Jeddore - Halifax

Síðasti dagurinn okkar rann upp og nú var ferðinni heitið til Halifax þar sem við ætluðum að eyða deginum í að bíða eftir fluginu heim. Dora eldaði fyrir okkur eggin í morgun og við vorum komin af stað uppúr klukkan níu. Við fylgdum strandveginum áleiðis til Halifax og byrjuðum á því að fara á flugvöllinn og komum farangrinum okkar fyrir í geymslu þar. Þar á eftir ákváðum við að koma af okkur bílnum til að hafa smá tíma til vara ef eitthvað ófyrirséð gerðist. GPSinn fór með okkur af stað og við fundum staðinn þar sem bíllinn átti að fara. Mér til mikillar undrunar gekk þar allt fyrir sig eins og það átti að gera, það var að minnsta kosti einhver náungi sem tók að sér að koma bílnum í gám og ég vonast bara til að hann komist á götur Akureyrar eftir tvær vikur eða svo.

Draugaskip ?Restina af deginum notuðum við síðan til að túrhestast um Halifax. Við byrjuðum á að ganga um hafnarsvæðið en tókum okkur svo til og gengum upp í virki, Halifax Citadel sem er á hæð efst í miðbænum. Þar hafa varnir Halifaxborgar verið alla tíð og mikla saga tengda sögu Kanada er þar að finna. Því miður voru veðurguðirnir búnir að ákveða að þeir væru búnir að gera sitt fyrir okkur að sinni og það gekk á með skúrum svo ekki var gott að vera mikið úti. Mamma sem hefur ráð undir rifi hverju dró þá upp regnkápurnar (plastpokana) sem hún hafði hirt í Niagara ferðinni og þeir voru notaðir til að koma í veg fyrir að ferðafötin yrðu gegndrepa. Við gengum um og skoðuðum nokkrar sýningar á safninu áður en við fórum aftur niður í bæinn.

Sæll og glaðurÞar sem við vorum að bíða eftir að tíminn liði og við þyrftum að fara á flugvöllinn var ákveðið að skella sér í síðasta skiptið út að borða áður en farið yrði á völlinn. Fyrir valinu varð þetta fyrirtaks veitingahús sem bauð upp á allt mögulegt í kvöldmatinn. Þegar kom að því að velja sér bitana á diskinn gat ég einfaldlega ekki gert upp við mig hvort mig Flottur diskurlangaði meira í nautasteik eða humar svo ég varð bara að fá mér hvoru tveggja. Málið er að það verður sennilega bið á að maður verði í þessari aðstöðu svo því að vera að sjá eftir hlutunum. Fyrir Benna og Hauk Jóns set ég því mynd af síðustu kvöldmáltíðinni í Kanada hér inn á síðuna.

Nú sitjum við á flugvellinum í Halifax og það er klukkutími í að við eigum að fara út að hliðinu og það var því um að gera að koma frá þessari færslu. Nú er bara eftir að koma sér út í flugvél og halda heim á leið.

 Myndir dagsins.

 


Charlos - Black River Bridge - Sackville - Cape Breton - Jeddore

Charlo - JeddoreSíðan síðast höfum við lagt heilmikið að baki. Það hefur verið frekar stopult internetsamband hjá okkur þannig að bloggið hefur látið bíða eftir sér. Við tókum stefnuna suður á bóginn og vorum ákveðin í að taka einn rólegan dag. Römbuðum inn á mjög skemmtilegt minjasafn þar sem búið var að koma fyrir heilu þorpi sem sýndi hvernig líf og aðbúnaður Franskra landnema í Kanada var fyrstu árin eftir að miklir flutningar á fólki áttu sér stað hingað vestur. Þarna var virkilega gaman að koma og tíminn var mjög fljótur að líða. Áfram var haldið suður á bóginn og á endanum fundum við okkur annan sumarbústað til að vera í þá um nóttina. Þar var fínt að vera nema það var allt fullt af flugum og þær voru óvenjulega svangar þetta kvöldið. Við höfum ekki lengur tölu á hversu oft við höfum verið stungin í þessari ferð en það er greinilega gott í okkur blóðið.

Cap HopewellDaginn eftir var stefnan tekin á Bay of Fundy það er flói einn mikill sem gengur upp á milli New Brunswick og Nova Scotia. Þar eru mjög skemmtilegar jarðmyndanir sem hafa orðið til við rof sjávarfallanna en hvergi í heiminum er jafn mikill munur á flóði og fjöru og við þennan ágæta flóa. Fiskimenn þurfa að fara til veiða á flóði og koma aftur heim á flóði því þegar fjarar þarna út standa bátar þeirra á þurru og þeir komast hvorki lönd né strönd. Við fórum þarna niður í fjöru og gengum þar um góða stund eða þar til fór að falla að en þá gátum við fylgst með því hve hratt hækkaði í sjónum og allt fór á flot sem skömmu áður hafði verið þurrt land. Við yfirgáfum Fundy flóa og fundum okkur gistingu í bænum Sackville í eldgömlu Viktorírönsku húsi þar sem ég held að húsráðandi hafi verið jafn gamall húsinu eða þar um bil. Hann var einn heima kallanginn og hafði í mörg horn að lita þegar allt fylltist af gestum hjá honum. Húsið var flott og mikill stíll yfir því.

Myndir frá þessum dögum voru komnar inn.

Frá Sackville var stefnt til Nova Scotia. Við ókum með vesturströndinni og tókum því frekar rólega og stoppuðum á nokkrum stöðum á leiðinni því þarna er landslagið engu líkt og gaman að koma. Við vorum ákveðin í því að komast til Cape Breton fyrir kvöldið svo við tókum stefnuna þangað. Cape Breton er nyrsti partur Nova Scotia og er sérstök eyja sem tengd er við meginlandið með vegi og brú. Þar fundum við okkur gistingu í öðru Viktoríönsku húsi rétt við bæinn St Peters. Fólkið þar tók okkur eins og við værum ættingjar að koma heim eftir langa veru í burtu. Hjá þeim fengum við mjög góðar leiðbeiningar um hvað við ættum að sjá á meðan við værum á Cape Breton. Við höfðum hugsað okkur að fara og skoða Loisburg virkið á við norðausturströndina en ákváðum eftir samtal við húsráðanda og stíf fundahöld með fararstjórn að fara frekar og aka upp í þjóðgarðinn sem er nyrst á Nova Scotia. Leiðin sem liggur þar um er kölluð Cabot Trail og er ein fegursta leið sem við höfum farið í ferðinni. Húsbóndinn á heimilinu þar sem við gistum tjáði okkur að þessi leið væri þriðja fegursta leið um þjóðgarð í öllum heiminum. Það getur vel verið rétt hjá honum. Dagleiðin okkar var rúmlega fimm hundruð kílómetrar og tók okkur rétt um Humarellefu tíma að fara hana með þeim stoppum sem nauðsynlegt er að gera á þessari leið. Við sjáum ekki eftir tímanum sem fór í þessa ferð hún var hverrar mínútu virði. Á einum stað á leiðinni komum við þar sem skallaörn sat og virti fyrir sér árósa og beið eftir að sjá fisk í matinn. Við komumst út úr bílnum og gátum virt þennan glæsilega fugl vel fyrir okkur. Við reyndum síðan að komast nær honum en þá kom að honum styggð og hann flaug á brott. Við enduðum daginn á því að fara aftur á sama stað í mat og kvöldið áður. Þá fórum við í þessa líka fínu humarveislu en síðan við komum út að sjónum hefur nánast ekkert annað en fiskur komið til greina í matinn. Humarvertíðin stendur sem hæst hérna og ég held að ég hafi ekki í eina tíð étið jafn mikið af humri og þessa daga sem við erum búin að vera hér. Þetta er slíkur herramannsmatur að ég hef ekki einu sinni hugsað um nautin sem ganga hér um hagana.

Í dag erum við síðan búin að vera að færa okkur í áttina til Halifax. Ókum sem leið lá suður á bóginn og mestan hluta leiðarinnar erum við búin að vera að aka með austurströnd Nova Scotia. Hér eins og á flestum stöðum á leiðinni er allt vaxið skógi milli fjalls og fjöru. Mikinn hluta leiðarinnar erum við því búin að vera með skóginn meðfram veginum. Ströndin hérna er vogskorin og við erum búin að krækja fyrir ótal firði á leiðinni þar sem húsin eru alveg niðri í fjöru umlukin skógi og sjó með bryggju fyrir báta og flottheitum. Ég er búin að orða það annað slagið við Hugrúnu á leiðinni að hér væri Útsýni frá gististaðnum í Jeddoregaman að koma aftur og eyða eins og einu sumarfríi á þessum slóðum. Við erum enn eina nóttina í gömlu húsi en núna alveg við sjóinn hjá fólki sem hætt er að vinna og hefur smá aukatekjur af því að leigja út herbergi til ferðalanga. Það er alveg frábært að hafa þennan hátt á gistingu því manni er allstaðar svo vel tekið. Það er líka svo fróðlegt og gaman að tala við þetta fólk sem hefur búið á þessum stöðum langan tíma og getur svarað öllum þeim spurningum sem mann langar að fá svör við. Svo þarf ekki að taka það fram að maður fer ekki af burtu frá svona stöðum með tómann maga á morgnanna því maður vaknar venjulega við angan af steiktum eggjum og baconi. Ég hef ekki reynt að orða það við Hugrúnu að taka upp þennan matartilbúning fyrir mig á morgnanna eftir að við komum heim. Ég fengi sennilega einn á lúðurinn ef ég reyndi það. Dora sem við erum hjá í nótt veit ekkert um þessar pælingar mínar en er búin að lofa mér eggjum og tilheyrandi í fyrramálið.

Á morgun verður svo haldið áfram til Halifax og við höfum hugsað okkur að fara fyrst á flugvöllinn og koma farangrinum okkar þar í geymslu áður en við höldum niður í bæ og skoðum okkur þar um. Bílnum þarf síðan að koma í gám fyrir klukkan fjögur.  Ég vona að það takist allt því nú hef ég ekki sama tíma upp á að hlaupa í gámamálum og í Guelph um daginn. Ég hringdi í Eimskip á föstudaginn til að fá staðfestingu á að ég ætti pantaðan gám hjá þeim á mánudag. Þeir höfðu þá aldrei heyrt eitt orð á mig minnst þar, drengurinn sem ég hafði verið að tala við um gámana var hættur og hafði gert það mjög snögglega og ekki fannst tangur né tetur um að ég ætlaði að setja bílinn minn í gám á mánudag. Þessu var reddað og ég vona að það standist nú allt saman svo ég komist heim á morgun.

Það er hálf skrítið að þetta ár okkar hér í Kanada skuli nú vera að verða búið. Þetta hefur verið ótrúlega fljótt að líða og við erum búin að eiga hér mjög góða tíma. Minningarnar eiga eftir að fylgja okkur um alla framtíð og ég veit að við eigum eftir að koma hingað aftur þó sennilega verði það ekki til að vera í svona langan tíma. Við erum búin að vera í rúmar tvær vikur á ferðalagi að þessu sinni og okkur finnst við vera búin að sjá svo lítið af þessu stórkostlega landi sem Kanada er. Nú bíður Ísland eftir okkur og við erum öll farin að hlakka mikið til að koma aftur heim.

Myndir frá síðusta bloggi.


Ottawa - Québec - St. Simeon - Charlo

Ottawa - CharloEins og sjá má á fyrirsögn þessarar færslu og myndinni hér til hliðar er þetta ekki nein smá vegalengd.  Við erum samt ekki búin að fara þetta í einum áfanga heldur gerðum við það í þremur törnum. Fyrsti leggurinn var frá Ottawa til Québec borgar, þaðan var farið til St. Simeon við norðanvert St Laurent fljót. Ferja tekin þaðan yfir ánna í morgun og haldið áfram í genum Québec fylki yfir til New Brunswic til smábæjarins Charlo þar sem við ætlum okkur að vera í nótt. Það var á dagskrá að fara hratt yfir á milli Ottawa og Québec, sleppa Montreal alveg ur myndinni í þetta skiptið. Við Hugrún vorum þar í fyrra og þóttumst vera búin að sjá það sem skipti máli þar. Með því að fara hröðustu leið þarna á milli gátum við verið komin á góðum tíma til Québec borgar og tekið þar þátt í þeirri miklu veislu sem fer þar fram þessa dagana. Borgin er 400 ára í ár og ákveðið var að halda ærlega afmælisveislu. Við komum þar seinnipartinn á sunnudag og það er langt síðan ég hef séð annað eins mannlíf og var þar á götunum. Hljómleikar og listamenn frömdu listir sínar á hverju götuhorni og allt var pakkað af fólki. Allir voru í verulega góðum gír og greinilegt að allir skemmtu sér konunglega. Við vorum á flakki langt fram í myrkur og enn einn daginn léku veðurguðirnir sér við okkur.

Í Qubéc vorum við verulega óheppin með gistingu. Ég hafði pantað gistingu á gistihúsi sem var á besta stað í bænum og heitir Á l'étoile de Rosie sem lauslega snarað yfir á ensku heitir At the star Rosie. Ég átti heldur betur von á góðu en þegar við mættum á svæðið hjá Rósu var virkilega ekkert sem gat minnt á þetta fallega nafn, hvað þá á blómið. Ég var þarna búinn að leigja kjallaraholu sem var hreinlega verri en margir verstu veiði- fjallakofar sem ég hef gist í í gegnum tíðina. Það eina sem var í lagi var að rúmfötin voru hrein. Annað var skítugt og rakt og kjallarinn hinn óvistlegasti á allan hátt. Vegna þess að við vorum með hrein rúmföt og ætluðum alls ekki að dvelja langdvölum í þessari íbúð þá ákváðum við að láta slag standa og gista þarna eina nótt. Það er mjög erfitt að finna húsnæði í borginni þessa dagana og því úr vöndu að ráða. Við breyttum hins vegar áætlun okkar en upphaflega stóð til að vera tvær nætur í Québec. Við skráðum okkur út hjá Rósu strax morguninn eftir, lögðum bílnum í bílastæði í bænum og skoðuðum það sem við ætluðum okkur að skoða í borginni.

Auberge Sur MeerEftir skoðunarferðir um Québec var haldið af stað aftur og nú lá leiðin til ferjustaðarins St. Simeon við norðanvert St Laurent fljót. Þar gistum við á þessu líka fína móteli Auberge Sur Meer með flottu útsýni yfir fljótið í allar áttir. Mér finnst það svo sem vera spurning hvort á að tala þarna um fljót eða sjó því það tekur rúman klukkutíma að sigla þarna þvert yfir og maður sér ekki bakka á milli nema í mjög góðu skyggni.

Í morgun var síðan farið í ferjuna og siglt yfir til Riviere Du Loup og haldið áfram í suðausturátt. Þetta er fyrsti dagurinn sem við lendum í rigningu þannig að það var frekar lítið um stoppstaði á leiðinni og við ákváðum að keyra frekar út úr rigningunni.  Við ókum eftir gríðarlega fallegum dal, Matapedia dalnum þar sem samnefnd á rennur. Þessi á er talin vera ein af betri laxveiðiám í Québec fylki og það mátti mjög víða sjá veiðimenn munda flugustangir við ánna eða á ánni úr kanóum sem greinilega eru notaðir mikið við veiðar þarna. Ég hefði gjarna viljað vera lengur á þessum slóðum en það má ekki drolla lengi á hverjum stað því það er talsvert eftir ennþá.

CharloNúna erum við búin að hola okkur inn í fínan sumarbústað á ströndinni rétt við smábæinn Charlo í New Brunswick. Landslagið er búið að vera mjög fjölbreitt á leið okkar í gær og í dag. Stórann hluta leiðarinnar höfum við verið í skógi en við erum líka búin að fara um fjöll og dali, koma við á skíðasvæðum, fara í kringum vatn á malarvegi. Við höfum haldið okkur frá hraðbrautum og notið þess að aka um þetta stórkostlaga land og náttúru sem hér er.

Til að gera ekki alla hundleiða á að lesa þetta þá ætla ég að fara að segja þetta gott. Ástæða þess að ég hef ekki sett neitt hér inn síðustu tvo dagana er að internetsambandi hefur ekki verið upp á marga fiska þar sem við höfum verið síðustu tvær nætur og ég hef því ekki komist til að blogga.

Myndir þessara daga eru í einu og sama albúminu og þær eru nokkuð margar.


Ottawa

Við þjóðminjasafnið í OttawaOttawa, höfuðborg Kanada hefur skartað sínu fegursta í veðurblíðunni í dag. Við erum búin að vera á ferðinni síðan í morgun. Gististaðurinn okkar er á besta stað, alveg í miðbænum. Því er göngufæri á alla helstu staðina sem við vildum nota daginn í að skoða. Á fundi með fararstjóra í gærkvöldi var ákveðið að fara ekki af stað fyrr en klukkan níu í morgun. Að loknum vel útilátnum morgunverði var stefnan tekin á túristastrætó sem ákveðið var að fara með hringferð um bæinn en hoppa úr á nokkrum stöðum á leiðinni. Við vorum mætt á þjóðminjasafn þeirra Kanadamanna eða Canadian Museum of Civilization með þeim fyrstu sem hleypt var þar inn í morgun. Það safn er engu lagi líkt. Byggingin í fyrsta lagi Víkingaleiðirer einstök. Hún er hönnuð þannig að hvergi í útlínum hennar er rétt horn. Það er gert vegna þerrar trúar frumbyggjanna að illir andar ættu auðvelt með að fela sig í hornum og því eru allar útlínur hússins bogadregnar. Þakið er að hluta til eins og eintrjáningur á hvolfi og eru myndir á myndasíðunni sem Eins á litinnsýna þetta vel. Hver sýnigin af annarri var í safninu og þær voru hver annarri betri. Saga Kanada frá komu víkinga til dagsins í dag var sögð á einstaklega skemmtilegan hátt og við einfaldlega gengum í gegnum söguna og lásum okkur til um hana og fræddumst í leiðinni. Okkur þótti gaman að sjá landakort fyrst á göngunni þar sem sýndar voru leiðir sem Leifur Heppni og félagar fóru þegar þeir komu að landi hér fyrir vestan. Öll nöfn á löndum voru á íslensku, með íslensku stöfunum og öllu tilheyrandi. Ég hef haldið því fram við alla sem ég hef rætt þessi mál við í vetur að Íslendingar hafi fundið Kanada og haft gaman af þeirri umræðu því það hafa ekki allir verið með þetta á hreinu. Nú get ég einfaldlega farið að benda á þjóðminjasafnið máli mínu til stuðnings.

Eftir þjóðminjasafnið var áfram haldið í strætónum og nú lá leiðin að bústað landstjórans og forsætisráðherrans sem nú situr, Stevens Harper. Við landstjórabústaðinn var verið að skipta um verði og ég var feginn fyrir hönd þeirra sem voru að losna af vaktinni og vorkenndi þeim sem voru að taka við. Ég get ekki ímyndað mér að það sé eftirsóknarvert hlutverk að vera á svona vöktum, dúðaður í bjarnarskinn og þykka búninga, hitinn 27 stig í dag og ég sá eftir að vera ekki í stuttbuxunum.

Þinghúsið í OttawaÁfram var haldið og næsta stopp var við þinghúsið. Það er mikil bygging og merkilega gömul að sjá miðað við að lokið var við að byggja hana árið 1927. Við fórum þar upp í klukkuturn eða friðarturninn þar sem gott útsýni var yfir alla miðborgina og byggingar sem þar eru. Við sáum líka mjög vel yfir Ottawa ánna sem rennur á fylkjamörkum Ontario og Quebec. Mæst var haldið á markaðinn og smakkað á þjóðarréttinum, Beaver Tail, sem er djúpsteikt deigkaka sem síðan er kaffærð í hlynsýrópi og dísætu gúmmelaði. Við litum á þetta sem forrétt fyrir steikina sem átti að koma á eftir.

Eldað af blindum kokkiStaðurinn Svarti Tómaturinn varð fyrir valinu sem veitingastaður dagsins. Við sátum þar úti í garði og áttum góða stund eftir mjög skemmtilegan dag. Maturinn var aldeilis magnaður og nautalundin grilluð  alveg eins og hún átti að vera. það sem er einna sérstakast við þennan frábæra veitingastað er að kokkurinn er blindur og hefur ekki hugmynd um hvernig réttirnir sem hann er að elda líta út. Hann var víst einhverja daga að átta sig á því hvar hlutirnir voru geymdir í eldhúsinu og varða að setja nokkuð strangar reglur um hvar ætti að geyma hnífana.

Myndir þessa frábæra dags eru á myndasíðunni.


Huntsville - Ottawa

Huntsville - OttawaLeiðin frá Huntsville til Ottawa er algerlega þess virði að eyða heilum degi í að fara hana. Það hefði mjög auðveldlega verið hægt að vera lengur að fara þessa leið og stoppa á mun fleiri stöðum en við gerðum á leiðinni. Þjóðgarðurinn Algonquin Park var fyrsti áfangi leiðarinnar. Garðurinn er nefndur eftir indíánaættflokki sem bjó á þessum slóðum áður en land var numið af hvítum mönnum. Ótrúlega flottur þjóðgarður með ótal gönguleiðum, vötnum, dýralífi, hæðum og hólum og öllu sem þarf til að gera þjóðgarð að þjóðgarði í hæsta gæðaflokki. Ontaríobúar fara mikið í þennan þjóðgarð og stunda útivist, gönguferðir, kanóferðir, hjóltúra, veiði og ég veit ekki hvað og hvað. Þarna væri gaman að koma aftur seinna og ferðast um garðinn sjálfan og gefa sér nokkra daga í það. Við erum reyndar búin að sjá mjög marga staði á leiðinni sem það sama gildir um og greinilegt er að Ontario býður upp á mikla möguleika á því að komast í samband við ósnortna náttúru með skóglendi og skemmtilegheitum. 

Við stoppuðum á nokkrum stöðum í þjóðgarðinum, fórum í stuttar gönguferðir, borðuðum nestið okkar á vatnsbakkanum, skoðuðum listasafn og kíktum á safn um skógarhögg. Allt var þetta frábært og enn einn daginn var veðrið í liði með okkur. Glampandi sól og 24 stiga hiti.

HellafararÞegar við höfðum komið okkur í gegnum þjóðgarðinn lá leiðin áfram eftir þjóðvegi 60 áleiðis til Ottawa. Við gerðum stopp í hellum sem á hefur grafið í setlög á jaðri Ottawa dalsins. Þar er að finna glás af steingervingum sjáfarlífvera og skelja sem benda til þess að fyrir einhverjum milljónum ára hafi verið hitabeltisveðurfar á þessum slóðum. Þessir hellar heita Bonnechere Caves og þykja merkilegir á margan hátt. Strákur sem fór með okkur þar niður sagði mjög skemmtilega frá sögu þeirra og tilurð og var virkilega gaman að fara þessa ferð.

Við komum síðan til Ottawa rétt um kvöldmat og skráðum okkur á Gasthaus Switzerland hjá Sabrinu sem verður við eldavélina fyrir okkur í fyrramálið. Sumarhúsið sem við gistum í síðustu nótt bauð ekki upp á slíka þjónustu þannig að við þurftum að rifja upp kúnstina að gera kaffi og sjá um morgunmatinn ofan í sig.

Ottawaer stórborg með tæplega 800.000 íbúa og hér verður gaman að ganga um götur á morgun, skoða söfn og mannlíf og njóta þess að vera til á svona stað. Morgundagurinn stefnir því í að vera öðruvísi en dagarnir sem við höfum átt í uppsveitum Ontarío.

Sudbury - HuntsvilleVegna þess að netsambandið var svo leiðinlegt í gær gat ég ekki sett inn mynd af leiðinni sem við fórum svo hún er hér til hliðar.

Myndir dagsins í dag eru hér.

Í gær voru þessar myndir teknar.


Sudbury -Huntsville (Colonial Bay)

Leiðin i dag var fra namubænum Sudbury til Huntsville þar sem viðfundum okkur þennan lika fina sumarbustað til að gista i. Leiðin var ekki mjög löng i dag og við gafum okkur tima til ad stoppa a nokkrum skemmtilegum stöðum a leiðinni. Landslagið var sibreytilegat alla leiðina og við horfðum a skoginn verða grænni og tren verða stærri eftir þvi sem við komum lengra fra mengunarsvæðunum við Sudbury. I Huntsville sem er staður a stærð við Akureyri gafum við okkur goðan tima til að skoða okkur um og ganga aðalgötuna fram og aftur. Huntsville er virkilega flottur bær með alvöru miðbæ og öllu tilheyrandi. Fundum okkur siðan þennan lika fina stað til að gista i nott. Vid erum alveg niðri við litið stöðuvatn þar sem gott er að vera með bata og allskonar tol og tæki til að leika ser a vatninu.

Það eina sem er að er nettengingin a staðnum er ekki að gera sig og eg  læt þetta þvi duga að sinni.

Myndirnar koma a morgun. 


Sault Ste. Marie - Sudbury

Sault Ste. Marie - SudburyVið lögðum af stað á góðum tíma í morgun og ókum sem leið lá til Sudbury sem er mikill námuvinnslubær norðastan við Huron vatn. Borgin er um margt merkileg en er fyrst og fremst þekkt fyrir námuvinnslu sem hér fer fram. Nikkel er aðalmálmurinn sem unnin er hér. Talið er að loftsteinn hafi endur fyrir löngu lent í árekstri við jörðina á þessum stað og hann hafi verið mjög ríkur af málmum sem hafa verið grafnir hér upp í mörg ár. Málbræðslurnar hafa í gegnum tíðina haft mjög mikil áhrif á allt umhverfi borgarinnar. Skógar voru allir horfnir á stóru svæði hér í kring en nú hefur verið mikil vakning í umhverfismálum og verið er að græða allt upp sem hægt er og dregið hefur verið verulega úr allri mengun.

Fullt af nöglumHér er stórskemmtilegt vísindasafn, Science North sem við fórum að skoða og gátum gefið okkur góðan tíma til að fara í gegnum. Þar var margt  mjög skemmtilegt að sjá og hlutirnir settir upp á frábæran hátt. Maður gat fiktað í öllu, skoðað jafnt með höndum og augum og haft gaman af öllu saman. Það hefði verið gaman að fara þarna með krakka og leyfa þeim að leika sér að vísindunum. Eins og sjá má á myndinni hér til hliðar stóðst ég ekki mátið og prófaði að leggjast á naglarúm og fílaði mig eins og indverskur gúrú á meðan. Lagði samt ekki í að snúa mér á hliðina eða setja mig í aðrar stellingar. Það hefði geta endað með einhverjum aukagötum hér og þar.

Við komum okkur fyrir á góðu gistiheimili í smábænum Azilda rétt utan við borgina og ætlum okkur að eiga notalegt kvöld og góðan nætursvefn.

Myndir eru komnar inn á netið.


Agawa Canyon

Í dag er þjóðhátíðardagur Kanadamanna og flestir taka sér langa fríhelgi af því tilefni. Við ferðalangarnir ákváðum að fara í lestarferð og skoða stað hér norður af Sault Ste. Marie sem heitir Agawa Canyon. Þar hafa orðið hreyfingar á jarðskorpunni og heljarmikið gljúfur myndast. Þarna fórum við með gamalli lest sem hefur greinilega farið margar ferðir á þessar slóðir áður. Lestin var dregin af tveimur eimreiðum og samanstóð af nokkrum farþegavögnum eldhúsvagni og matarvagni.  Ferðin tók rúmlega þrjá tíma hvora leið og landslagið sem við fórum um væri meira og minna stórbrotið alla leið var farið mikið  um svæði þar sem skógurinn var yfirgnæfandi og lítið sást annað en grænn litur en hann var reyndar mismunandi grænn eftir því hvaða trjátegund var yfirgnæfandi. Ég get svarið að ég hef aldrei séð annað eins magn af trjám og í dag.

Þegar við komum í þjóðgarðinn sjálfan voru margar gönguleiðir út um allar trissur og við fórum meira og minna um allt svæðið til að skoða það helsta. Þetta var hressandi ganga eftir lestarferðina og ekki skemmdi veðrið neitt sérstaklega fyrir enda var glampandi sólskin í allan dag og hitinn eftir því. Maður var því orðinn vel heitur þegar göngunni lauk.

Komum aftur í bæinn passlega til að fá okkur góða steik í kvöldmatinn. Kvöldið var svo fremur rólegt þar til bæjarbúar fóru að skjóta upp flugeldum af miklum móð og kyrjuðu síðan O Canada á eftir öllu saman. Við fórum reyndar ekki á svæðið en fylgdumst aðeins með út um gluggana hérna hjá Maríu.

Myndirnar


Garden River

Erich með einn vænanÉg er búinn að vera í allan dag í veiðiferð með Erich. Áin sem við vorum að veiða í heitir Garden River og er austan við Sault Ste. Marie. Þetta er búinn að vera meiriháttar dagur og vantaði ekkert upp á það nema fiskurinn sem við vorum að veiða hefði gjarna mátt vera aðeins stærri. Við og fórum á nokkuð marga staði í ánni og veiddum nokkra fiska á flestum þeirra. Áin rennur um skógi vaxinn dal og umhverfi hennar er einstaklega fallegt og mikið dýralíf. Þar sem við fórum um rákumst við á dádýr, kanínur, bjóra og rákumst á talsvert af slóðum eftir elgi og birni en vorum ekki svo heppnir að sjá þessar skepnur í dag. Erich kom og sótti mig klukkan átta í morgun og þá var María búin að elda þennan líka fína morgunmat handa mér. Við þurftum að keyra í tvo og hálfan tíma til að komast á fyrsta veiðistað. Trukkurinn sem Erick var á hefur séð sitt af hverju í veiðiferðum og vera ekið um skóginn eins og hann væri skriðdreki. Mér leyst ekki alltaf á þegar við ókum eftir fjórhjólaslóðum í skóginum en Erich vissi greinilega hvert hann var að fara og var ekki að fara um þessar slóðir í fyrsta skipti. Við vorum komnir aftur til baka klukkan að verða hálf tólf og Hugrún og mamma voru báðar farnar að sofa þegar ég kom inn svo ég veit ekki enn hvað þær höfðu fyrir stafni í dag.

Örfáar myndir frá því í dag.


Tobermory - Sault Ste. Marie

Tobermory Sault Ste. MarieMonica stóð sig eins og hetja með morgunverðin í morgun. Það var hlaðið borð með eggjum, beikoni, ávöxtum af öllum gerðum. Það var ekki hægt annað en standa á blístri þegar maður stóð upp frá borðum. Við kvöddum Monicu og héldum í átt að ferjunni sem siglir á milli Tobemory og South Baymouth. Á leiðinni skoðuðum við safn þar sem Tobemory þjóðgarðurinn var krufinn til mergjar.

Ferjusiglingin var róleg og tók einn og hálfan tíma. Við sátum úti á dekki alla leiðina og sleiktum sólina sem skein á okkur í allan dag. Það var búið að spá rigningu en ég gat ekki talið nema fimm eða sex dropa á framrúðunni á leiðinni.

Þegar við komum í land úr ferjunni vorum við stödd á eyjunni Manitoulin sem er fræg fyrir það að vera stærsta eyja í ferskvatni á jörðinni. Ekki nóg með það heldur er á þessari eyju stærsta vatn á ferskvatnseyju í heiminum. Þessi eygja er skógi vaxin milli fjalls og fjöru og landslagið þarna er einstaklega flott. Þar sem við komum ekki í land fyrr en klukkan að ganga tvö áttum við í raun alla dagleiðina eftir svo við stoppuðum ekki víða á leiðinni heldur tókum stefnuna beint á Sault Ste. Marie og vorum komin þangað rétt um klukkan sjö. Skráðum okkur inn þetta líka fína gistihús og stefnum á að vera hér í þrjár nætur. Marie nokkur ætlar að taka að sér að elda morgunmatinn ofan í okkur þá morgna sem við verðum hér.

Í kvöld skildi ég mömmu og Hugrúnu eftir og fór að hitta Erich nokkurn Eppert sem er giftur frænku Claudiu og þá um leið frænku minni langt aftur í ættum. Erich þessi er sannkallaður þúsundþjalasmiður og fæst við ýmislegt. Hann smíðar lystilega fallega kajaka og kanóa úr viði, hann smíðar veiðistangir úr bambus, hnýtir flugur, keppir í bogfimi, veiðir allt sem hægt er að veiða og dundar svo eitthvað annað þess á milli. Ég var hjá þeim hjónum í góða stund í kvöld og hann sýndi mer það sem hann er að fást við. Í stuttu máli sagt þá erum við að fara að veiða saman á morgun. Hann kemur og sækir mig í fyrramálið og við ætlum að fara í heljarinnar veiðitúr.

Nú er klukkan orðin margt og ég verða að fara að hvíla mig fyrir strangan dag á morgun.

Myndir dagsins í dag eru hér.

Myndirnar frá í gær eru svo hér en ég hafði ekki tækifæri á að setja þær inn í gærkvöldi.


Næsta síða »

Um bloggið

Adam Ásgeir Óskarsson

Höfundur

Adam Ásgeir Óskarsson
Adam Ásgeir Óskarsson
Kerfistjóri í orlofi.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Draugaskip ?
  • Flottur di
  • Sæll og glaður
  • Útsýni frá gististaðnum í Jeddore
  • Charlo - Jeddore

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband