Guelph - Tobermory

I morgun var klarad ad ganga fra husinu og vid logdum af stad a godum tima i morgun. Byrjudum a ad koma vid hja Wilhelm og Onnu. Wilhelm var buinn ad fara ut i morgun og veida godan silung sem vid snaeddum steiktan a ponnu i smjori og tilheyrandi. Thad er alltaf jafn frabaert ad koma til theirra. Vid gengum um landid theirra og thad er svo gaman ad sja hvad hann lifir sig inn i ad segja fra thvi sem hann er ad raekta og gera a thessum frabaera stad. Thad er alltaf komid fram vid mann eins og madur se konungborinn og heimsoknir til theirra hjona eru eingu likar.
Stefnan var sidan tekin afram i nordur og nu erum vid stodd vid Huron vatnid a skaga sem heitir Bruce. Rett hja er stadurinn Tobermory thar sem vid komum til med ad taka ferjuna i fyrramalid. Her er otrulega fallegt og allt er grodri vaxid gersamlega nidur ad vatnsbordinu. Plonturnar vaxa bokstaflega upp ur grjotinu i fjorunni. Vid erum i gistingu hja Thyskri konu, Monicu nokkurri sem er buin ad fraeda okkur um sitt af hverju. Medal annars um nagrannaerjur a svaedinu og fleira i theim dur. Hun leyfdi mer ad nota tolvuna sina til ad skrifa thessa faerslu sem verdur frekar stutt i kvold. Stefnan er ad vakna a godum tima i fyrramalid og Monica er buin ad bjodast til ad elda fyrir mig begg og eikon med ollu tilheyrandi.
Myndir verda vonandi settar a sinn stad a morgun.

Lagt af stað í ferðalag

Nú erum við búin að ganga frá húsinu, gera hreint út úr dyrum og eigum bara eftir að vera hér eina nótt. Við erum í dag búin að vera að dunda okkur við að klára það sem við áttum eftir hér í Guelph. Bíllinn nýsmurður og fínn, tilbúinn í ferðalagið framundan. Það eina sem eftir er er að skila módeminu og láta aftengja internetið. Þetta verður gert í fyrramálið og svo verður haldið af stað. Við byrjum á að heimsækja Wilhelm vin minn og Önnu konu hans. Þar stendur til að veiða fisk í matinn og dvelja í nokkra tíma áður en haldið verður norður Bruce skagann til Tobermory þar sem við ætlum okkur að vera næstu nótt. Við erum búin að panta okkur gistingu hjá Monicu nokkurri sem rekur gistiheimili á staðnum og hún er búinn að lofa mér góðum morgunverði á sunnudaginn. Síðan liggur leiðin áfram í norður og reyndar til vesturs. Ég veit að þetta er ekki í áttina heim en hugmyndin er að koma við á stöðum sem hafa lengi verið á óskalistanum.

Ég mun reyna að koma inn færslum og myndum úr ferðinni eins og ég get svo þeir sem vilja og nenna geta fylgst með ferðalaginu. Ég er ekki viss um að allir gististaðir okkar á leiðinni séu með nettengingu en það kemur bara í ljós.


Gámurinn farinn

Síðustu dagar hafa einkennst af mikilli bið eftir að fá gám til að flytja dótið okkar heim. Hann kom loksins á svæðið í gærkvöldi og ég ákvað að nota tímann vel og byrjaði strax að stafla kössum og koma dóti upp í gáminn. Ég sá fram á mikið puð því gámurinn kom á vagni og hæðin upp í hann var hvorki meiri né minni en 130 cm. Engar brautir fylgdu með þannig að öllu þurfti að lyfta upp í þessa hæð. Ég sá fram á að ég ætti ekki möguleika á að koma nokkrum hlutum upp í gáminn einn og sjálfur. Ásgeir var búinn að redda málinu áður en hann fór, vinur hans var tilbúinn að koma og hjálpa mér með þyngstu hlutina. Sá heitir Andre og er Rúmenskur. Hann var mættur hér klukkan átta í morgun og hafði tíma til klukkan tíu en þá þurfti hann að vera mættur eitthvað annað. Þessi drengur reddaði mér algerlega. Grillið og trjábolurinn frá Burlington gerðu það að verkum að ég fann til í bakinu bara við hugsunina um að koma þessu upp í gáminn. Allt hafðist þetta svo að lokum og bíllinn sem átti að taka gáminn átti að koma klukkan 3 og koma honum til Toronto þar sem hann á að fara með lest til Halifax. Malið var samt að ég átti eftir að fara út í bæ og sækja Harleyinn og koma honum upp í. Ég var búinn að semja við náunga sem rekur mótorhjólaverkstæði hér í bæ að láta mig hafa bretti sem hægt var að festa hjólið á og lyfta síðan með lyftara á sinn stað í gámnum.

Þegar bílstjórinn kom loksins, klukkutíma of seint þá hafði hann ekki hugmynd um að hann ætti eftir að fara út í bæ að sækja þar eitt stykki mótorhjól. Hann varð hundfúll þegar hann heyrði þetta en féllst á að fara þetta eftir að vera búinn að hringja og sannfærast um að ég hefði talað um þetta´strax í gær þegar gámurinn kom. Ég vissi þá að sá sem ætlaði að setja hjólið í gáminn var ekki á verkstæðinu og ekki væntanlegur næsta hálftímann eða svo. Vinurinn á trukknum elti mig á verkstæðið og ég reyndi að keyra eins hægt og ég gat til að tefja tímann. Vinurinn varð ennþá fúlli að þurfa að bíða eftir lyftaranum og róaðist ekki fyrr en hann var búinn að halda miklar ræður um hvað ég þyrfti að borga fyrir svona tafir. Ég benti honum á að ég væri búinn að bíða eftir þessum blessaða gámi í 48 tíma og væri bara venjulegur gaur að reyna að flytja draslið sitt heim til Íslands. Hann hefði þar að auki komið klukkutíma seinna en samið var um og ég væri alveg til í að borga það sem mér bæri fyrir svona þjónustu. Síðan reyndi ég að gauka að honum nokkrum dölum fyrir ómakið og bauðst til að sækja handa honum gos. Hann vildi ekki þiggja múturnar né gosið en breyttist mjög í viðmóti eftir þessi ræðuhöld mín.

Loksins mætti lyftarinn svo á svæðið og hjólinu var komið á sinn stað í gámnum og hann fór af stað til Toronto. Ég vona síðan bara að allt þetta skili sér allt heim fyrir haustið. Ég verð að segja að ég var dauðfeginn að þessum kafla í heimferðinni er loksins lokið.

Við áttum notalegt kvöld með David og Claudiu

Nú liggur leiðin beint í bælið og ég vona að ég sofni fyrir strengjum. Á morgun er síðan lokadagurinn okkar hér í Paulstown og það verðu í mörgu að snúast við að ganga frá síðustu lausu endunum og klára þetta tímabil okkar hér í Guelph.

Ég þarf að láta aftengja netið há morgun og veit ekki hvenær við verðum næst í sambandi. Ég mun reyna að setja inn einhverjar færslur og myndir inn á síðurnar á meðan ferðalaginu stendur þegar ég kemst í samband við netið.


Gámurinn kominn - Elli farinn

Það er búið að vera svo að við lítið stress á mínum síðustu dagana. Þegar ekki kom fór hann strax að tala um að við pökkuðum draslinu og settum það sjálfir í gáminn. Ég ætlaði mér að fara í þetta mál þegar gestirnir væru farnir og var í þeim tilgangi búinn að semja við flutninga og pökkunarfyrirtæki hér í nágrenninu til að koma og aðstoða mig. Þeim var tilkynnt um að við þyrftum ekki á þeim að halda því við ætluðum okkur að leysa málið sjálfir. Smá fýla í þeim út af þessu en það gerir ekkert til. Ég hef áður gert menn fúla í kring um mig og komist upp með það.

Næstu aðilar sem voru kallaðir til eru Icexpress og þeir eru með allt sitt úthald í New York. Fyrst var ekki hægt að útvega okkur gám á þeim tíma sem við þurftum á að halda en svo hefur einhver heima frétt af þessu og gefið skipanir til New York að þessum manni þyrfti að redda hið snarasta. Ég áttu nú að geta fengið gáminn hingað heim á þriðjudag. Þetta passaði fínt því Elli átti ekki að fara fyrr en í dag. Í gær var hringt rúmlega þrjú og tilkynnt um að nú væri gámurinn á leiðinni og að birtast á hverri stundu. Við biðum, og biðum, og biðum. Allir voru hættir að vinna og ekki hægt að ná í neinn til að fá upplýsingar. Klukkan níu í morgun fór ég að hringja í allar áttir og var þá allt í einu kominn með mann í Halifax sem átti að vita allt um þetta. Hann lofaði mér gámnum og við fórum aftur að bíða og vorum farnir að finna okkur eins og í gíslingu að bíða eftir gámi sem aldrei kom. Klukkan að verða fjögur náði ég loksins í gaurinn aftur og þá fékk ég einhverjar útskýringar á að bílstjórinn sem átti að taka gáminn sveik allt og alla í gær en ég myndi fá gáminn fyrir klukkan átta í kvöld.

Það stóðst á endum að ég var búinn að keyra alla sem ætluðu að hjálpa mér Til Toronto í flug til Íslands. Þegar ég kom úr þeirri ferð var gámurinn enn ekki kominn og nú var ég um það bil að byrja á tánöglunum líka. Loksins rétt fyrir átta kemur hér vörubíll með gám og ég gat farið að leggja frá mér dagskránna sem ég var að búa mér til fyrir morgundaginn Í staðinn fór ég og byrjaði að stafla og púsla dótinu okkar í gáminn. Ég er búinn með það mesta af smádraslinu en vinir Ásgeirs ætla að koma í fyrramálið og hjálpa mér við stóru og þungu hlutina. Vonandi verður þetta allt komið á sinn stað þegar bíllinn kemur á morgun að sækja gáminn aftur. Við þurfum að skreppa einn í bæinn á trukknum því Harleyinn er úti í bæ þar sem búið er að koma honum á bretti og gera hann kláðann í að lyfta honum upp í gáminn,

Svo er bara að bíða eftir að leggja af stað í ferðalagið, í áttina heim.


Toronto

CN turninnÍ dag brá restin af Adamsfjölskyldunni sér til Toronto ásamt gestum. Þessi ferð var ákveðin fyrir löngu og til stóð að fara og skoða gamlar bruggverkmiðjur sem búið er að breyta í alls konar gallery og vinnustofur listamanna af ýmsu tagi. Þarna er mjög gaman að koma og mannlífið óskaplega skemmtilegt. Enginn er svikinn að koma þarna við og tíminn er fljótur að líða á svona stað. Við röltum um svæðið og skoðuðum alls kyns list og fylgdumst með fólki sem þarna var á ferðinni, fengum okkur að borða og spjölluðum við listamenn sem voru að vinna að verkum sínum.

Eftir bruggverksmiðjurnar var haldið í heimsókn til Haraldar Bessasonar og Margrétar Björgvins. Á þeim var tekið hús og áttum við góða stund á pallinum í bakgarðinum hjá þeim þar sem drukkið var kaffi og spjallað saman um stund.

Við gátum ekki stoppað lengi hjá þeim því enn var á dagskránni hjá okkur að fara í CN turninn og skoða Torontoborg úr lofti ef svo má segja. Þarna fórum við bræður með drengina eins hátt og hægt var að komast en konurnar létu sér duga að fara í neðri kúluna í turninum sem er á 114. hæð ef svo má segja. Við náðum að fara á 147. hæð en lengra fór lyftan ekki. Þetta var alltsaman hin besta skemmtun og við vorum svo heppin að vera þarna uppi í ljósaskiptunum þannig að við náum að sjá borgarljósin þegar myrkrið skall á. Turninn var þá umsvifalaust flóðlýstur í öllum regnbogans litum og er eins og eitt gríðarstórt listaverk að sjá.

Myndir dagsins eru að sjálfsögðu á sínum stað.


Niagara Falls

Svona var í Niagara on the Lake í dagÉg byrja þessa færslu á að óska Lilý minni (uppáhalds dóttur minni) til hamingju með 23. afmælisdaginn. Mér finnst ótrúlegt að hugsa til baka og trúi því varla að það séu liðin tuttuguogþrjú ár síðan þessi elska kom í heiminn. Ég vildi gjarna hafa getað smellt einum kossi á þig í dag en þú átt hann bara inni Lilý mín. Í staðinn sendi ég þér þessa rós sem varð á vegi mínum í dag.

Verst að komast ekki í grillveisluna hjá þér í kvöld og ég vona að yfirgrillarinn sé ekki með mikið sviðnar augabrýr eftir atganginn við grillið.

Við bræðurnir, fjölskyldur og mamma erum búin að skemmta okkur konunglega saman í rétt að verða viku. Mamma er reyndar að verða búin að vera í tæpan mánuð og á tæplega annan eftir með okkur. Við erum búin að þvælast um nágrenni Guelph og skoða marga merka staði. Margir þessara staða eru komnir í mikið uppáhald hjá okkur Hugrúnu og það hefur verið aldeilis frábært að kynna þá fyrir stærri parti af fjölskyldunni. Að sjálfsögðu er skylda að fara með fólk í St. Jacobs og Aberfoyle þar sem annars vegar er mikill menónita og bændamarkaður hvern laugardag og hins vegar antikmarkaður. Við skreppum gjarna á bændamarkaðinn og verslum hlynsýróp og fleira góðgæti af menónítunum. Það eru engir í heiminum sem sjóða betra sýróp en þeir. Sýrópið hefur síðan verið notað óspart út í hafragrautinn á morgnanna og í ávextina á kvöldin. Ég veit ekki hvernig við förum að þegar við höfum ekki aðgang að þessu hnossgæti eftir að heim er komið. Sennilega verður þetta enn eitt af því sem maður þarf að venja sig af að nota og þá er bara að bíta á jaxlinn eina ferðina enn. En hafragrauturinn verður ekki eins ef hann er soðinn án sýrópsins.

Niagara fossar úr turninumÍ dag fórum við síðan að færa okkur aðeins lengra frá Guelph og skelltum okkur hraðbrautina að Niagara fossum. Þangað er alltaf skemmtilegt að koma og alltaf sér maður eitthvað nýtt í hverri ferð.  Í dag fórum við á bakvið fossana í göngum sem voru grafin þangað niður. Þangað höfum við ekki farið áður. Þarna niðri mátti finna drunurnar í fossinum. Við gáfum okkur mjög góðan tíma til að skoða okkur um, fara upp í turninn og ganga meðfram ánni sem rennur í miklu gljúfri frá fossinum í Ontario vatnið.

Við ókum síðan sem leið lá niður með ánni og komum við í þorpinu Niagara on the Lake þar sem við röltum um í góða stund og fengum okkur góðan kvöldmat áður en  við héldum aftur heim til Guelph.

Myndir dagsins.

 


Port Dover - Föstudagurinn 13.

SkrautAlltaf þegar föstudag ber upp á þrettánda dag mánaðar er mikil hátíð haldin hjá mótorhjólafólki hér í Ontarío. Allir sem vetlingi geta valdið flykkjast til smábæarins Port Dover sem er á norðurströnd Erie vatnsins á landamærum USA og Kanada. Í dag er einmitt föstudagurinn 13. júní og því leðraði ég mig upp í morgun og skellti mér til Port Dover. Íbúafjöldi bæjarins er á milli 5 og 6.000 alla aðra daga ársins en í dag var reiknað með nálægt 150.000 gestum til bæjarins. Þetta fólk kemur víða að og margir eru á mótorhjólum en þó eru alltaf einhverjir sem velja annan ferðamáta. Löggan sá þó til þess að bílum var ekki hleypt inn í bæinn og þangað var bara hægt að komast á hjóli.

Endalaus hjólÉg hef aldrei áður séð annan eins fjölda af mótorhjólum og var þarna á ferðinni í dag. Bærinn var gersamlega stútfullur af hjólum. Það var lagt báðu megin við hverja götu í bænum og þar sem götur voru nógu breiðar var ein til tvær raðir af hjólum líka í miðjunni. Gríðarlega mikið var um að vera hvar sem maður kom, það voru sölubásar út um allt og matsala á hverju götuhorni. Tilefni þessarar samkomu er samt fyrst og fremst að koma saman og sýna sig og sjá aðra. Að sjálfsögðu voru menn líka að sýna hjólin sín og ég get vottað um að þarna voru margir fallegir gripir. Veðurguðirnir léku við hvern sinn fingur og ég er ekki frá því að á tímabili hafi þeir líka verið að leika við tærnar á sér því það var eiginlega einum of hlýtt. Ég var mættur þarna á svæðið klukkan 10 í morgun og þegar ég fór aftur klukkan að verða tvö var enn stríður straumur af hjólum til bæjarins. Mér var tjáð að það stefndi í met þátttöku að þessu sinni og þá verður þessi atburður skráður í heimsmetabókina.

Myndirnar úr ferðinni er að finna á sínum stað í albúminu.

Nú er ég að bíða eftir að fara á flugvöllinn að sækja Ella, Agnesi og Birki sem eru þegar þetta er skrifað að fljúga yfir Labrador. Við ætlum að eyða nokkrum dögum saman hér í Kanada áður en við höldum af stað heim á leið með viðkomu á norðursvæðum Ontarío á leið okkar til Halifax.

Guelph - Port Dover

Til gamans er hér kort af leiðinni sem ég fór í dag. Þar er Lake Ontario til hægri á myndinni og Lake Erie er neðst.

 


Blíða og bloggleti

Þegar maður fer að fá skammir að heiman fyrir að blogga ekki er greinilega tími til kominn að setjast aðeins niður og koma frá sér einni færslu eða svo.

Mamma situr og fylgist með ljósagangiMamma kom til okkar fyrir rúmlega tveimur vikum eða sennilega tæplega þremur ef út í það er farið. Okkur er búið að líða alveg ljómandi vel saman og það er búið að vera frábært að hafa hana hér hjá okkur. Hún fyllir í skarðið sem Óskar skildi eftir þegar hann fór heim með Pétri um daginn. Við höfum tekið hlutunum með mestu ró og spekt og reynum að gera eitthvað flesta daga. Við erum búin að fara á nokkrar listsýningar og gallerí, skoða trjágarða og margt fleira. Mamma unir sér hið besta hjá okkur og gerir ekki miklar kröfur um þjónustu. Hún hefur líka fundið sér tíma til að baka snúða handa okkur og fleira í þeim dúr. Um helgina snæddum við lambalærið sem hún kom með hingað til okkar. Við fengum góða gesti sem nutu þessa besta lambakjöts í heimi með okkur.

Veðrið hefur verið ótrúlegt síðustu vikuna eða svo. Dag eftir dag hefur hitinn farið yfir 30 gráður og loftkælingin í húsinu hefur haft nóg með að halda sæmilega svölu fyrir okkur sem þolum illa mikið yfir 20 gráður. Á kvöldin hefur síðan venjulega þykknað upp og þau endað með miklum eldinga og þrumuveðrum. Við erum mikið búin að standa úti á svölum undir þakskyggninu og fylgjast með látunum.

Annars erum við öll kominn með hugann heim á leið. Það styttist nú óðfluga í heimferð og allir er farnir að hlakka til að koma aftur til Íslands. Ég er þessa dagana að kveðja fólk í skólanum og hitta þá sem mér finnst ég þurfa að hitta áður en við förum. Ásgeir telur niður og byrjar hvern dag á því að þylja hvað eru margir daga þangað til hitt og þetta á að gerast. Hann klárar skólann í þessari viku og getur varla beðið eftir að fá Birki frænda sinn í heimsókn og talar mikið um hvað þeir frændur muni gera saman þegar þeir hittast. Við gerum okkur ferð á flugvöllinn á föstudag og sækjum Ella, Agnesi og Birki og verðum með þau hér hjá okkur þar til við skilum af okkur húsinu og höldum af stað í rúmlega tveggja vikna ferðalag. Fyrst verður stefnan tekin norður á bóginn til Sault Ste. Marie og þaðan verður haldið i áttina til Halifax. Við höfum hugsað okkur að fljúga þaðan heim að kvöldi 14. júlí ef allt gengur eftir eins og við áætlum. Ferðalagið verður sennilega rétt rúmir 3.000 km. en við tökum það ekki allt í einu að þessu sinni. Ég mun að sjálfsögðu reyna að gera ferðalaginu einhver skil á meðan því stendur.


Los Angeles - Guelph (Dagur 18)

Los Angeles - TorontoHeimferðin gekk að óskum. Við mættum á LAX flugvöllinn í Los Angeles og vorum tímanlega í því til að ná góðum sætum í flugvélinni. Okkur tókst á ná í bestu sætin í vélinni við neyðarútgang með fínu plássi fyrir lappirnar og gátum breytt úr okkur í þremur sætum. Flugið tók rúma fimm tíma og hálf skrítið að fara þessa vegalengd á svona stuttum tíma eftir að vera búnir að eyða 14 dögum í að hjóla þetta. Ferðinni er þar með lokið hjá okkur og búið að loka hringnum. Við hjóluðum samtals 2846 mílur eða 4580 kílómetra. Okkur finnst það bara vel að verki staðið á þessum tíma. Það er ótrúlega margt sem við erum búnir að sjá og lenda í á þessari leið okkar eftir Rútu 66 og við eigum eftir að minnast þessara daga um alla framtíð. Leiðin lá um átta fylki Bandaríkjanna um fjöll, eyðimerkur, sléttur og dali. Við hittum fullt af allavega fólki á leiðinni og höfðum frábæra ferðafélaga og eigum vonandi eftir að hitta einhverja þeirra aftur.

Við erum búnir að hafa það rólegt hér í Guelph í dag og ég er aðeins búinn að vera að sýna Pétri umhverfið sem við erum búin að vera í hér í vetur. Á morgun þurfum við að fara á flugvöllinn aftur og nú til að sækja Óskar sem er að koma úr handboltaferð frá Regina. Hann kemur og verður hér fram á miðvikudag en þá fer hann heim með Pétri í beinu flugi frá Toronto.

Á meðan ég var í ferðinni var birt grein í blaði sem gefið er út hér við háskólann. Þetta er viðtal sem var tekið við mig fyrr í vor og ég var hættur að reikna með að það yrði birt. Einhver á tölvudeildinni hafði laumað því að ritstjóra blaðsins að þar væri skrítinn Íslendingur í vetursetu og drifið var í að hafa viðtal við kallinn. Bara gaman að því.

Nú fer sjálfsagt að líða eitthvað á milli bloggfærslna hjá mér en ég mun örugglega setja eitthvað hér inn eftir því sem ég nenni og mér finnst ástæða til.

 


Los Angeles (Dagur 17)

Við félagarnir erum búnir að hafa það frekar náðugt í dag. Vöknuðum frekar seint í morgun og tókum okkur góðan tíma í að vakna. Við þurftum aðeins að koma við í hjólabúð og kaupa eitt stykki stefnuljós til að setja á hjólið hjá mér því það var gerð tilraun til að keyra mig niður í gærkvöldi. Sá sem það gerði náði að brjóta stefnuljós af hjólinu en annar skaði varð ekki. Hann flýði af hólmi og ég sá hann ekki nema í hendingu en ég vona að bíllinn hans hafi skemmst við áreksturinn. Þegar við vorum búnir að redda hjólinu fórum við og skiluðum þeim af okkur. Síðan erum við búnir að taka því með mestu ró og erum að verða tilbúnir að fara að koma okkur til Kanada á morgun. Við förum af stað upp úr hádeginu og verðum komnir til Toronto annað kvöld.

Í dag er engin myndasýning.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Adam Ásgeir Óskarsson

Höfundur

Adam Ásgeir Óskarsson
Adam Ásgeir Óskarsson
Kerfistjóri í orlofi.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Draugaskip ?
  • Flottur di
  • Sæll og glaður
  • Útsýni frá gististaðnum í Jeddore
  • Charlo - Jeddore

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband