20.6.2008 | 03:45
Niagara Falls
Ég byrja þessa færslu á að óska Lilý minni (uppáhalds dóttur minni) til hamingju með 23. afmælisdaginn. Mér finnst ótrúlegt að hugsa til baka og trúi því varla að það séu liðin tuttuguogþrjú ár síðan þessi elska kom í heiminn. Ég vildi gjarna hafa getað smellt einum kossi á þig í dag en þú átt hann bara inni Lilý mín. Í staðinn sendi ég þér þessa rós sem varð á vegi mínum í dag.
Verst að komast ekki í grillveisluna hjá þér í kvöld og ég vona að yfirgrillarinn sé ekki með mikið sviðnar augabrýr eftir atganginn við grillið.
Við bræðurnir, fjölskyldur og mamma erum búin að skemmta okkur konunglega saman í rétt að verða viku. Mamma er reyndar að verða búin að vera í tæpan mánuð og á tæplega annan eftir með okkur. Við erum búin að þvælast um nágrenni Guelph og skoða marga merka staði. Margir þessara staða eru komnir í mikið uppáhald hjá okkur Hugrúnu og það hefur verið aldeilis frábært að kynna þá fyrir stærri parti af fjölskyldunni. Að sjálfsögðu er skylda að fara með fólk í St. Jacobs og Aberfoyle þar sem annars vegar er mikill menónita og bændamarkaður hvern laugardag og hins vegar antikmarkaður. Við skreppum gjarna á bændamarkaðinn og verslum hlynsýróp og fleira góðgæti af menónítunum. Það eru engir í heiminum sem sjóða betra sýróp en þeir. Sýrópið hefur síðan verið notað óspart út í hafragrautinn á morgnanna og í ávextina á kvöldin. Ég veit ekki hvernig við förum að þegar við höfum ekki aðgang að þessu hnossgæti eftir að heim er komið. Sennilega verður þetta enn eitt af því sem maður þarf að venja sig af að nota og þá er bara að bíta á jaxlinn eina ferðina enn. En hafragrauturinn verður ekki eins ef hann er soðinn án sýrópsins.
Í dag fórum við síðan að færa okkur aðeins lengra frá Guelph og skelltum okkur hraðbrautina að Niagara fossum. Þangað er alltaf skemmtilegt að koma og alltaf sér maður eitthvað nýtt í hverri ferð. Í dag fórum við á bakvið fossana í göngum sem voru grafin þangað niður. Þangað höfum við ekki farið áður. Þarna niðri mátti finna drunurnar í fossinum. Við gáfum okkur mjög góðan tíma til að skoða okkur um, fara upp í turninn og ganga meðfram ánni sem rennur í miklu gljúfri frá fossinum í Ontario vatnið.
Við ókum síðan sem leið lá niður með ánni og komum við í þorpinu Niagara on the Lake þar sem við röltum um í góða stund og fengum okkur góðan kvöldmat áður en við héldum aftur heim til Guelph.
Um bloggið
Adam Ásgeir Óskarsson
Tenglar
Tengdar síður
Nokkrar síður sem vert er að skoða
- Myndasíða Myndasíða
- Ásgeir Andri Adamsson Hér bloggar Ásgeir
- Óskar Helgi Adamsson Hér bloggar Óskar
- Lilý Erla Adamsdóttir Hér blogagr Lilý
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.