Færsluflokkur: Bloggar

Jóladagur

Í gær komu David og Claudia til okkar og voru með okkur fram á kvöldið. Við áttum frábært aðfangadagskvöld og það vantaði ekkert nema heimsókn á Byggðaveg eftir matinn. Við snæddum hamborgarhrygginn góða og það varð enginn svikinn af honum. Ég þarf að gera mér ferð til slátrarans til að láta hann vita að allt hafi heppnast eins og til stóð. Gestum okkar þótti gaman að upplifa jóla að okkar hætti og höfðu mörg orð um hve þeim hefði þótt gaman að vera með okkur. Það var líka frábært að þau gátu verið hér. Það var farið seint að sofa á jólanótt.

Við erum búin að hafa það ótrúlega gott í dag. Dagurinn hefur liðið í miklum rólegheitum. Símtöl heim við vini og ættingja. Ítölsk jólakaka í morgunverð (í hádeginu) og svo eins og lög gera ráð fyrir jólahangikjötið frá Húsavík í kvöldmatinn sem klikkaði ekki frekar en fyrri daginn.

Þetta er síðasti heili dagurinn sem Lilý er með okkur að sinni og við keyrum hana á flugvöllinn í fyrramálið. Það er búið að vera frábært að hafa hana hér með okkur. Það er greinilegt að tíminn líður verulega hratt því mér finnst hún vera rétt komin til okkar og eiginlega ætti hún ekki að vera að fara aftur nærri strax. Það hefði verið frábært að hafa hana með í sólina á Flórída en við leggjum í hann eldsnemma á fimmtudagsmorgunn.

Flottur

Óskar kom okkur svo dálítið á óvart um miðjan dag í dag og ég ætla ekki að hafa mörg orð um það en setja mynd hér á bloggið og hún segir allt sem segja þarf.

Nokkrar aðrar myndir frá aðfangadegi.


Aðfangadagur

Þá er aðfangadagur runninn upp hér eins og annarsstaðar. Þetta verður bjartur og fallegur dagur eins og best gerist. Það snjóaði aðeins í nótt þannig að allt er hvítt yfir að líta.

Í gærkvöldi fengum við góða gesti í mat til okkar. Það var Hagan fjölskyldan en þau búa í Mississauga. Fyrir þá sem ekki vita þá er þetta fólk sem ég kynntist hér í landi fyrir 24 árum síðan þegar ég var við nám í University of Toronto. Þetta fólk reyndist mér mjög vel og ég hef haldið (mismiklu) sambandi við þau síðustu árin. Það var því mjög gaman að hitta þetta fólk aftur mörgum árum seinna og taka upp þráðinn þar sem frá var horfið fyrir löngu síðan. Það var eins og við hefðum sést síðast í gær þegar við hittumst aftur. Sömu brandararnir voru í fullu gildi ennþá og allt á sínum stað. Reyndar eru menn farnir að verða örlítið ljóshærðari en þeir voru fyrir 24 árum og þar eru komin fullorðin börn með í pakkann en þau kunna vel að meta að vera með. Við nutum þess að vera saman og það má með sanni segja að jólin hafi byrjað í gær hjá okkur.

Á Þorláksmessu höfum við Hugrún haft það fyrir sið hin síðari ár að skreppa í bæinn um kvöldið, hitta fólk og spjalla, fara síðan á Bláu Könnuna og sötra þar kakó með þeim sem eru með í það og það skiptið. Við höfðum hugsað okkur að fara út á kaffihús til að viðhalda siðnum okkar þegar gestirnir færu heim. Þegar þar að kom voru allir svo saddir og sælir að enginn hafði áhuga á að fara úr húsi. Í staðinn upplifðum við stemminguna með því að fara á netið, tengja tölvuna við hljómflutningstækin í stofunni og hlusta á jólatónleika Mannakorna frá Græna Hattinum fyrr um kvöldið. Það er frábært hvað tæknin og netið getur gert fyrir mann.

Í morgun talaði talaði ég heim til Dísu systir og við Lilý skruppum til slátrarans vinar míns og sóttum hamborgarhrygginn sem nú er á leið í ofninn og lyktin af honum lofar góðu um hátíðamatinn.

JólagrauturÍ hádeginu var möndlugrautur hjá okkur að vanda og til að ná upp stemmingunni settumst við að borðum klukkan eitt en þá er klukkan sex heima. Aftur var netið og tölvan tengd og að þessu sinni hringdu jólabjöllurnar heima fyrir okkur í beinni útsendingu. Ásgeir fékk möndluna að þessu sinni og var að vanda frekar drjúgur með það.  Nú bíðum við eftir gestunum sem koma og verða með okkur í kvöld. Við hlökkum til að hringja heim á eftir og heyra í fólkinu okkar.

 Adamsfjölskyldan í Kanada sendir sínar bestu jólakveðjur til vina og vandamanna heim á Íslandi og annarsstaðar með von um að allir eigi fyrir höndum friðsama og gæfuríka jólahátíð.


Þorláksmessa

Steikin góðaÍ bloggfærslu minni fyrr í dag sagði ég eitthvað á þá leið að ég myndi sakna þess að fá ekki vel kæsta skötu í matinn. Við fáum vini okkar hingað í mat til okkar annað kvöld og þar var ákveðið að hafa svínabóg í matinn. Við fórum í búðina og fundum þennan líka fína og ferska hringkorna bóg sem verður matreiddur hér á morgun. Þetta er rúmlega fimm kílóa hlunkur, á steikinni segir að hún ætti að duga fyrir 18-20 manns og mér sýnist hún fara langt með það. Það sem mér finnst best við þessa fimm kílóa steik er að hún kostaði okkur út úr búð 5.48 dali Kanadíska. Þetta reiknast mér til að séu tæplega 345 krónur íslenskar.

Hvað ætli svona steik kosti í Bónus.

 Verðmiðinn


Laufabrauð

Flatt út af miklum móðAdamsfjölskyldan var sammála því að það væru engin jól án þess að hafa laufabrauð. Þess vegna tók frú Hugrún sig til í gær og hnoðaði deig svo við gætum skorið og steikt laufabrauð fyrir jólin. Ég var settur á kökukeflið eins og venjulega en hinir skáru út. Allir voru með eins og venjulega og listamannshæfileikar hvers og eins nutu sín í botn. Mér fannst óvenjumikill friður við útflatninguna þetta árið því nú voru bræður mínir og mágur ekkert að skammast yfir því hvernig kökurnar voru flattar úr. Af því fær maður nóg þegar hin árlega laufabrauðshátíð er hjá mömmu á Byggðaveginum. Þar er að sjálfsögðu búið að gera laufabrauð fyrir nokkrum vikum og í þetta skiptið varð ég að láta mér duga að gefa góð ráð og skipta mér af í gegnum tölvusíma. Laufabrauðsgerð á Byggðaveginum er eitt af því sem við söknum að geta ekki tekið þátt í. Eins kem ég líka til með að hugsa stíft heim á morgun þegar ég veit að árleg skötuveisla stendur yfir á Byggðavegi. Mér hefur ekki dottið í hug að leita að skötu hér í Kanada enda veit ég ekki hvert ég ætti að snúa mér í þeim efnum. Ég smellti af nokkrum myndum áðan.

Laufabrauð 2007Þegar við verðum búin að steikja og ganga frá á eftir förum við til vina okkar í Burlington og það stendur til að taka nokkrar óútskornar kökur með til þeirra og sýna þeim hvernig staði er að málum við útskurð á laufabrauði. Þessir vinir okkar verða síðan með okkur á aðfangadag og halda með okkur jól að íslenskum sið.

Allir hér eru að komast í gott jólaskap þrátt fyrir að hlutinir séu ekki eins og venjulega fyrir jólin, allt er tiltölulega stresslaust og fínt eins og venjulega enda ekki ástæða til annars. 


Jólafrí

Þá eru allir komnir í jólafrí. Strákarnir voru í skólanum fram að hádegi í dag og eru fegnir að fá nokkra daga frá skólanum. Ég er búinn að vera í fríi í gær og í dag og ætla mér að taka því rólega fram yfir áramót.

Á þriðjudag tókum við okkur auka frídag og skruppum í menningarleiðangur til Toronto. Þar notuðum við daginn til að njóta lista og menningar. Við fórum í gamlan bæjarhluta borgarinnar sem búið er að friða að hluta. Þar hefur gömlum byggingum sem áður hýstu bruggverksmiðju verið breytt í listahverfi. Húsin eru friðuð og því hefur galleríum, vinnustofum listamanna, verslunum, kaffihúsum, leikhúsum og öðru verið komið fyrir á svæðinu þannig að sem minnstu hafi verið raskað. Hverfið allt og umhverfið var mjög skemmtilegt og gaman að eyða deginum á svona stað. Við vorum mætt þarna fyrir hádegi og nutum þess að skoða málverkasýningar, ljósmyndasýningar og ýmislegt annað sem fyrir augu bar. Fundum okkur kaffihús og sátum þar yfir kaffibollum og hlustuðum á góða tónlist á meðan. Í hádeginu var síðan farið á næsta veitingastað og þar borðuðum við innan um bjórgerðartæki og bruggkatla af ýmsum gerðum. Myndir úr ferðinni er að finna hér.

Við erum að undirbúa jólin á okkar hátt og erum laus við allt stress hvað það varðar. Við höfum skroppið í bæinn í jólagjafaleiðangra, öll saman eða sitt í hvoru lagi eins og gengur. Jólahangikjötið er komið í hús og verður soðið á Þorláksmessu eins og vera ber. Tvíreykta lærið sem mamma sendi er langt komið og það hefur verið hreinn unaður að fá sér bita og bita af því síðustu dagana. Ég hafði upp á slátrara hér í bæ sem útvegaði okkur jólasteikina og það vantar ekkert nema grænu baunirnar frá Ora en því verður reddað með einhverju öðru. Laufabrauð verður gert hér á heimilinu í fyrramálið og þá mega jólin bara koma.

Lilý er búin að vera hjá okkur í rúma viku og það hefur verið frábært að hafa hana hjá okkur. Verst að hún þarf að fara heim strax eftir jólin og getur ekki verið með okkur um áramótin. Vera hennar hér hefur leitt af sér ferðir á listasöfn og menningarstaði sem við höfðum ekkert verið að spá mikið í fram að þessu. Þau systkin hafa líka virkilega notið sín saman.

Hugrún er búin að hafa upp á húsi á Flórída sem hún er búin að taka á leigu fyrir okkur og stefnan er tekin beint í suður á þriðja dag jóla. Við ætlum okkur að aka þetta á tveimur dögum og vera síðan viku í sólinni og notalegheitum yfir áramótin. Það stendur til að spila golf og jafnvel að reyna að renna fyrir fisk ef gefur á sjóinn. Það ætti ekki að fara illa um okkur þarna því við verðum með einkasundlaug og hvaðeina sem þarf til. Nánar um það seinna.


Vetur eins og vera ber

Nú hefur heldur betur kyngt niður snjó hér í Ontarío og hjá okkur hefur viðbótin verið um 40 cm af jafnföllnum snjó. Í veðurfréttum var farið að vara við þessu strax í fyrradag og greinilega var ekki vanþörf á því. Í dag hafa orðið yfir 600 árekstrar á Toronto svæðinu, þar á meðal eitt dauðaslys. Umferð hefur samt verið með minnsta móti enda ekki ferðaveður þessa dagana. Við stóðum eins og aðrir hér í götunni í því að moka bílastæðið í dag og hreinsa út að götu eins og okkur er ætlað að gera. Okkur er líka ætlað að moka gangstéttina fyrir framan hjá okkur alla leið að lóðarmörkum. Líbaninn hér við hliðina kom okkur til aðstoðar með snjóblásarann sinn svo við sluppum vel í dag. Til stóð að fara til Torontó í morgun en því urðum við að fresta út af veðrinu. Teppa hefur verið í flugi til og frá Torontó og er ekki reiknað með að lag verði komið á flug fyrr en á morgun.

Í gær fórum við gömlu með Lilý á flakk hér í Guelph´og kíktum á listasöfn og í bókabúðir. Dagurinn fór að mestu í áð njóta lista, komum við á kaffihúsum á milli til að ná koffínskammti dagsins. Rólegheita dagur eins og þeir gerast bestir. Eftir kúltúrinn var ákveðið að allir færu og spiluðu tvo leiki af bowling saman um kvöldið. Þar voru sýndir taktar sem ekki hafa sést áður hér um slóðir. Greinilegt að handboltaþjálfun skilar sér í þessum leik því Hugrún og Óskar sýndu hæfileikana  svo um munaði og pökkuðu okkur hinum saman. Ég reyndi eins og ég gat og þótt ég næði góðri fellu í fyrsta skoti þá var það túlkað að hinum meðlimum fjölskyldunnar sem byrjendaheppni og það kom líka á daginn að ég átti ekki mörg slík skot það sem eftir var kvölds.

Nú er lambalærið í ofninum og allir að verða nokkuð spenntir að smakka á Kanadísku lambi. Það fékk ég hjá slátraranum sem ætlar að útvega okkur hamborgarhrygginn í jólamatinn. Hann lofaði að það væri gott á bragðið. Það kemur í ljós en lyktin lofar bara góðu og maður fera að verða svangur.


Jóla ......

Eins og allir vita eru að koma jól.

Hér í Guelph eru allskonar uppákomur þessa dagana. Í háskólanaum var boðið til jólahlaðborðs í hádeginu í gær og á miðvikudaginn var boðið í jólakaffi hér í tölvudeildinni. Jólaboðið í gær var hin fínasta veisla þó verð ég að segja að það náði engan veginn að slá út jólahlaðborðunum sem eru heima á Íslandi. Þrír aðalréttir, pasta, skinka og kalkúnn ásamt nokkrum gerðum af meðlæti og kaffi og kökur á eftir. Mér tókst að éta á mig gat, eina ferðina enn og var frekar slakur við kvöldmatinn fyrir vikið.

Allir drukku vatn með enda þekkja menn varla malt og appelsín hér. Ég veit þó að íslendingar eru að leita að því og hef fregnir af hvað getur komið í staðinn á jólum. Við eigum þó enn eftir að gera prufur.

Eftir að borðhaldi var að mestu lokið voru flutt ýmis skemmtiatriði sem öll voru heimatilbúin og flutt af starfsfólki tölvudeildanna.  Þarna var jólasveinninn að sjálfsögðu mættur á svæðið og las bréf sem hann hafði fengið frá yfirmönnum hinna ýmsu undirdeilda tölvudeildarinnar.

Hugrún og Lilý hafa aðeins verið að kíkja í búðir síðustu daga og ég held að Lilý mín sé að verða komin langt með að fylla á töskuna sem hún kom með hingað til okkar. Engin ástæða til að fara heim með ónotaða yfirvigt í fluginu.


Tíminn á hraðferð

Ég stend mig alltaf að því þegar börnin mín eiga afmæli að fara í smá ferðalag aftur í tímann. Þetta ferðalag verður alltaf lengra og lengra. Það besta við það er að það bætist alltaf eitthvað skemmtilegt við minningarnar sem koma upp.

Í dag er ég einmitt búinn að vera á svona ferðalagi því Óskar Helgi varð 18 ára í dag.

Þetta eru ansi merkileg tímamót. Nú er drengurinn semsagt farinn að ráða sér sjálfur og foreldrarnir eiga að fara að draga sig í hlé. Hann hefur svo sem ekkert verið að minna á þetta blessaður drengurinn og ég vona að ég fái að hafa hönd í bagga örlítið lengur.

Hér í Kanada má hann frá og með deginum í dag sjálfur tilkynna sig veikan í skóla og skólinn hringir ekki lengur í okkur ef eitthvað er ekki eins og það á að vera. Þannig hefur það verið síðan við komum. Ef drengirnir hafa mætt of seint þá hefur verið hringt heim og við látin vita af framferðinu. Sem betur fer hefur það ekki gerst mjög oft. Nú verður bara hringt út af Ásgeiri ef eitthvað þarf að láta vita heim. 

Í tilefni dagsins var farið út að borða í kvöld og fyrir valinu var staður hér í bæ þar sem flutt er lifandi tónlist á meðan setið er að snæðingi. Þetta var frábær staður, skemmtilegir tónlistarmenn fluttu góða músík og maturinn var aldeilis frábær. Staður sem vert er að heimsækja aftur.


Þegar piparkökur bakast

PiparkökubaksturÍ dag er búið að vera mikið fjör hjá okkur í Paulstown Crescent. Hingað vorum við búin að stefna fullt af fólki í dag til að baka piparkökur fyrir jólin og mála þær eftir kúnstarinnar reglum. Hugmyndin var upphaflega að gera laufabrauð en þar sem sumir voru alls ekki vanir þeim sið þá varð lendingin að hittast og baka piparkökur. Jóhanna og Guðmundur sem eru við nám hér í Guelph mættu með drengina sína Teit og Friðrik. Þær mæðgur Sigurbjörg og Margrét sem eru einnig hér komu með þeim. Tómas og Kristina með Leif og Jóhönnu komu alla leið frá Toronto og svo má ekki gleyma Claudiu sem kom frá Burlington til að taka þátt í fjörinu. Hugrún var búin að undirbúa allt eins og henni er lagið og nóg var til af degi og tilheyrandi þegar fólkið kom. Ég sá um að nóg væri af kaffi og slíku á boðstólum og var nýttur á kökukeflið af og til. Það voru bakaðar piparkökur af öllum stærðum og gerðum ásamt húsum og ég veit ekki hvað og hvað. Allir voru með í að mála og gera kökurnar sem girnilegastar. Óskar sem verður 18 ára á morgun og er að undirbúa afmælisdaginn með því að lesa undir þýskupróf hjá Wolla tók sér hlé frá lestrinum og tók þátt í þessu. Ásgeir sá um að hafa ofanaf fyrir börnunum og stóð sig eins og herforingi við það.

Þetta tókst allt saman mjög vel þótt ég sé ekki búinn að skreyta.

 


Lilý mætt á svæðið

Nú er öll fjölskyldan sameinuð hér í Paulstown Crescent eftir að vera búin að vera aðskilin í rúmlega þrjá mánuði. Við hjónakornin fórum á flugvöllinn í Torontó í gær til að sækja þá stuttu sem kom til okkar í gegnum London. Strákarnir voru í skólanum svo þeir komust ekki með. Það urðu miklir fagnaðarfundir á vellinum og ekki síður þegar komið var heim. Strákarnir voru þá komnir úr skóla og biðu eftir stóru systur. Það var um nóg að spjalla í gærkvöldi og við áttum góðar stundir saman.

Í dag erum við búin að vera í skoðunarferðum hér í Guelph og búin að fara nokkuð víða. Háskólinn var skoðaður fyrir hádegi og síðan var haldið út í bæ og víða komið við. Á morgun er síðan ætlunin að halda á jólamarkað í St. Jacobs.

Lilý kom hingað færandi hendi og dró úr tösku sinni marga góða hluti. Mamma blessunin hafði sent hana með tvíreykt hangikjöt handa okkur og nú ylmar allt húsið af þessu líka fína taðreykta kjöti. Ég átti ekki von á þessari sendingu en það er ekki margt sem hefði getað slegið þessu við. Við vorum búin að fá sent hingað eitt hangið læri til að snæða á jóladag og það bíður þess að verða soðið en kjötinu sem Lilý kom með verða gerð skil fyrir jól eins og vera ber.

Ég er búinn að gera mikla leit að hamborgarhrygg en hann hafði ég ekki fundið nema niðursneiddan í kótelettur. Það virtist vera ómögulegt að nálgast þennan mat í heilum stykkju. Það var ekki fyrr en Scotty vinur minn á næsta bás í háskólanum benti mér á slátrara sem ég fór og ræddi við. Sá getur útvegað þetta eftir einhverjum krókaleiðum og bauðst til þess fyrir mig. Þannig er allt að falla í réttar skorður og matarmál jólanna að komast á hreint.

Ég verð sennilega að fara að skreyta fyrir jólin.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Adam Ásgeir Óskarsson

Höfundur

Adam Ásgeir Óskarsson
Adam Ásgeir Óskarsson
Kerfistjóri í orlofi.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Draugaskip ?
  • Flottur di
  • Sæll og glaður
  • Útsýni frá gististaðnum í Jeddore
  • Charlo - Jeddore

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband