Færsluflokkur: Bloggar
3.12.2007 | 02:16
Desemberbyrjun
Í gær fór talsverður tími í samskipti við vini og vandamenn heima á Íslandi.
Á Byggðaveginum stóð yfir laufabrauðsgerð og allir í fjölskyldunni nema Adamsfjölskyldan voru þar samankomin við þennan árlega og frábæra sið sem við höfum haldið lengur en elstu menn muna. Við tókum þátt að þessu sinni með því að hringja og tala við marga af þeim sem þarna voru. Góð ráð við útflatningu voru að sjálfsögðu gefin í gegnum síma. Þó við værum ekki á staðnum veit ég fyrir víst að laufabrauðið smakkast vel í ár eins og venjulega. Hér í Kanada höfum við hugsað okkur að gera lítilsháttar laufabrauð eftir að Lilý kemur til okkar.
Í Kópavogi stóð yfir árlegur Júlefrokost Dansk-Islandsk samfund sá 17. í röðinni á jafnmörgum árum og er þetta í fyrsta skipti sem við erum ekki þátttakendur í þessari miklu hátíð. Með símtölum við nokkra af meðlimum klúbbsins komst ég að því að fögnuðurinn fór vel fram að vanda og maturinn smakkaðist eins og til stóð.
Í gærkvöldi var svo komið að því að fara í leikhús og fylgjast með uppsetningu á Rómeo og Júlíu hjá Centennialskólanum hér í bæ. Ásgeir þreytti þar frumraun sína erlendis og einnig í Shakesphere. Ég verð að viðurkenna að skilningur minn á meistara Shakesphere er í algeru lágmarki og mér létti talsvert þegar Claudia vinkona okkar sem fór með okkur sagðist ekki skilja alla þá ensku sem töluð var í þessu stykki. Ágeir fór á kostum í þeim hlutverkum sem hann lék og ég mun setja myndir og videoklippur af frammistöðu hans á netið þegar fram líða stundir.
Svo fór nú aldeilis að snjóa hér í gærkvöldi. Það voru búnar að vera aðvaranir í sjónvarpi í gær um mikla ofankomu og hvassviðri. Strákarnir fóru í heimsókn til vina sinna eftir leikritið og þegar þeir komu heim um eittleytið var allt að fara á kaf í snjó svo við ákváðum að sleppa handboltaferð til Torontó í dag. Það hætti að snjóa einhvertíma í morgun og þegar rofaði til hafði fallið um 30-40 cm af snjó hér í Guelph og sumstaðar hér í kring var enn meiri snjór. Þetta setur verulegt strik í reikninginn varðandi umferð og ferðalög fólks. Það eru margir kílómetrar af vegum sem þarf að moka, salta og sandbera til að allt gangi fyrir sig eins og vera ber. Ég dáist að skipulaginu við hreinsun gatna hér, alltaf virðast menn vera í startholunum og hér er ekki ófært þrátt fyrir mikla ofankomu. Þegar ég drattaðist á fætur í morgun þurfti ég, eins og flestir nágranna minna að fara út og hreinsa bílastæðið og gangstéttar framan við húsið okkar. Greinilegt er að fólk er ekkert að bíða með að koma snjónum í burtu því við hvert hús í götunni var verið að hamast við að moka snjó og hreinsa frá húsunum. Ég veit ekki alveg hvort ég hefði verið að brasa við þetta heima þótt það hefði komið snjór eins og hér. Ekki nema éf væri með skemmtilegt tæki til að leika mér að á meðan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.11.2007 | 19:02
Fyrsti snjórinn
Þá er komið að því að það er farið að snjóa hérna hjá okkur. Í fréttum í gær var varað við mikilli ofankomu á sumum svæðum hér í kring og menn hvattir til þess að fara varlega. Við í Paulstown Crescent tókum þessu öllu með jafnaðargeði og vorum ekkert að gera sérstakar ráðstafanir frekar en venjulega þegar spáð er hríð. Á sumum sjónvarpsstöðvunum var verið að kynna fyrir fólki hvernig það ætti að búa sig undir að komast ekki út úr húsi í nokkra daga vegna veðurs. Menn þurfa að eiga vasaljós, aukarafhlöður, útvarp og eitthvað til að éta. Hlý teppi og fatnaður og fleira í þeim dúr á einnig að vera í hverju húsi ef rafmagn og hiti fer af.
Þegar við fórum að sofa í gærkvöldi var grenjandi rigning sem síðan breyttist í snjókomu í nótt. Í morgun var síðan föl á jörðu eins og við myndum kalla það fyrir norðan.
Drengjunum var þrælað upp úr rúmunum að vanda í morgun, þeim gefið að borða og smurt ofan í þá í skólann eins og venjulega. Þeir fóru síðan út til að taka skólabussinn en komu aftur að vörmu spori, glottandi og sögðu að engir bössar væru á ferðinni í dag vegna hálku. Það merkir að það er ekki hægt að halda úti skóla eins og á venjulegum degi. Þeir voru bara fegnir og settust við tölvurnar og fóru eitthvað að dunda sér. Mér fannst rétt að kanna ástandið og fór út að aka til að finna út hvort bíllinn væri ökuhæfur í svona tíð. Það reyndist vera mjög auðvelt að komast um þótt enn væru sumardekk undir bílnum. Það var búið að salta helstu götur og umferðin gekk rólega fyrir sig.
Eftir að vera búinn að athuga þessi mál fór ég í skólann eins og venjulega en verð að viðurkenna að það var frekar svalt í næðingnum á leiðinni út að strætó. Þeim mun betra var að koma hér inn og setjast við að skoða mismun á WebCT og Moodle kennslukerfum en það er pælingin mín þessa dagana. Er að skoða þetta með það fyrir augum að skipta um kennslukerfi þegar ég kem heim.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.11.2007 | 16:32
Rigning í dag
Það rigndi þegar ég fór á fætur í morgun. Ég bolvaði þessu til að byrja með því ég ætlaði mér að hætta frekar snemma í dag og fara út að hjóla.
Á leiðinni út á strætóstöð lagaðist allt og ég sá bara hvað ég var heppinn að vera ekki búinn að hengja upp seríurnar.
Ég settist inn í vagninn með hinum krökkunum sem voru líka á leiðinni í skólann. Að sjálfsögðu gróf ég upp iPoddinn og stakk töppunum í eyrun eins og allir hinir.
Frysta lag sem var spilað fyrir mig í morgun var Gleðibankinn með Pálma vini mínum af 25 ára afmælisdiski Mannakorna. Þá tók Pétur Kristjánsson við. Það er ekki hægt að hugsa sér mikið betri félagsskap á leiðinni með strætó í skólann á rigningardegi.
Held ég hætti samt frekar snemma í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.11.2007 | 22:58
Jólaskreytingar
Mér þykir gæta ákveðinnar kaldhæðni í athugasemdunum við síðust bloggfærslu hjá mér. Sérstaklega athugasemd Harðar litla.
Auðvitað kem ég til með að mynda allar skreytingarnar sem ég set upp fyrir jólin. Ég er á þeirri skoðun að ekki sé þörf á að byrja að skreyta fyrr en á aðventunni. Þá fer þetta af stað fyrir alvöru hjá mér. Það er verst að hverfið sem við búum í er það nýtt að tré eru ekki nema rúmlega metershá enn sem komið er. Þau þola því ekki mörg tonn af jólaskrauti ennþá. Ég verð því að láta mér duga að gera eitthvað við húsið og hugsanlega Harleyinn ef maður verður ekki að nota hann á jólaföstunni. Ég sendi mynd af honum líka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.11.2007 | 22:43
Sunnudagur enn og aftur
Já það er bara kominn sunnudagur enn eina ferðina og hann er meira að segja að verða búinn.
Ég komst tiltölulega heill frá fyrirlestrinum í UoG á föstudaginn. Ég mætti þar á staðinn með um hundrað glærur eða svo til að vera nú algerlega öruggur um að hafa nóg um að tala en ég hafði klukkutíma til að koma þessu frá mér. Ég var ekki búinn með nema um 20 glærur eða svo þegar var farið að benda mér á að það væri bara korter eftir. Þurfti þá að gefa hressilega í og klára það sem ég ætlaði að koma frá mér og fara síðan hraðferð yfir restina. Þessu var öllu saman mjög vel tekið og ég er hæstánægður með hvernig til tókst.
Í gær (laugardag) fórum við með Ásgeir á badminton mót í háskólanum´. Hann hefur ekki vaknað svona snemma á laugardegi síðan við komum hingað út. Honum gekk vel á þessu móti og vann alla sína leiki nema einn. Honum var boðið að taka þátt í æfingum með háskólaliðinu ef hann vildi. Hann er nú þegar að æfa tvö kvöld í viku og ég veit ekki hvort hann langar til að bæta þriðja kvöldinu við. Æfingatímarnir í þessum áhugamannaíþróttum eru frekar leiðinlegir, æfingar á kvöldin frá sjö til ellefu og í háskólanum frá hálf níu til hálf tólf. Óskar er á handboltaæfingum á sunnudagsmorgnum frá tíu til tólf og þær eru í Toronto þannig að sunnudagsmorgnar fara í akstur á hraðbrautinni milli Guelph og Toronto. Ég hef fram að þessu skroppið með honum og haft með mér bók að lesa og beðið á meðan æfingarnar standa. Í morgun ákvað Hugrún að koma með og við hittum Claudiu á jólasýningu ekki langt frá handboltaæfingasvæðinu. það er greinilegt að jólin eru að handan við hornið. Þarna var nú aldeilis dótið til sýnis. Ég átti ekki eitt aukatekið orð, þvílík sýning sem þarna var haldin í ráðstefnuhöll nærri flugvellinum. Eins gott að maður er ekki sérlega skreytingaglaður að eðlisfari. Þá er ég hræddur um að hefði lækkað undir koddanum.
Það er ljóst að jólin eru að koma. Hér í kring um okkur eru menn að þvælast um í stigum utaná húsunum sínum og brasa við að gera jólalegt. Sá sem býr á móti okkur var búinn að koma fyrir seríum, snjókörlum, hreindýrum og tilheyrandi í síðustu viku.
Í dag voru síðan heljarinnar jólaskrúðgöngur í Toronto og einnig hér í Guelph. Við buðum drengjunum upp á að fara seinnipartinn og sjá jólasveinana en þeir tóku fremur fálega í þá hugmynd svo ég fór bara út að þvo bílinn og klappaði hjólinu aðeins í leiðinni.
Gaurinn í næsta húsi var að slá lóðina svona í síðasta sinn fyrir jólin á meðan ég var úti að þrífa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.11.2007 | 16:25
Fyrirlestur framundan
Héðan er allt það besta að frétta þó ég hafi ekki haldið mig mikið að blogginu mínu síðustu dagana.
Síðustu daga hef ég verið að hugsa um fyrirlestur sem ég verð með hér í Háskólanum á föstudaginn kemur. Ég var beðinn um þetta um daginn og þá var talsvert í þessa dagsetningu þannig að ég var ekki mikið að velta þessu fyrir mér. Nú er dagurinn að nálgast eins og óð fluga og það verður að bretta upp á ermarnar og klára dæmið. Ég ætla að segja frá skólunum sem ég kem frá heima á Íslandi og hvað fer aðallega fram í þeim stofnunum. Tala um hvað ég er að gera, af hverju ég er hér í Guelph og fleira í þeim dúr. Menn eru búnir að vera að spyrja mig svolítið um landið og orlofið og hitt og þetta sem ég hef hugsað mér að koma inn í þennan fyrirlestur.
Síðustu daga hef ég því verið að hressa upp á þekkinguna í Íslandssögunni, tengslum Íslands og Kanada og fleira í þeim dúr sem betra er að vera með á hreinu þegar kemur að spurningum og svörum. Nema ég hafi með mér hákarl og harðfisk og bjóði á línuna í restina. Ég er kominn með 90 glærur og það er sennilega allt of mikið fyrir þann tíma sem ég hef til umráða. Samt betra að vera með of mikið en of lítið, það finnst Hugrúnu allavega þegar hún býður til veislu. Hef leitað til snillinga eins og Haraldar Bessasonar varðandi svör við spurningum um Vesturíslendinga. Það er ekki að koma að tómum kofanaum að spyrja hann út í þau mál. Ég er einnig búinn að lofa að nefna eldgos og hveri og fleira í þeim dúr og það verður ekki vandamál að spjalla um það.
Bogi er búinn að gista í kjallaranum hjá okkur í viku. Hann kom til að ganga frá ýmsum málum í sambandi við doktorsverkefnið sem hann er að vinna við. Hann er búinn að bóka sig heim á föstudag.
Í síðustu viku átti ég fund með Richard Gorry en hann er yfir fjarkennslumálunum hér í háskólanum. Við áttum fínan fund og ég kem sennilega til með að eyða svolitlum tíma yfir í þeirri deild fljótlega. Það er verið að vinna með ýmis konar kerfi í sambandi við fjarkennsluna sem er stunduð hérna við skólann. Ég er nokkuð spenntur fyrir þessum málum og hlakka til að taka þátt í þessu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.11.2007 | 16:47
Haustið komið í Kanada
Þá kom að því. Það er komið haust hér í Kanada og ég sem hélt að hér væri endalaust sumar. Það er búið að vera frekar kalt þessa viku og hitinn ekki náð nema í eins stafs tölur á daginn með frosti á nóttinni. Í gær bættist síðan við rigning og gamla góða slyddan lét aðeins sjá sig. Reyndar var það ekki nema í smá stund þannig að það náði ekki að grána í rót. Strax var farið að vara við hálku og trukkar með hálkueyði voru komnir af stað í gærkvöldi þegar ég skutlaði Ásgeiri á badmintonæfingu. Síðan var allt orðið þurrt og fínt í morgun. Aðeins föl á pallinum þegar ég vaknaði en hún var að verða farin þegar ég kom mér af stað í skólann um kl. 9.
Ég hélt að nú væri veturinn að koma og fór að tala um þetta í skólanum. Þá var mér sagt að þetta væri ekki veturinn heldur haustið og ég sem er búinn að vera að upplifa haustið í meira en mánuð. Þá er bara að fara að upplifa haustið og bíða sallarólegur eftir vetrinum. Hann kemur án efa með því sem honum fylgir.
Ætli borgi sig þá ekki bara að skreppa til Flórída í nokkra daga. Það tekur ekki nema tvo daga að keyra þangað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.11.2007 | 23:59
Fyrsta helgi í nóvember
Já það er bara komin helgi einu sinni enn. Fyrsta helgin í nóvember og það fer að styttast í veturinn hérna samkvæmt veðurspánni. Á jafnvel að fara að koma frost á nóttinni. Það er ekkert annað og ég ekki búinn að slá síðasta sláttinn í sumar.
Strákarnir voru uppteknir í dag við sín áhugamál. Óskar spilaði 18 holur á Springfield vellinum hérna rétt hjá og Ásgeir fór á leikæfingu í skólanum. Hann er kominn á kaf í leiklistina hérna og er að fara að leika í uppfærslu skólans á Rómeo og Júlíu. Hann neitar því að hann eigi að leika Júlíu.
Við gamla settið notuðum því daginn eins og við gátum til að vera úti. Á háskólalóðinni er gríðarlega skemmtilegt og mikið trjásafn sem er frægt víða um lönd. Þarna eru 165 hektarar lands með um 1700 mismunandi tegundum af trjám og runnum. Göngustígar og slóðar um svæðið eru yfir 8 km. Þarna eru að hafa sést 188 tegundir af fuglum og 38 tegundir spendýra. Á þennan stað er alltaf mjög skemmtilegt að koma og maður sér alltaf eitthvað nýtt í hvert skipti. Veðrið í dag var einstaklega ljúft til að vera úti. Ég setti nokkrar myndir sem ég tók þarna í dag inn á myndasíðuna mína og vefsíðu garðsins er að finna á slóðinni http://www.uoguelph.ca/arboretum/ og ég hvet þá sem lesa þetta blog að kíkja þar inn.
Eftir góða útiveru enduðum við á því að fara á Stabucks og fá okkur góðan kaffisopa.
Ég skellti mér síðan út að hjóla á eftir og var að fram í myrkur.
Í fyrramálið verður stefnan tekin til Toronto á handboltaæfingu með Óskar og síðan er ætlunin að heilsa upp á Harald Bessason og Margréti eftir hádegi.
Bloggar | Breytt 4.11.2007 kl. 00:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2007 | 03:21
Halloween
Miðvikudagur 31. október er Halloween dagur hér í Kanada. Við vorum við öllu búin hér í kvöld og vorum búin að koma okkur upp feikimiklum sælgætisskammti til að fóðra börnin hér í hverfinu á. Fjörið byrjaði um klukkan sex og stóð til klukkan níu eða þar um bil. Krakkarnir ganga í hús og fara fram á sælgæti eða þau muni gera grikk. Við Hugrún byrjuðum á að fara bæði til dyra þegar hringt var og dáðumst að búningum stubbanna sem stóðu fyrir utan. Fórum auðveldu leiðina og gáfum öllum nammi og tókum ekki séns á að láta gera okkur grikk. Fyrir rest vorum við svo farin að skiptast á að fara til dyra.
Þetta er greinilega mikill dagur því hér í kring eru sum hús skreytt í bak og fyrir og búið að koma upp heilu draugahúsunum framan við húsin. Hugrún tók sig til og fór og varð sér úti um grasker sem hún skar í andlit. Þessu var stillt á tröppurnar hjá okkur og lýst að innan með kertaljósi. Ég var álíka spenntur fyrir þessu og að hengja upp jólaskraut heima hjá mér en sú gamla var ekki á því að sleppa þessu og tók til sinna ráða og gerði þetta á meðan ég var í skólanum í dag.
Annars er allt búið að vera í nokkuð föstum skorðum hjá okkur síðustu daga. Síðasta helgi var löng helgi hjá strákunum í skólanum því það var vinnudagur kennara á föstudaginn. Við ætluðum okkur að skreppa í útilegu norður að Georgian Bay. Höfðum hugsað okkur að leigja okkur sumarbústað og ferðast eitthvað út frá honum. Veðurspáin var ekkert sérstök og strákarnir voru komnir með heilmikla dagskrá fyrir helgina svo við hættum við að fara að þessu sinni en fórum í staðinn til Burlington. Óskar spilaði þar golf með Trevor og fleirum á meðan við Hugrún eyddum tímanum með Claudiu.
Ég hef farið út að hjóla næstum daglega eftir að ég kem heim úr skólanum. Það hefur verið frábært veður til að þvælast um sveitavegina hér í nágrenninu. Venjulega hjóla ég í ca. klukkutíma en þá er ég venjulega orðin rammvilltur og veit ekki hvar ég er staddur. Þá er GPS tækið ræst og það notað til að leiðbeina manni heim á leið aftur. Dásamlega græja sem veit alltaf hvar maður er staddur og hver stysta leiðin er heim ef maður þarf á því að halda. Náði mér í tæki sem ég get verið bæði með á hjólinu og í bílnum og þetta er búið að vera snilld að ferðast síðan. Við höfum ekki þurft að taka upp götukort og aldrei villst, að sjálfsögðu aldrei verið spurning um hvort ætti að fara til hægri eða vinstri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.10.2007 | 17:22
Mánudagsgolf
Í gær skruppum við með Óskar í golf til Burlington. Á meðan Óskar golfaði með Trevor skrapp ég smá rúnt um nágrenni golfvallarins sem er á strönd Lake Ontario. Það eru slíkir haustlitir hér núna að maður verður að taka myndirtil að eiga og skoða seinna. Eftir golfið kíktum við á David og Claudiu, skruppum síðan með henni út að borða áður en við fórum heim aftur. Við áttum frábæra helgi og hittum gamla vini mína sem ég hef ekki séð í 25 ár eða svo. Það var verulega gaman að koma til þeirra og við munum örugglega hittast fljótlega aftur.
Ég er búinn að vara svo heppinn að síðustu daga hefur viðrað verulega vel til hjóltúra og ég hef haft tækifæri til þess að hjóla hér í nágrenninu. Það eru margar frábærar leiðir hér í kringum Guelph og ég á eftir að njóta þess að gera hjólað um hér þegar fer að vora aftur. Annars er ekkert lát á veðurblíðunni, það var 26 stiga hiti bæði í gær og fyrradag og hitamet eru enn að falla. Það rigndi reyndar á mig í morgun þegar ég fór í skólann en það gerir ekkert til og bara hressandi að fá einu sinni góðan rigningardag. Framundan eru ágætis dagar og vonandi getum við notað þá til að vera eitthvað úti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Adam Ásgeir Óskarsson
Tenglar
Tengdar síður
Nokkrar síður sem vert er að skoða
- Myndasíða Myndasíða
- Ásgeir Andri Adamsson Hér bloggar Ásgeir
- Óskar Helgi Adamsson Hér bloggar Óskar
- Lilý Erla Adamsdóttir Hér blogagr Lilý
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 593
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar