Amarillo - Santa Fe (Dagur 8)

Amarillo - Santa FeVeðurguðirnir voru að stríða okkur í morgun því þegar við vöknuðum var hellirigning og gekk á með þrumum og eldingum. Við gáfum okkur því góðan tíma í morgunverðinn á Big Texan veitingastaðnum sem við fórum á í gærkveldi. Morgunverðurinn var sá besti hingað til og var í stíl við steikurnar sem við erum enn að melta. Við biðum af okkur rigninguna og lögðum af stað klukkutíma á eftir áætlun. Fyrsta stopp var í Harley Davidson umboðinu í Amarillo. Menn eru að átta sig á veðrinu og nokkrir þurftu að bæta við sig léttari klæðnaði en þeir höfðu með sér að heiman. Eftir að allir voru búnir að gera það sem þeir þurftu var stefnan tekin á Cadillac Ranch þar sem einhverjum snillingnum datt í hug að skella 10 útkrotuðum Cadillac bílum á endann með farmendann niður í jörðina á rykugum hveitiakri.  Þetta er staður sem flestir sem eru á þessari leið koma við á og margir taka sig til og bæta við krotið á bílunum. Þarna var allt á kafi í leðju eftir rigninguna frá því í nótt. Pétur gleymdi því eitt andartak að hann sat á 350 kílóa Harley krómhlunki og fór út af malbikinu þegar hann var að snúa við. Hallinn virkar ekki eins og torfæruhjól og lagðist á hliðina. Enginn skaði var skeður og hjólið var reist við í snarhasti og ferðinni haldið áfram.

SlysVið vorum ekki komin langt þegar vegurinn mjókkaði allt í einu um tæpan metra. Frakkarnir voru ekki að fylgjast alveg nægilega vel með veginum framundan og fóru þarna út af malbikinu og út í drulluna í vegkantinum. Hjólið fór um leið á hliðina og skoppaði þrjá hringi á veginum og þau bæði sem á hjólinu voru hentust af og voru svo heppin að lenda ekki undir eða fyrir hjólinu þar sem það hringsnerist eftir veginum og út af honum hinumegin. Þau voru fjórðu öftust í röðinni og við sem á eftir þeim komum máttum bremsa eins og við gátum og passa okkur að lenda ekki á þeim þar sem þau runnu eftir malbikinu á eftir hjólinu og útaf í sömu átt og hjólið fór. Við stukkum til þeirra þar sem þau lágu til þess að huga að þeim. Sem betur fer sluppu þau með minniháttar skrámur og það er það sem skiptir máli. Það er algerlega ljóst að þarna skipti klæðnaður og öryggisbúnaður öllu máli. Þeir sem voru á undan þeim í hópnum tóku ekki eftir þegar þetta gerðist og héldu áfram. Þegar við vorum búin að fullvissa okkur um að krakkarnir væru ekki stórslasaðir fór Cris, Englendingur á eftir hópnum til að sækja leiðsögumanninn og láta hann vita hvað gerðist. Á meðan var kallað á lögreglu og sjúkrabíl. Eftir að búið var að skoða krakkana í sjúkrabílnum og ganga úr skugga um að allt væri í lagi völdu þau að halda áfram ferðinni með okkur í bílnum sem fylgir okkur eftir með farangurinn. Hjólið var sótt og sett á bíl og það flutt á verkstæði í Amarillo. Það mátti ekki miklu muna að þarna yrði stórslys og allir voru vitanlega mjög sjokkeraðir eftir þessa reynslu.

Á meðan þetta gekk á beið restin af hópnum eftir okkur á stað í smábænum Adrian sem sagður er vera á miðri leið á milli Chicago og LA enda er staðurinn nefndur Midpoint út af staðsetningunni. Þarna er rekið kaffihús og veitingastaður á sviðaðan hátt og gert var þegar Route 66 var og hét. Þegar þessum áfanga er náð er orðið styttra á vesturströndina en til Chicago.

Bíll á staurÞegar hér er komið sögu vorum við að verða talsvert á eftir upphaflegri áætlun dagsins. Því var haldið frekar greitt af stað til New Mexico í gegnum bæinn Tucumcari og stoppað næst á bílasafni í bænum Santa Rosa. Sá hluti Route 66 sem liggur í gegnum bæinn var notaður við myndatökur á Þrúgum reiðinnar eftir John Steinbeck. Í bílasafninu er fjölmargir gamlir bílar og ýmislegt forvitnilegt að sjá.  Við stöldruðum þarna við í dágóða stund en síðan var haldið sem leið lá til Santa Fe með einu bensínstoppi í Las Vegas. Hérna ætlum við að vera á morgun og ekki er nein ákveðin dagskrá fyrir hópinn. Mér sýnist við fyrstu sýn að það verði vandræðalaust að eyða hér einum degi. Á leið okkar á hótelið sem er alveg í miðbænum var ekki margt að sjá sem minnir á amerískar borgir. Ég sé fram á að eiga hér mjög fróðlegan dag á morgun.

Landslagið hefur tekið miklum breytingum í dag. Við byrjuðum á sléttlendinu í Texas þar sem tún og akrar voru svo langt sem hægt var að sjá, allt marflatt og hvergi hæð að sjá. Þegar við komum í útjaðar Texas fór landið að verða öldóttara og allur gróður að verða strjálli og virka þurrari. Í New Mexico tók síðan eyðimerkurgróður og runnar við og fjöll fóru að koma í ljós. Þegar við nálguðumst áfangastað fór meira að sega að sjást hér snjór í fjöllum.

Nú ætla ég að hætta þessu í bili og fara að koma mér í svefninn eftir verulega viðburðaríkan dag. Pétur er löngu sofnaður í næsta rúmi og ég ætla að drífa mig  að hjóla með honum í draumalandinu.

Myndir dagsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Adam Ásgeir Óskarsson

Höfundur

Adam Ásgeir Óskarsson
Adam Ásgeir Óskarsson
Kerfistjóri í orlofi.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Draugaskip ?
  • Flottur di
  • Sæll og glaður
  • Útsýni frá gististaðnum í Jeddore
  • Charlo - Jeddore

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 555

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband