Færsluflokkur: Bloggar
16.5.2008 | 06:53
Los Angeles (Dagur 16)
Í morgun var búið að ákveða að hitta Kaptein Guðmund Hilmarsson og hjóla með honum um Los Angeles og umhverfi. Okkur langaði að fara upp í fjöllin norðan og austan við LA. Við félagarnir byrjuðum á að fara á hótelið þar sem Gummi var í gistingu. Hann kom hingað á svipuðum tíma og við í gær en vegna kveðjuhófsins höfðum við ekki tök á að hittast fyrr en í morgun. Pétur ákvað að fara frekar og reyna að hitta fræga og fallega fólkið og lét Gumma eftir hjólið sitt. Við lögðum í fjallaferð á góðum tíma í morgun og náðum að hjóla rúmlega 200 mílur í fjalllendinu í kringum LA. Leiðin sem við fórum heitir Angeles Crest Highway og er US route 2. Vegurinn sjálfur er 66 mílur á lengd og nokkrir kaflar á leiðinni eru í yfir 7000 feta hæð. Við komum á staði þar sem enn var snjór í vegarköntum þótt hitinn í dag væri á góðri leið með að bræða hann. Að lokum komum við að stað þar sem slá var fyrir veginn og hann lokaður og hefur víst verið það í mörg ár samkvæmt greininni sem ég fann á Wikipedia. Í fjöllunum er mikill gróður, runnar, kaktusar og stór furutré. Greinilegt er að þarna hafa skógareldar farið um á nokkrum stöðum, slökkvibíll ók fram og aftur um veginn og nokkrir lögreglubílar voru þarna á ferðinni. Þessi vegur er með þeim skemmtilegri sem ég hef hjólað, ekkert nema beygur og hlykkir í fjallshlíðunum og mikið að gera. Það var ekki tími til að vera að virða fyrir sér umhverfið af hjólunum svo við stoppuðum á nokkrum stöðum á leiðinni upp og niður. Útsýnið var stórfenglegt og við sáum á eina hönd Los Angeles í allri menguninni sem svona stórri borg fylgir og á hina höndina var Mojave eyðimörkin.
Við lentum í mikilli umferð á hraðbrautunum á leiðinni á hótelið og ég sem hef verið að bölva umferðinni í Toronto. Hún er þó eins og rólegur dagur á Öxnadalsheiðinni miðað við það sem við vorum að fara í dag. Enduðum síðan daginn á því að sækja Pétur þar sem hann lá undir sæng, þreyttur eftir rápið í Hollywood og fara saman út að borða. Guðmundur fer til Luxemburg í fyrramálið en við þurfum að skila af okkur hjólunum og gera okkur klára í ferðina til Guelph. Þetta fer að verða góður tími á flakki og það verður gott að koma heim aftur.
Bloggar | Breytt 17.5.2008 kl. 03:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.5.2008 | 06:34
Victorville - Los Angeles (Dagur 15)
Þá erum við loks á áfangastað, Pési og þeir vita ekkert um það, eins og segir í kvæðinu. Stutt dagleið en frekar langur og strangur dagur í mikill umferð. Alla leiðina til Santa Monika var hjólað á hraðbraut þar sem umferðin var vægast sagt mikil og hröð. Við enduðum á enda rútunnar hér í Los Angeles eða réttara sagt í Santa Monica. Þar var myndataka og maðrahlé hjá Bubba Gump shrimp conpany áður en haldið var í höfuðstöðvar Eaglerider til að skila hjólunum. Við félagarnir verðum með hjólin í tvo daga í viðbót og ætlum að taka daginn snemma í fyrramálið og halda til fundar við Guðmund vin minn Hilmarsson sem er staddur hér í bæ. Það stendur til að fara og hjóla með honum um nágrennið og ég segi betur frá því á morgun.
Kvöldið hjá okkur endaði með sameiginlegum dinner þar sem fólk sem þekktist ekkert fyrir hálfum mánuði kvaddist með virktum og lofuðu að halda sambandi. Ég verð að koma því að hérna að allir sem í þessari ferð voru skemmtu sér allan tímann. Slysið sem varð þegar frakkarnir veltu hjólinu gerði ekkert annað en styrkja þennan hóp og gera hann þéttari ef svo má segja. Maður getur ekki annað en komið ríkari úr svona ferð. Það er ótrúlega margt sem við erum búin að skoða og fræðast um á leiðinni. Ferð eins og þessi varpar nýju ljósi á margt sem maður hefur séð í sjónvarpi, fréttum og bíómyndum. Ferðafélagarnir hver öðrum betri og ég vona að ég eigi eftir að hitta sem flesta þeirra aftur í framtíðinni. Ég á inni heimboð út um allan heim, hjóltúra í mörgum löndum, veiði á Spáni og Ástralíu þannig að maður getur haldið áfram meðan maður er enn svona ungur eins og ég er.
Það er búið að vera frábært að ferðast með Pétri vinu mínum og verðandi Harley manni og ég nota þetta tækifæri að þakka Regínu fyrir að lána mér hann í tæpar þrjár vikur. Við eigum eftir að skemmta okkur vel í tvo daga hér í LA og nokkra daga í Guelph áður en kemur aftur heim í faðm fjölskyldunnar. Nú verð ég að fara að koma honum að sofa svo hann verði ferskur í fyrramálið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.5.2008 | 06:36
Laughlin - Victorville (Dagur 14)
Þetta er búinn að vera heitasti dagur ferðarinnar hjá okkur. Við lögðum af stað frá spilavítinu á svipuðum tíma og venjulega í morgun eftir svera ommelettu og tilheyrandi morgunverð. Leiðin lá beint út í Mojave eyðimörkina inn í Californiu og þar erum við búin að vera að hjóla meira og minna í steikjandi hita í dag. Vegirnir á þessu svæði eru eins og beint strik í landslaginu. Það hefði ekki þótt gott mál að leggja svona vegi á Sléttunni þegar ég var þar við vegamælingar í gamla daga. Það hefðu verið settar þar nokkrar beygur svo menn hefðu um eitthvað að hugsa við aksturinn. Við gerðum stopp á einum þessara löngu beinu vegakafla og þar voru teknar myndir. Leiðsögumaðurinn fór þá fram fyrir hópinn og stillti sér upp á miðjum veginum og myndaði hvern og einn þar sem við hjóluðum í átt til hans með eyðimörkina og beina veginn í baksýn. Hann ætlar síðan að senda okkur þessar myndir eftir ferðina.
Stoppstaðirnir á leiðinni og staðirnir sem við fórum hjá voru hin mestu krummaskuð og þar var frekar lítið um að vera.
Við komum við á stað sem heitir Amboy þar sem nýríkir Japanir hafa keypt upp staðinn og endurgert. Þarna var á sínum tíma skóli mótel og bensínstöð en nú er að allt tómt nema þessi uppgerða bensínstöð og minjagripasala. Þarna rétt hjá er eldgígur (Amboy Crator) sem minnti mjög mikið á Hverfjall í Mývatnssveit og hraun í kring ekki ólíkt því sem er víða við eldstöðvar á Íslandi. Við erum á nokkrum stöðum búin að fara um slík svæði en eldstöðvarnar hafa ekki verið eins sjáanlegar og þarna. Á þessari leið var vegurinn holóttur og leiðinlegur svo allir voru hálf fegnir þegar komið var á hraðbraut og betri veg. Í Barstow var stoppað í mat seinnipartinn og síðan ekið síðasta spölinn til Victorville þar sem við erum í nótt. Á leiðinni þangað bilaði hjólið hjá Helenu (Finnsku konunni) og það var skilið eftir við hraðbrautina og sótt á kerru stuttu seinna. Nú er spurning hvort tekst að gera við það áður en haldið verður í lokaáfanga þessarar ferðar í fyrramálið.
Á hóteinu var okkur í fyrstu úthlutað herbergi með einu stóru og góðu hjónarúmi. Pétur harðneitaði að sofa hjá mér, ég verð sennilega að fara að raka mig. Eftir ferð í hótelmóttökuna fengum við annað herbergi þar sem voru tvö rúm en biluð loftkæling. Þetta þótti ekki alveg nógu gott eftir að vera búnir að hjóla í 40 stiga hita í mestallan dag svo aftur var Pétur sendur í móttökuna og í þetta sinn vorum við settir í svítu með tveimur loftkælingum og eldhúsi og ég veit ekki hvað og hvað. Við vorum að grínast með það að morgunverðurinn yrði hjá okkur í fyrramálið. Loftkælingin virkaði svo vel að Pétur er kominn undir teppi.
Myndir dagsins eru þar sem hinar eru.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.5.2008 | 07:28
Williams - Laughlin (Dagur 13)
Vegna hátíðahaldanna í gærkvöldi var haldið af stað klukkutíma seinna en venjulega. Leiðin lá nokkrar mílur eftir hraðbrautinni frá Williams. Þar tók Routet 66 við og héldum við okkur síðan á henni meiri hluta dagleiðarinnar. Við fórum í gegnum nokkra bæi sem byggðust upp fyrst og fremst sem þjónustubæir fyrir þá sem voru að ferðast milli landshluta eftir Route 66. Við fórum fyrst í gegnum smábæinn Ash Fork og þaðan lá leiðin til Seligman. Þar var búið að ákveða að stoppa og borða morgunmatinn þar en ekki á hótelinu. Við fórum á þennan líka fína stað í þessum smábæ sem er ekki mikið annað en nokkur veitingahús, mótel og minjagripaverslanir. Þarna var hægt að versla alla mögulega minjagripi og ef það er hægt að setja 66 merkið á hlut þá var hann til í þessum búðum. Þrátt fyrir að flestir séu búnir að versla meira en nóg af minjagripum bættu flestir á sig einhverju. Það var allt frá fingurbjörgum, veggmyndum, límmiðum og leðurjökkum og ég veit ekki hvað og hvað. Leiðsögumaðurinn fór í sína árlegu vorklippingu hjá rakara sem er búinn að vera með rakarastofu þarna í bænum í meira en fimmtíu ár.
Eftir gott stopp var haldið af stað aftur og leiðin lá í gegnum bæinn Hackberry og þaðan áfram til bæjarins Kingman. Þar var stoppað hjá Harley vini okkar og enn var bætt við sig bolum og fleiru sem ekki er hægt að vera án.
Áfram lá leiðin og nú var haldið upp í móti og farið í gegnum fjallaskarð og stefnan sett á bæinn Oatman sem er gamall gullgrafarabær uppi í fjöllunum. þarna var farið í gegnum skarðið eftir frekar þröngum vegi með mörgum hlykkjum og bratt niður af veginum. Þegar við komum til bæarins Oatman var eins og við værum komin í annan heim. Umhverfið var eins og maður hefur séð í gömlum vestrum og greinilega gert í því að halda því sem slíku. Þeir sem voru svangir fóru og fengu sér buffalóhamborgara á stað sem kallaður er milljóndollarahótelið. Þetta er staður sem maður hafði á tilfinningunni að væri að syngja sitt síðasta. Upp um alla veggi var búið að hefta dollaraseðla sem gestir staðarins höfðu skrifað nafnið sitt á og hefta á veggi og loft og hvar sem hægt var að hefta. Mjög skrítinn staður. Þetta var gamalt hótel á sínum tíma og það vantaði ekkert nema Clint Eastwood og Jón Væna til að gera staðinn algerlega raunverulegan. Um bæinn röltu asnar sem upphaflega voru notaðir í sambandi við gullgröftinn á svæðinu en eru nú villtir þarna og asnast í fólki sem kemur við í bænum.
Við erum búin að vera að koma okkur niður af hásléttum Arizona og erum búin að fara gegnum allskonar landslag. Þar sem við byrjuðum í Williams í morgun var umhverfið skógi vaxið og tiltölulega grænt en þeggar á daginn leið fór að verða heitara í veðri og gróður að verða strjálli og eyðimerkurlegri. Við erum enda að nálgast mjög Mohaveeyðimörkina sem við förum í gegnum á morgun. Það verður líklega heitasti dagurinn í ferðinni. Við erum búinn að fara úr 700 feta hæð niður í um 200 fet í dag. Hitinn í dag var í kring um 30 gráður og það finnst mér nú alveg nóg. Síðasta spölinn hjóluðum við í gegnum bæinn Bullhead City sem er á mörkum eyðimerkurinnar. Bærinn er fyrst og fremst byggður upp sem heimili fólks sem hætt er að vinna. Það sem gerir mögulegt að vera með borg á þessum stað er Colorado áin sem rennur þarna um. Það er engin smá á. Við sáum hana líka í gær þegar við borum í Miklagljúfri, áin er um 2330 kílómetra löng. Margar stíflur eru í ánni og mikil rafmagnframleiðsla fer þar fram.
Hótelið sem við erum á í nótt er í raun heljarinnar spilavíti en það er staðsett í Nevada. Þar eru spilavíti lögleg. Þegar við komum inn á hótelið í leðurgöllum og tilheyrandi þurft um við að ganga í gegnum spilavítið og mér fannst það frekar sorgleg sjón sem blasti við okkur. Meðalaldur þeirra sem sátu þarna og dældu peningum í spilakassana var eitthvað yfir 70 ár. Við komum okkur upp á herbergi 6006 og þrifum okkur og gerðum klára í hlaðborðið sem beið okkar. Ég hef sennilega verið orðinn sljór af áti því ég missti Pétur frá mér eitt andartak og fann hann síðan við rúllettuborðið þar sem hann var kominn á kaf í rúllettuspil. Sem betur fer var vera hans þar ekki veruleg því hann tapaði fimm dollurunum sem lagði úr eftir smá stund. Eitt andartak var hann í talsverðum gróða og ég vr farinn að vonast eftir að hann borgaði morgunmatinn í fyrramálið en það gekk ekki eftir því hann spilaði þar til allt var búið og þá náði ég honum upp á herbergi og gaf honum leyfi til að leika sér að fjarstýringunni í smá stund. Það virkar venjulega þannig að hann sofnar værum svefni og það klikkaði ekki í kvöld.
Síðasti alvöru hjóladagur þessarar ferðar er á morgun. Þaðan sem við gistum næstu nótt er frekar stutt leið á leiðarenda. Þótt þetta sé búin að vera einstök ferð og frábær skemmtun get ég ekki neitað því að ég er farinn að hlakka til að koma heim og hitta fólkið mitt aftur eftir þessa törn. Við eigum þó eftir skemmtilegan tíma í LA og nágrenni í vikulokin.
Myndirnar er þar sem þær eru alltaf.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.5.2008 | 07:54
Grand Canyon (Dagur 12)
Þetta er búinn að vera í einu orði stórkostlegur dagur frá morgni til kvölds. Við vöknuðum á okkar venjulega tíma klukkan sjö í morgun og biðum spenntir til klukkan níu þegar átti að leggja af stað í Miklagljúfur. Leiðin þangað frá Williams er um 60 mílur eða um klukkutími miðað við skikkanlegan hraða. Ferðin í þjóðgarðinn gekk að óskum og þar tók við ferðalag sem er engu líkt. Mikilfengleika þessa staðar verður ekki lýst í fáum orðum. Við hjóluðum nærri gljúfurbarminum og stoppuðum á öllum þeim stöðum sem við máttum stoppa á. Þar voru teknar myndir og teknar fleiri myndir og svo var tekið aðeins meira af myndum. Upplifunin var engu lík og okkur fannst við verða að reyna að setja eins mikið af þessu á stafrænar myndir og við gátum. Reyndar kom í ljós þegar ég var búinn að taka nokkrar myndir á vélina mína að ég hafði gleymt minniskortinu á hótelinu, ég fór í verslanir þarna á svæðinu til að kaupa mér annað kort en fékk ekki kortið sem mig vantaði í vélina. Því eru myndir dagsins í dag birtar með góðfúslegu leyfi Péturs sem myndaði af miklum móð og tók örugglega margfalt fleiri myndir en hann hefði annars gert því hann var að mynda fyrir okkur báða.
Við höfðum hugsað okkur að fara á svalir með glerbotni sem ég hafði frétt að væri búið að byggja á gljúfurbarminum. Mig langaði að standa á þessu gleri og horfa í djúpt hyldýpið undir fótunum á mér. Ég vissi ekki fyrr en í gær að til að komast á þessar svalir þurfti að hjóla 200 mílur aðra leiðina svo það gekk ekki að gera það en í staðinn linnti Pétur ekki látum fyrr en hann var búinn að draga mig í þyrluflug um gljúfrin. Það var ein upplifunin í viðbót. Við fórum í klukkutíma flug upp og niður í gljúfrin og það var stórkostlegt að sjá þetta landslag frá þessum sjónarhornum. Og enn var myndað og myndað þar til fór að koma merki um að rafhlaðan í myndavél Péturs var að verða búin. Það var samt undarlegt hvað honum tókst að taka margar myndir á síðustu elektrónunum í rafhlöðunni. Það er ekki nokkur lífsins leið að skoða þarna allt sem vert er að skoða á einum degi enda er Miklugljúfur á stærð við Sviss svona rétt til að fá samanburð.
Eftir þyrluflugið tókum við okkur til og hjóluðum enn lengra inn með gljúfrunum og skoðuðum það sem hægt var. Í morgun ákváðum við feðgarnir (það eru nokkrir búnir að spyrja hvort ég sé pabbi Péturs) að far í bolina sem Pétur kom með frá Harley í Reykjavík. Þessir bolir vöktu athygli og margir sem við hittum komu að máli við okkur og spurðu hvort við værum virkilega frá Íslandi. Við hittum m.a. prófessor frá háskóla í Flórída sem hafði verið heima að vinna fyrir Íslenska Erfðagreiningu og honum fannst gaman að segja okkur frá því sem hann hafði séð á Íslandi. Á einum af síðustu stöðunum sem við stoppuðum á rákumst við síðan á tvo Íslenska stráka sem voru að skoða gljúfrin og höfðu ekið hingað frá Seattle. Við fengum þá til að mynda okkur (nema hvað) og mynduðum þá í staðin á hjólunum. Við vorum þeir síðustu að yfirgefa svæðið og rétt náðum að komast á hótelið og skella okkur í sturtu fyrir matinn.
Myndirnar frá ferðinni í gljúfrin er á myndasíðunni.
Í kvöld var allur hópurinn saman í mat á hótelinu. Fyrir Hauk vin minn Jónson set ég hér á síðuna mynd sem er sérstaklega tekinn af kvöldmatnum fyrir hann. Þetta var í alla staði hið besta samsæti. Þegar ég ætlaði að fara að koma mér inn á herbergi að blogga og koma myndum fyrir á sínum stað komu einhverjar vöblur á Pétur. Það kom síðan í ljós að hann er búinn að fara á bak við mig í marga daga. Vinurinn var búinn ásamt leiðsögumanninum okkar að skipuleggja þetta líka partý. Þarna var komin terta af sverustu gerð, freyðivín á línuna og eplasafi fyrir mig, allt úthugsað og pælt. Þarna upphófst þessi hörku veisla með dansi og músík sem tilheyrir ferð eins og þessari. Það var sungið og dansað af miklum móð og ekki var annað að sjá en að allir skemmtu sér hið besta. Þetta kom mér svo gersamlega að óvörum en varpar um leið ljósi á ýmislegt sem Pétur hefur verið að laumast með síðustu dagana. Ég gat til að mynda alls ekki skilið hvað hann vildi á köflum vera laus við mig og var farinn að hafa áhyggjur af því að ég hefði gert honum eitthvað.
Eins og ég sagði áðan þá er þetta búinn að vera stórkostlegur dagur og mig langar að þakka öllum sem hafa gert þennan dag sérstakan og frábæran fyrir mig. Allir sem sendu mér kveðju í dag fá bestu þakkir fyrir. Hugrún mín sem stakk upp á að ég færi í þessa ferð og Pétur vinur minn sem var tilbúinn að fara þessa ferð með mér með litlum fyrirvara fá sérstakar þakkir.
Nú verð ég að fara að hætta þessu og hvíla mig enda langur dagur á morgun en þá heldur hersingin áfram í átt til LA.
Myndir úr partýinu er líka komnar á sinn stað.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.5.2008 | 06:55
Gallup - Williams (Dagur 11)
Ferðin okkar verður bara betri og betri með hverjum deginum sem líður. Við erum stundum að ræða það á kvöldin á meðan ég er að svæfa Pétur hvað liðinn dagur hafi verið góður. Dagurinn í dag toppar alla hina dagana þótt þeir hafi líka verið frábærir. Við erum búin að vera að hjóla í gegnum þvílíkt landslag í dag að það er erfitt að lýsa því sem fyrir augu hefur borið. Það var frekar svalt í morgun þegar við lögðum af stað. Við byrjuðum á að hjóla inn í Arizona og skoða þar margra milljóna ára gömul steingerð tré. Þjóðgarðurinn Petrified Forest á ekki marga sína líka. Þarna væri hægt að eyða mörgum dögum í að skoða og þvælast um. Þarna eru setlög sem hafa látið undan vindi og vatni og þá koma margar myndir á landslagið. Steingerðu trén þarna eru ekki nein smásmíði og litir í landslaginu eru ótrúlegir. Þarna má ekki taka steina eða neitt með sér út úr þjóðgarðinum en ég gat ekki stillt mig um að kippa með mér nokkrum steinvölum. Á leiðinni út úr garðinum er varðstöð þar sem leitað er í bílum og farartækjum en það slapp til. Verðinum leist þannig á að mótorhjólahópur væri ekki að þyngja sig með steinum og þvílíku.
Eftir ferðina um þjóðgarðinn var haldið um bæinn Holbrook þar sem komið var við á móteli sem hefur verið sett upp sem indíánaþorp enda bærinn á aðalsvæði Navajo indíána. Þvínæst lá leiðin til bæjarins Winslow sem má muna betri daga þegar Route 66 var og hét. Bærinn var gerður ódauðlegur með lagi hljómsveitarinnar Eagles sem inniheldur línurnar:
- Well, I'm a standin' on a corner in Winslow, Arizona,
- and such a fine sight to see
- It's a girl, my Lord, in a flatbed Ford,
- slowin' down to take a look at me
Þarna var komið við á horninu og þar stóð maðurinn enn á horninu og Fordinn við hliðina. Lagið var spilað á fullu á og myndum smellt af í gríð og erg. Þegar myndatökum og minjagripakaupum á horninu lauk far stefnan tekin á Flagstaff og þar var komið við í Harley umboði staðarins. Það þurfti aðeins að laga nokkur hjólanna til, skipta um ljósperur og eitthvað smálegt. Þarna erum við komin inn í klettafjöllin og umhverið allt orðið skógi vaxið og stórfenglegt að sjá eftir ferðina í gegnum eyðimerkurnar frá því í morgun og í gær. Ferðin endaði síðan í bænum Williamsþar sem við gistum í nótt. Við fórum og fengum okkur kvöldmatinn á alvöru Route 66 diner þar sem enn er verið að reyna að halda í gamla tíma. Maturinn var fínn og gaman að koma á svona stað. Bærinn er greinilega miðstöð mikilla lestaflutninga. Við erum búin að hjóla framhjá lestum sem eru með þrjár til fjórar eimreiðar og eru hátt í þrjá kílómetra að lengd.
Á morgun er svo dagurinn sem allir hafa beðið eftir, Miklugljúfur með öllu sem þeim fygir. Sumir ætla að fara í þyrluflug en við félagarnir ætlum að halda okkur á jörðinni eins og venjulega og hjóla um svæðið og skoða allt sem við getum. Ég komst reyndar að því í dag að brúin sem ég ætlaði mér að standa á á morgun er í 180 mílna fjarlægð þannig að við náum því því miður ekki að koma þar við. Til þess þyrftum við að leggja af stað eldsnemma í fyrramálið og værum ekki komin heim fyrr en seint. Hópurinn fer saman að gljúfrunum og síðan fara menn sitt í hverja áttina og leika sér fram eftir degi og við stefnum á að enda morgundaginn á því að hjóla saman inn í sólarlagið og hvað er hægt að hugsa sér betra í ferð eins og þessari. Ekkert.
Það væri endalaust hægt að halda áfram að skrifa um dag eins og þennan en ég er venjulega að brasa við þetta eftir að ég ætti að vera kominn í rúmið en ég er að þessu fyrir sjálfan mig og þá sem hafa gaman af því að lesa þetta raus í mér.
Nú er ferðafélaginn sofnaður og ég er farinn að heyra í honum ákveðin hljóð. Það fer að verða spurningin hver þarf að nota tappana í nótt
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.5.2008 | 05:42
Santa Fe - Gallup (Dagur 10) - Taka 2
Það var eitthvað svo lélegt sambandið á hótelinu í gær að færslan sem ég var búinn að skrifa hefur ekki skilað sér inn. Því ætla ég að reyna að skrifa eitthvað af því aftur. Dagleiðin var eitthvað nærri 200 mílum og hjóluðum við í allan gærdag eftir hásléttum og eyðimörkum í New Mexico. Það var nokkuð ljóst að við vorum ekki að ferðast um ríkasta hluta Bandaríkjanna. Fyrst til að byrja með vorum við að hjóla í hæðóttu landslagi þar til við komum til Albuquerque sem er stærsta borgin í New Mexico. Þar fórum við á verulega fínan stað í hádeginu og skoðuðum gamla bæinn. Það var mikið gert út á túrisma og indíánar og mexíkanar að selja alls konar dót. Á leiðinni út úr bænum fórum við yfir Rio Grande ánna sem rennur til sjávar í Mexíkóflóanum. Síðan lá leiðin áfram í vestur í gegnum nokkra smábæi og húsþyrpingar. Á köflum var eins og maður væri kominn í gamar kúrekamyndir því þaðan kannast maður við umhverfið. Gerðum stutt stopp í bænum Lagunaog fóraum þaðan til Gallup þar sem við vorum síðustu nótt. Sú borg er þekkt sem ein aðal indíánaborgin í heiminum. Navajo, Zuni, Hopi indíánar voru ráðandi á þessum svæðum hér á árum áður.
Læt þetta duga um gærdaginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.5.2008 | 14:03
Santa Fe - Gallup (Dagur 10)
Færslan sem ég skrifaði í gær hefur ekki komist til skila og ég sé til hvað ég hef tíma til að gera í kvöld og á morgun. Allt gekk eins og í sögu og við vorum komin tímanlega á hótelið.
Myndirnar frá í gær eru samt á sínum stað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.5.2008 | 04:48
Santa Fe (Dagur 9)
Dagurinn í dag hefur liðið í mestu rólegheitum hér í Santa Fe. Þetta er allt öðruvísi borg en aðrar amerískar borgir sem ég hef komið í. Allar byggingar eru lágreistar og með yfirborði sem minnir mest á Spán. Húsin eru rauðbrún á litinn og kemur rauði liturinn greinilega úr sendnum jarðveginum sem er hér allt í kring. Borgin er höfuðborgin í fylkinu New Mexico og er sú höfuðborg Bandaríkjanna sem er hæst yfir sjávarmáli eða 2134 metra. Hér er allt löðrandi í galleríum og list á hverju horni. Borgin er sögð vera sú þriðja dýrasta í Ameríku. Þar sem ég er ekki hér í verslunarleiðangri veit ég ekkert um það. Ég vaknaði seint í morgun enda fór ég seint að sofa í gærkvöldi eftir viðburðaríkan dag. Pétur laumaði sér út í morgun og lét lítið á sér bera þannig að ég svaf vel og lengi.
Eftir hádegið fann Pétur sér góða konu sem var tilbúin að nudda hann allan hátt og lágt. Ég fór með Áströlunum í góðan göngutúr um bæinn og skoðuðum við meðal annars ráðhúsið þar sem var í gangi allsherjar listasýning af öllu því besta frá New Mexico. Þarna fengum við að ganga um alla sali og ganga og skoða það sem okkur langaði til að skoða. Fylkisstjórinn var ekki við en okkur hefði án efa verið hleypt inn til að spjalla við hann ef svo hefði verið. Við skoðuðum gamla kirkju hér í bænum sem á að vera elsta kirkja í landinu og hús sem sagt er vera elsta hús í Bandaríkjunum þar við hliðina. Bærinn er fullur af styttum og listaverkum hvar sem maður kemur.
Þegar ég kom til baka var Pétur enn að jafna sig eftir nuddkonuna en lýsti því yfir að nuddið hefði verið hin besta slökun enda átti ég í vandræðum með að ná drengnum aftur í gang.
Enduðum daginn á því að fara með Áströlunum að fá okkur í svanginn.
Myndirnar lýsa því sem fyrir augu bar í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.5.2008 | 07:51
Amarillo - Santa Fe (Dagur 8)
Veðurguðirnir voru að stríða okkur í morgun því þegar við vöknuðum var hellirigning og gekk á með þrumum og eldingum. Við gáfum okkur því góðan tíma í morgunverðinn á Big Texan veitingastaðnum sem við fórum á í gærkveldi. Morgunverðurinn var sá besti hingað til og var í stíl við steikurnar sem við erum enn að melta. Við biðum af okkur rigninguna og lögðum af stað klukkutíma á eftir áætlun. Fyrsta stopp var í Harley Davidson umboðinu í Amarillo. Menn eru að átta sig á veðrinu og nokkrir þurftu að bæta við sig léttari klæðnaði en þeir höfðu með sér að heiman. Eftir að allir voru búnir að gera það sem þeir þurftu var stefnan tekin á Cadillac Ranch þar sem einhverjum snillingnum datt í hug að skella 10 útkrotuðum Cadillac bílum á endann með farmendann niður í jörðina á rykugum hveitiakri. Þetta er staður sem flestir sem eru á þessari leið koma við á og margir taka sig til og bæta við krotið á bílunum. Þarna var allt á kafi í leðju eftir rigninguna frá því í nótt. Pétur gleymdi því eitt andartak að hann sat á 350 kílóa Harley krómhlunki og fór út af malbikinu þegar hann var að snúa við. Hallinn virkar ekki eins og torfæruhjól og lagðist á hliðina. Enginn skaði var skeður og hjólið var reist við í snarhasti og ferðinni haldið áfram.
Við vorum ekki komin langt þegar vegurinn mjókkaði allt í einu um tæpan metra. Frakkarnir voru ekki að fylgjast alveg nægilega vel með veginum framundan og fóru þarna út af malbikinu og út í drulluna í vegkantinum. Hjólið fór um leið á hliðina og skoppaði þrjá hringi á veginum og þau bæði sem á hjólinu voru hentust af og voru svo heppin að lenda ekki undir eða fyrir hjólinu þar sem það hringsnerist eftir veginum og út af honum hinumegin. Þau voru fjórðu öftust í röðinni og við sem á eftir þeim komum máttum bremsa eins og við gátum og passa okkur að lenda ekki á þeim þar sem þau runnu eftir malbikinu á eftir hjólinu og útaf í sömu átt og hjólið fór. Við stukkum til þeirra þar sem þau lágu til þess að huga að þeim. Sem betur fer sluppu þau með minniháttar skrámur og það er það sem skiptir máli. Það er algerlega ljóst að þarna skipti klæðnaður og öryggisbúnaður öllu máli. Þeir sem voru á undan þeim í hópnum tóku ekki eftir þegar þetta gerðist og héldu áfram. Þegar við vorum búin að fullvissa okkur um að krakkarnir væru ekki stórslasaðir fór Cris, Englendingur á eftir hópnum til að sækja leiðsögumanninn og láta hann vita hvað gerðist. Á meðan var kallað á lögreglu og sjúkrabíl. Eftir að búið var að skoða krakkana í sjúkrabílnum og ganga úr skugga um að allt væri í lagi völdu þau að halda áfram ferðinni með okkur í bílnum sem fylgir okkur eftir með farangurinn. Hjólið var sótt og sett á bíl og það flutt á verkstæði í Amarillo. Það mátti ekki miklu muna að þarna yrði stórslys og allir voru vitanlega mjög sjokkeraðir eftir þessa reynslu.
Á meðan þetta gekk á beið restin af hópnum eftir okkur á stað í smábænum Adrian sem sagður er vera á miðri leið á milli Chicago og LA enda er staðurinn nefndur Midpoint út af staðsetningunni. Þarna er rekið kaffihús og veitingastaður á sviðaðan hátt og gert var þegar Route 66 var og hét. Þegar þessum áfanga er náð er orðið styttra á vesturströndina en til Chicago.
Þegar hér er komið sögu vorum við að verða talsvert á eftir upphaflegri áætlun dagsins. Því var haldið frekar greitt af stað til New Mexico í gegnum bæinn Tucumcari og stoppað næst á bílasafni í bænum Santa Rosa. Sá hluti Route 66 sem liggur í gegnum bæinn var notaður við myndatökur á Þrúgum reiðinnar eftir John Steinbeck. Í bílasafninu er fjölmargir gamlir bílar og ýmislegt forvitnilegt að sjá. Við stöldruðum þarna við í dágóða stund en síðan var haldið sem leið lá til Santa Fe með einu bensínstoppi í Las Vegas. Hérna ætlum við að vera á morgun og ekki er nein ákveðin dagskrá fyrir hópinn. Mér sýnist við fyrstu sýn að það verði vandræðalaust að eyða hér einum degi. Á leið okkar á hótelið sem er alveg í miðbænum var ekki margt að sjá sem minnir á amerískar borgir. Ég sé fram á að eiga hér mjög fróðlegan dag á morgun.
Landslagið hefur tekið miklum breytingum í dag. Við byrjuðum á sléttlendinu í Texas þar sem tún og akrar voru svo langt sem hægt var að sjá, allt marflatt og hvergi hæð að sjá. Þegar við komum í útjaðar Texas fór landið að verða öldóttara og allur gróður að verða strjálli og virka þurrari. Í New Mexico tók síðan eyðimerkurgróður og runnar við og fjöll fóru að koma í ljós. Þegar við nálguðumst áfangastað fór meira að sega að sjást hér snjór í fjöllum.
Nú ætla ég að hætta þessu í bili og fara að koma mér í svefninn eftir verulega viðburðaríkan dag. Pétur er löngu sofnaður í næsta rúmi og ég ætla að drífa mig að hjóla með honum í draumalandinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Adam Ásgeir Óskarsson
Tenglar
Tengdar síður
Nokkrar síður sem vert er að skoða
- Myndasíða Myndasíða
- Ásgeir Andri Adamsson Hér bloggar Ásgeir
- Óskar Helgi Adamsson Hér bloggar Óskar
- Lilý Erla Adamsdóttir Hér blogagr Lilý
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar