslóðir og merki um dýralíf var að finna. Að sjálfsögðu var litið við í tjörninni hjá honum og flugurnar bleyttar í smá stund. Silungurinn var ekki í tökustuði en verður bara þeim mun gráðugri næst.
Þegar ég hjólaði til baka seinnipart dags var orðið mun hlýrra í veðri og ekki þörf á að slóra í kaffi á leiðinni enda beið Hugrún með allt klárt á grillið þegar ég kom heim svo það borgaði sig að vera á tíma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2008 | 16:31
Maple festival og fleira
Snjórinn er bráðnaður og ekki lengur að sjá mikil merki þess að hér hafi allt verið fullt af snjó fyrir rúmri viku síðan. Ég man ekki til þess að hafa séð snjó hverfa svona eins og hér er að gerast. Veðrið er búið að vera frábært síðustu daga og hitinn hefur verið upp í 17 gráður seinnipart dags.
Helgin var notuð meðal annars til þess að fara í smábæinn Elmira hér norður af Guelph og taka þátt í Maple Festivali sem þar var í gangi. Á þessum árstíma fara bændur út í Maple skógana og tappa safa af trjánum. Þetta er gert með því að hengja fötur á trén og reka rör inn í tréð. Safinn sem trén eru farin að framleiða rennur þá úr trénu í fötuna. Þegar safnað hefur verið í nokkrar fötur úr hverju tré er þessi safi tekinn og soðinn í stórum pönnum yfir opnum viðareldi. Við suðuna þykkist vökvinn smám saman og tekur á sig dekkri lit. Safinn er soðinn heilmikið niður og útkoman úr suðunni er síðan þetta líka fína sýróp sem er óviðjafnanlegt út í hafragrautinn á morgnanna eða með pönnukökunum á sunnudagsmorgnum. Ýmislegt annað er líka hægt að gera við þennan gæðamjöð. Við fórum heim með fimm lítra af þessu líka fína Maple Sýrópi. Þetta keyptum við beint af bændum sem voru að selja vöru sína á markaði sem settur var upp í bænum í tilefni dagsins. Nokkrar myndir er að finna á slóðinni á myndasíðunni. Fórum síðan og borðuðum hjá menonitunum í St. Jakobs á eftir og það klikkaði ekki frekar en fyrri daginn.
Sunnudagurinn fór í venjuleg a ferð til Torontó með Óskar sem æfir nú af kappi fyrir Kanadamótið í handbolta sem verður haldið í maí. Ég notaði tímann á meðan hann var á æfingunni og heimsótti félaga mína frá því á háskólaárunum hér í Toronto. Ég hafði ekki hitt þau síðan og það var verulega gaman að sitja með þeim yfir kaffibolla og rifja upp gamla minningar. Við eigum eftir að hitta þau aftur áður en við förum heim.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.4.2008 | 18:54
Vorið er komið
Það er greinilegt að vorið er komið, ekki bara á dagatalinu. Eftir mikinn sjóavetur var marga farið að lengja verulega eftir því að sjá eitthvað annað en snjó. Í þessari viku varð viðsnúningur á veðrinu og í stað blárra tölustafa með mínus fyrir framan eru farnar að sjást tveggja stafa rauðar tölur á kortunum hjá veðurfræðingum. Ég verð að segja það alveg eins og er að flestir hér voru farnir að bíða eftir því að þetta gerðist. Met var slegið í vetur hvað varðar snjómagn og ekki hefur mælst jafn mikill snjór hér síðan 1938. Þetta er met sem mér hefði verið nokkuð sama þó ég hefði misst af en maður reyndi þó að bera sig nokkuð mannalega í vetur, sagðist bara vera hundvanur svona snjó og hefði oft séð meira en þetta. Núna er þessi snjór allur saman að bráðna og það gerist nokkuð hratt. Að sjálfsögðu veldur það því að víða flæða ár yfir bakka sína og kjallarar húsa fyllast af vatni. Nóg er því að gera á sumstaðar við að halda þurru. Grasið kemur undan snjónum og byrjar strax að grænka og það er gaman að sjá hvað allt tekur við sér um leið. Maður er farinn að sjá fólk úti á götu sem ekki er að flýta sér og allt annað yfirbragð er yfir hlutunum
Síðustu dagar hafa verið dagar skipulagningar hjá mér og dagar mikils spennings. Ég hef eins og margir vita gaman af því að leika mér á mótorhjóli. Eitt af því sem alla sem hafa gaman af því hefur mig dreymt um að hjóla Route 66. Nú er þessi draumur að verða að veruleika. Hugrún mín tók af skarið með það og sagðist vilja gefa mér þessa ferð í afmælisgjöf. Það varð úr að ég er að fara í skipulagða ferð eftir þessari sögufrægu leið frá Chicago til Los Angeles. Ferðin hefst 1. maí í Chicago og henni líkur 15. mái í Los Angeles. Komið er við á mörgum sögufrægum stöðum á leiðinni og ég er búinn að reikna það út að sennilega verð ég í Grand Canyon á afmælisdaginn. Ekki slæmur staður að vera á. Pétur vinur minn frá Sauðárkróki ætlar að koma með mér í ferðina og við félagarnir erum farnir að hlakka svo mikið til að það hálfa væri nóg. Til gamans er hér vefslóð þar sem sagt er í grófum dráttum frá ferðinni og kort yfir þá leið sem farin verður.
Slóðin er : http://www.eaglerider.com/Guided-Tour.aspx?ComponentID=119
Það fer ekki hjá því að hugur okkar allra sé farinn að leita heim á leið þegar dvöl okkar fer að styttast svona í þennan endann. Núna þarf að fara að huga að flutningum og að ganga frá endum hér í Kanada áður en við förum. Allt í einu finnst okkur eins og tíminn okkar hér sé að verða búinn og við verðum komin heim innan skamms. Við erum búin að ákveða heimferðartíma strákanna og kaupa fyrir þá miða heim. Óskar fer 21. mái með Pétri og Ásgeir fer 25. júní með Ella og Agnesi. Við gömlu ætlum okkur að ferðast svolítið um hér áður en við komum heim og reiknum með að við endum það ferðalag í Halifax um miðjan júlí og fljúgum þaðan heim.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2008 | 01:50
1643 km.
Við fórum á fætur fyrir allar aldir í gærmorgun til að nota dagsbirtuna sem best. Vorum komin út í bíl klukkan sex og lögð af stað í norðurátt. Til að gera langa sögu stutta þá tókst okkur að komast alla leið á einum degi og lögðum að baki 1643 kílómetra á 19 tímum sléttum. Fengum frábært ferðaveður alla leiðina og sneiddum núna hjá stórborgum og umferðarteppum. Komum hér í hús klukkan eitt í nótt og ég held að ég geti með sanni sagt að allir voru frekar fegnir að komast í rúmið í gærkvöldi. Þegar við nálguðumst Guelph fór að verða meiri og meiri snjór á jörðu. Ég var farinn að hafa áhyggjur af því að þurfa að byrja á að moka bílastæðið til að koma bílnum í hús. Einhver hefur séð um þetta fyrir okkur áður en við komum þannig að við komum að hreinu stæðinu og gátum ekið beint inn. Hef ekki enn hugmynd um hver hefur gert þetta en reikna frekar með að fasteignasalinn sem er að reyna að selja húsið hafi fengið einhvern í málið. Það er greinilegt að það hefur snjóað heilan helling hér á meðan við vorum í burtu. Ágætt að sleppa við það.
Það var sofið út hér á heimilinu í morgun og andrúmsloftið hefur verið frekar á rólegu nótunum. David og Claudia komu í heimsókn seinnipartinn og sögðu okkur af ferð sinni til Texas í fríinu. Nú tekur við alvaran aftur í bili og verður gaman að komast aftur í vinnuna ag sjá hvernig verkefninu hefur miðað áfram á meðan við vorum í burtu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2008 | 19:43
Kanada á morgun
Allt tekur enda og nú erum við á síðasta degi hér í sólinni á Myrtle Beach og haldið verður af stað til kaldari svæða í fyrramálið. Klukkan verður stillt á fimm og stefnum við á að vera lögð af stað í norðurátt ekki seinna en klukkan sex. Við ætlum okkur að aka alla leið á morgun og reiknum með að vera í kringum sextán tíma á akstri. Hvort þetta tekst verður bara að koma í ljós. Það stefnir í gott veður mestan hluta leiðarinnar en við getum reiknað með að aka í snjókomu síðasta spölinn í gegnum New York fylki og í Ontarío. Við forum sennilega mjög svipaða leið og við komum hingað niðureftir með því að halda okkur á þeirri leið ættum við að sleppa vel.
Þetta er búið að vera flott páskafrí hjá okkur, næg sól og gott veður. Það var frábært að losna aðeins úr snjónum. Nú stefnir á að veturinn fari að gefa sig fyrir vorinu og við erum farin að hlakka mikið til að njóta vorkomunnar í Guelph.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.3.2008 | 00:51
Georgetown, SC
Í dag var ákveðið að vera aðeins á sögulegum nótum. Við fórum af stað tiltölulega snemma og ferðinni var heitið til Georgetown sem er hér skammt sunnan við Myrtle Beach. Þar fórum við í skoðunarferð um bæinn og fræddumst um sögu staðarins og hvernig hann byggðist upp. Leiðsögumaðurinn sem fór með okkur um bæinn var greinilega mjög fróður og það var ekki komið að tómum kofanum hjá honum. Hann sýndi okkur fullt af merkilegum húsum í bænum, talaði um sögu þeirra, íbúa, þrælahald, drauga sem tengdust þeim og sitt af hverju. Þarna voru hengingartré sem í dag eru friðaðar vegna sögu sinnar. Við fórum í gamla kirkju en hér er allt fullt af kirkjum og ýmis konar guðshúsum. Í hádeginu snæddum við síðan á gömlum veitingastað við höfnina og fengum okkur krabba og ýmislegt sem var mjög gott.
Við vorum komin til baka seinnipartinn og þá var haldið af stað í skókaupaleiðangur og dagurinn endaði síðan á mexíkóskum veitingastað þar sem allir átu á sig gat. Veit ekki hvernig kvöldið verður því það voru baunir með flestum réttanna :-)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.3.2008 | 16:44
Gengur á með afmælum
Það má segja aðþetta sé einskonar afmælisferð hjá okkur. Ásgeir átti afmæli á föstudaginn var og í dag er svo komið að Hugrúnu sem er eitthvað liðlega fertug í dag. Daginn stendur til að nota til þess að fara áströndina og njóta sólarinnar í botn. Hún skín á okkur í dag af miklum móð. Á laugardag var annað uppi á teningnum en þá gengu yfir þrumuveður, þau mestu sem við höfum upplifað. Hvirfilbyljir smelltu sér niður og gerðu mikinn usla bæði norðan og sunnan við okkur. Flestar sjónvarpsstöðvar sendu út stanslausar veðurfréttir og fylgdust með gangi mála og ferð stormsins á haf út. Þetta er býsna tilkomumikið og ekki síst fyrir okkur sem erum ekki vön þessum látum. Einn bylurinn stakk sér niður í miðborg Atlanta og tjón af hans völdum var talsvert.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.3.2008 | 00:29
Hann Ásgeir á afmæli í dag
Litli drengurinn minn er 17 ára í dag. Ég veit hann yrði ekki ánægður með byrjun þessarar bloggfærslu en hann er samt litli drengurinn minn ennþá. Ég veit ekkert um hvenær hann verður stór. Nú væri hann að hamast við að læra á bíl og taka bílpróf ef við værum heima. Það verður allt að bíða þar til við komum heim og sennilega líður fram á haust áður en minn maður fær réttindi til að keyra bíl. Þetta hefði mér þótt súrt í broti á sínum tíma en ég dáist að mínum manni fyrir hvað hann er rólegur yfir þessu öllu saman. Hann er farinn að telja dagana þar til hann fer heim og tilkynnti áðan að það væru 103 dagar þar til hann yrði kominn á meðal vinanna heima á Akureyri. Þeir bræður eiga mikinn heiður skilið fyrir að nenna að vera með foreldrunum á þessu flakki í vetur og við lítum á okkur sem heimsins heppnustu foreldra að eiga þessa drengi. Ég er hræddur um að okkur hefði leiðst að vera tvö að gera það sem við erum búin að vera að fást við í vetur.
Dagurinn byrjaði klukkan sex í morgun hjá mér en þá fór ég á fætur til að fara á sjóinn að veiða en ég var búinn að panta mér far með bát þar sem farið var að veiða með sjóstöng. Ég lagði það að sjálfsögðu á mig að rífa mig upp löngu áður en það fór að birta og keyrði í klukkutíma til Norður-Karólínu til að fara að veiða. Það var frekar svalt í morgun þegar ég lagði af stað svo ég sleppti því að borða grautinn úti á svölum en það hefur verið gert á hverjum morgni fram að þessu. Lagt var af stað og siglt til hafs í tæpan klukkutíma áður en farið var að veiða. Það var heilmikill afli og eingöngu Bigmouth Bass fiskur sem minnti mig á einhverskonar karfa nema hann var ekki rauður á litinn. Þetta voru frekar litlir fiskar og ekki mikið fyrir því haft að draga þá innbyrðis þegar þeir tóku. Ég átti lengi vel stærsta fiskinn en þegar farið var að mæla kom í ljós að hann var tveimur únsum minni en sá sem mældist stærstur. Ég gaf það sem ég hirti og kallarnir sem fengu fiskinn voru ferlega glaðir með þetta og sögðu mér að þetta væri mesta hnossgæti.
Um kvöldið var farið út að borða og nú átti Ásgeir að velja stað í tilefni dagsins. Ég átti von á að hann veldi MacDonalds eða eitthvað í þá áttina en drengurinn sýndi að hann er að mynda sér dannaðri smekk en það og valdi að fara á Longhorn, stað þar sem eru á boðstólum mjög sverar steikur og allt í stíl. Við fengum okkur rækjur og kjúklingarúllur í forrétt, í millirétt var síðan ferskt salat. Þar á eftir komu steikur, rif, humar og lax eftir smekk hvers og eins og á eftir voru desertar sem var orðið verulegt vandamál að koma niður. Ég verð ennþá hissa þegar ég sé reikningana eftir svona máltíðir. 128 dalir var það sem við máttum borga fyrir þessar veitingar. Ég ætla mér ekki að reyna að gera mér í hugarlund hvað þetta myndi kosta heima.
Nú erum við komin heim í bústaðinn og ætlum að vera hér í kvöld. Það er spáð þrumum og eldingum hér síðar í kvöld og í nótt og mér finnst ég vera farinn að heyra í veðrinu í fjarska. Vona bara að húsið leki ekki mikið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um bloggið
Adam Ásgeir Óskarsson
Tenglar
Tengdar síður
Nokkrar síður sem vert er að skoða
- Myndasíða Myndasíða
- Ásgeir Andri Adamsson Hér bloggar Ásgeir
- Óskar Helgi Adamsson Hér bloggar Óskar
- Lilý Erla Adamsdóttir Hér blogagr Lilý
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar