12.5.2008 | 07:54
Grand Canyon (Dagur 12)
Þetta er búinn að vera í einu orði stórkostlegur dagur frá morgni til kvölds. Við vöknuðum á okkar venjulega tíma klukkan sjö í morgun og biðum spenntir til klukkan níu þegar átti að leggja af stað í Miklagljúfur. Leiðin þangað frá Williams er um 60 mílur eða um klukkutími miðað við skikkanlegan hraða. Ferðin í þjóðgarðinn gekk að óskum og þar tók við ferðalag sem er engu líkt. Mikilfengleika þessa staðar verður ekki lýst í fáum orðum. Við hjóluðum nærri gljúfurbarminum og stoppuðum á öllum þeim stöðum sem við máttum stoppa á. Þar voru teknar myndir og teknar fleiri myndir og svo var tekið aðeins meira af myndum. Upplifunin var engu lík og okkur fannst við verða að reyna að setja eins mikið af þessu á stafrænar myndir og við gátum. Reyndar kom í ljós þegar ég var búinn að taka nokkrar myndir á vélina mína að ég hafði gleymt minniskortinu á hótelinu, ég fór í verslanir þarna á svæðinu til að kaupa mér annað kort en fékk ekki kortið sem mig vantaði í vélina. Því eru myndir dagsins í dag birtar með góðfúslegu leyfi Péturs sem myndaði af miklum móð og tók örugglega margfalt fleiri myndir en hann hefði annars gert því hann var að mynda fyrir okkur báða.
Við höfðum hugsað okkur að fara á svalir með glerbotni sem ég hafði frétt að væri búið að byggja á gljúfurbarminum. Mig langaði að standa á þessu gleri og horfa í djúpt hyldýpið undir fótunum á mér. Ég vissi ekki fyrr en í gær að til að komast á þessar svalir þurfti að hjóla 200 mílur aðra leiðina svo það gekk ekki að gera það en í staðinn linnti Pétur ekki látum fyrr en hann var búinn að draga mig í þyrluflug um gljúfrin. Það var ein upplifunin í viðbót. Við fórum í klukkutíma flug upp og niður í gljúfrin og það var stórkostlegt að sjá þetta landslag frá þessum sjónarhornum. Og enn var myndað og myndað þar til fór að koma merki um að rafhlaðan í myndavél Péturs var að verða búin. Það var samt undarlegt hvað honum tókst að taka margar myndir á síðustu elektrónunum í rafhlöðunni. Það er ekki nokkur lífsins leið að skoða þarna allt sem vert er að skoða á einum degi enda er Miklugljúfur á stærð við Sviss svona rétt til að fá samanburð.
Eftir þyrluflugið tókum við okkur til og hjóluðum enn lengra inn með gljúfrunum og skoðuðum það sem hægt var. Í morgun ákváðum við feðgarnir (það eru nokkrir búnir að spyrja hvort ég sé pabbi Péturs) að far í bolina sem Pétur kom með frá Harley í Reykjavík. Þessir bolir vöktu athygli og margir sem við hittum komu að máli við okkur og spurðu hvort við værum virkilega frá Íslandi. Við hittum m.a. prófessor frá háskóla í Flórída sem hafði verið heima að vinna fyrir Íslenska Erfðagreiningu og honum fannst gaman að segja okkur frá því sem hann hafði séð á Íslandi. Á einum af síðustu stöðunum sem við stoppuðum á rákumst við síðan á tvo Íslenska stráka sem voru að skoða gljúfrin og höfðu ekið hingað frá Seattle. Við fengum þá til að mynda okkur (nema hvað) og mynduðum þá í staðin á hjólunum. Við vorum þeir síðustu að yfirgefa svæðið og rétt náðum að komast á hótelið og skella okkur í sturtu fyrir matinn.
Myndirnar frá ferðinni í gljúfrin er á myndasíðunni.
Í kvöld var allur hópurinn saman í mat á hótelinu. Fyrir Hauk vin minn Jónson set ég hér á síðuna mynd sem er sérstaklega tekinn af kvöldmatnum fyrir hann. Þetta var í alla staði hið besta samsæti. Þegar ég ætlaði að fara að koma mér inn á herbergi að blogga og koma myndum fyrir á sínum stað komu einhverjar vöblur á Pétur. Það kom síðan í ljós að hann er búinn að fara á bak við mig í marga daga. Vinurinn var búinn ásamt leiðsögumanninum okkar að skipuleggja þetta líka partý. Þarna var komin terta af sverustu gerð, freyðivín á línuna og eplasafi fyrir mig, allt úthugsað og pælt. Þarna upphófst þessi hörku veisla með dansi og músík sem tilheyrir ferð eins og þessari. Það var sungið og dansað af miklum móð og ekki var annað að sjá en að allir skemmtu sér hið besta. Þetta kom mér svo gersamlega að óvörum en varpar um leið ljósi á ýmislegt sem Pétur hefur verið að laumast með síðustu dagana. Ég gat til að mynda alls ekki skilið hvað hann vildi á köflum vera laus við mig og var farinn að hafa áhyggjur af því að ég hefði gert honum eitthvað.
Eins og ég sagði áðan þá er þetta búinn að vera stórkostlegur dagur og mig langar að þakka öllum sem hafa gert þennan dag sérstakan og frábæran fyrir mig. Allir sem sendu mér kveðju í dag fá bestu þakkir fyrir. Hugrún mín sem stakk upp á að ég færi í þessa ferð og Pétur vinur minn sem var tilbúinn að fara þessa ferð með mér með litlum fyrirvara fá sérstakar þakkir.
Nú verð ég að fara að hætta þessu og hvíla mig enda langur dagur á morgun en þá heldur hersingin áfram í átt til LA.
Myndir úr partýinu er líka komnar á sinn stað.
Um bloggið
Adam Ásgeir Óskarsson
Tenglar
Tengdar síður
Nokkrar síður sem vert er að skoða
- Myndasíða Myndasíða
- Ásgeir Andri Adamsson Hér bloggar Ásgeir
- Óskar Helgi Adamsson Hér bloggar Óskar
- Lilý Erla Adamsdóttir Hér blogagr Lilý
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Vá! Þetta er alveg hrikalegur staður, Þvílík upplifun
Ég bíð enn eftir að snjórinn fari svo hægt sé að hjóla yfir Vaðlaheiðina, það eru alllnokkrir dagar í það.
Það eru meira að segja opnar lyftur í Hlíðarfjalli um helgina
Kveðjur Hörður
Hörður Óskarsson (IP-tala skráð) 12.5.2008 kl. 09:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.