16.5.2008 | 06:53
Los Angeles (Dagur 16)
Í morgun var búið að ákveða að hitta Kaptein Guðmund Hilmarsson og hjóla með honum um Los Angeles og umhverfi. Okkur langaði að fara upp í fjöllin norðan og austan við LA. Við félagarnir byrjuðum á að fara á hótelið þar sem Gummi var í gistingu. Hann kom hingað á svipuðum tíma og við í gær en vegna kveðjuhófsins höfðum við ekki tök á að hittast fyrr en í morgun. Pétur ákvað að fara frekar og reyna að hitta fræga og fallega fólkið og lét Gumma eftir hjólið sitt. Við lögðum í fjallaferð á góðum tíma í morgun og náðum að hjóla rúmlega 200 mílur í fjalllendinu í kringum LA. Leiðin sem við fórum heitir Angeles Crest Highway og er US route 2. Vegurinn sjálfur er 66 mílur á lengd og nokkrir kaflar á leiðinni eru í yfir 7000 feta hæð. Við komum á staði þar sem enn var snjór í vegarköntum þótt hitinn í dag væri á góðri leið með að bræða hann. Að lokum komum við að stað þar sem slá var fyrir veginn og hann lokaður og hefur víst verið það í mörg ár samkvæmt greininni sem ég fann á Wikipedia. Í fjöllunum er mikill gróður, runnar, kaktusar og stór furutré. Greinilegt er að þarna hafa skógareldar farið um á nokkrum stöðum, slökkvibíll ók fram og aftur um veginn og nokkrir lögreglubílar voru þarna á ferðinni. Þessi vegur er með þeim skemmtilegri sem ég hef hjólað, ekkert nema beygur og hlykkir í fjallshlíðunum og mikið að gera. Það var ekki tími til að vera að virða fyrir sér umhverfið af hjólunum svo við stoppuðum á nokkrum stöðum á leiðinni upp og niður. Útsýnið var stórfenglegt og við sáum á eina hönd Los Angeles í allri menguninni sem svona stórri borg fylgir og á hina höndina var Mojave eyðimörkin.
Við lentum í mikilli umferð á hraðbrautunum á leiðinni á hótelið og ég sem hef verið að bölva umferðinni í Toronto. Hún er þó eins og rólegur dagur á Öxnadalsheiðinni miðað við það sem við vorum að fara í dag. Enduðum síðan daginn á því að sækja Pétur þar sem hann lá undir sæng, þreyttur eftir rápið í Hollywood og fara saman út að borða. Guðmundur fer til Luxemburg í fyrramálið en við þurfum að skila af okkur hjólunum og gera okkur klára í ferðina til Guelph. Þetta fer að verða góður tími á flakki og það verður gott að koma heim aftur.
Um bloggið
Adam Ásgeir Óskarsson
Tenglar
Tengdar síður
Nokkrar síður sem vert er að skoða
- Myndasíða Myndasíða
- Ásgeir Andri Adamsson Hér bloggar Ásgeir
- Óskar Helgi Adamsson Hér bloggar Óskar
- Lilý Erla Adamsdóttir Hér blogagr Lilý
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.